Þýðingar

Ós pressan efnir til dagskrár um þýðingar á Tjarnarbarnum í Tjarnarbíói fimmtudagskvölið 22. ágúst kl. 20. Þar spjalla rithöfundar og þýðendur um reynslu sína og samstarf frá ólíkum sjónarhornum. Viðburðurinn er öllum opinn og ekkert kostar inn. 

Ós pressan er sjálfstætt starfandi félag rithöfunda sem hefur það að leiðarljósi að styðja við nýja rithöfunda og koma þeim fram á sjónarsviðið auk þess að skapa fjölbreytt rithöfundasamfélag og ögra hefðbundinni bókaútgáfu á Íslandi. Ós pressan var stofnuð í Reykjavík 2015 og hefur frá árinu 2016 árlega gefið út hið fjöltyngda bókmenntatímarit Ós - The Journal

Dagskrá

Mantas Balakauskas og Anton Helgi Jónsson lesa upp og spjalla um þýðingar Antons á ljóðum Mantas.

Ewa Marcinek og Helen Cova lesa upp og spjalla um það að þýða eigin verk.

HLÉ

Anton Helgi Jónsson og Luciano Dutra lesa upp og spjalla um þýðingar sínar á ljóðum sænska skáldsins Claes Andersson, sem er nýlátinn.

Meg Matich og Fríða Ísberg lesa upp og spjalla um þýðingar Meg á ljóðum Fríðu.

Samræðurnar fara fram á ensku og íslensku auk þess sem nokkur önnur tungumál gætu slæðst með. Þeim stjórna Kristín Svava Tómasdóttir og Maxine Savage. Kynnir kvöldsins fyrir hönd Ós pressunnar er Anna Valdís Kro.

Viðburðurinn er skipulagður í samstarfi við Tjarnarbarinn. 

um þau sem fram koma

Anna Valdís Kro fæddist á Akureyri. Hún er leikskólakennari, rithöfundur og útgefandi og einn af stofnendum Ós pressunnar. Móðir hennar er íslensk og faðir hennar norskur. Hún skrifar ljóð en þó aðallega prósa, oftast á íslensku og ensku en hefur líka gaman af að spreyta sig á öðrum tungumálum. 

Anton Helgi Jónsson er fæddur í Hafnarfirði. Sem ungur maður var hann viðriðinn leikhús auk þess sem hann orti ljóð en síðar lærði hann heimspeki við Háskólann í Stokkhólmi þar sem hann bjó í mörg ár. Hann hefur gefið út átta ljóðabækur og eina skáldsögu en auk þess skrifað leikrit og sinnt ýmsum þýðingum.

Ewa Marcinek er frá Póllandi en hefur búið í Reykjavík frá 2013. Hún er menntuð í menningarfræðum, skapandi skrifum og listum. Hún er ein af stofnendum Ós pressunnar og er nýlega orðin ljóðskáld við Rauða skáldahúsið. Ewa skrifar á pólsku og ensku samhliða því sem hún fínpússar íslenskuna sína og leikur sér með opinberar sjálfsmyndir og sjálfsmyndir einkalífsins, persónulegar sögur og minningar.

Fríða Ísberg lauk grunnprófi í heimspeki og meistaraprófi í ritlist við Háskóla Íslands. Fyrsta ljóðabók Fríðu, Slitförin, kom út árið 2017 og hlaut Nýræktarstyrk frá Miðstöð íslenskra bókmennta, var tilnefnd til Fjöruverðlaunanna og hlaut einnig Bóksalaverðlaunin. Fyrsta smásagnasafn hennar, Kláði, kom út 2018. Það hlaut annað sæti í Bóksalaverðlaununum og var einnig tilnefnt til Fjöruverðlaunanna.

Helen Cova er rithöfundur og vinnur í skólafrístund. Hún er formaður Ós pressunnar. Hún hefur gefið út barnabók á þremur tungumálum (Snúlla finnst gott að vera einn) og þótt hún líti ekki á sig sem þýðanda hefur hún þýtt nokkur af sínum eigin verkum, einkum úr spænsku á ensku.

Kristín Svava Tómasdóttir er ljóðskáld og sagnfræðingur. Hún hefur gefið út þrjár ljóðabækur og eina sagnfræðibók um sögu kláms á Íslandi, auk þess að hafa þýtt verk á borð við SORA - manifestó eftir bandaríska femínistann Valerie Solanas og Þunga eyjunnar eftir kúbanska skáldið Virgilio Piñera.

Luciano Dutra er fæddur í Viamão (Rio Grande do Sul) í Brasilíu. Hann er náttúrufræðingur með BA-gráðu í íslensku máli og bókmenntum og meistaragráðu í þýðingarfræðum frá Háskóla Íslands. Hann hefur sinnt íslensk-portúgölskum skjalaþýðingum frá  2009 og rannsóknum á íslenskum innflytjendum í Brasilíu. Auk íslenskra og norrænna bókmennta samtímans hefur hann þýtt Íslendingasögur. Árið 2014 stofnaði hann forlagið Sagarana sem sérhæfir sig í útgáfu þýddra bókmennta milli Norðurlandanna og portúgölsku.

Mantas Balakauskas er litháískt ljóðskáld af yngri kynslóðinni. Hann lærði sagnfræði við Menntavísindaháskólann í Litháen. Ljóð hans hafa birst í litháísku bókmenntatímaritunum Šiaurės atėnai, Literatūra ir menas og Naujoji Romuva og í riti Vorljóðahátíðarinnar í Litháen. Árið 2013 hlaut hann Pushkin-verðlaunin á Druskininkai-haustljóðahátíðinni og hann var einn af stofnendum Slinktys-menningarfélagsins árið 2015. Fyrsta ljóðabók hans, Róm, kom út árið 2016 og var útnefnd ein af fimm bestu ljóðabókunum í keppninni um bækur ársins í Litháen.

Maxine Savage er bókmenntaþýðandi og framhaldsnemi í skandinavískum fræðum við Háskólann í Washington. Þýðingar háns og önnur skrif hafa meðal annars birst - eða munu birtast - í tímaritunum Ós – The Journal, Harvard Review og Seedings. Maxine vinnur nú að þýðingu á ljóðabók Elísabetar Jökulsdóttur Ástin ein taugahrúga. Enginn dans við Ufsaklett með stuðningi frá Fulbright-stofnuninni og The American-Scandinavan Foundation.

Meg Matich er með gráðu í ritlist frá Columbia-háskólanum í New York. Hún hefur hlotið ýmsar viðurkenningar fyrir verk sín - frá DAAD-sjóðnum, Miðstöð íslenskra bókmennta, PEN America og Fulbright-sjóðnum. Meg er ein af stofnendum Rauða skáldahússins í Reykjavík. Fyrsta þýðing hennar á bók í fullri lengd, Cold Moons (Tími kaldra mána eftir Magnús Sigurðsson) kom út árið 2017.