Sýning og smiðja með Philippe Guerry

Philippe Guerry er frá La Rochelle í Frakklandi. Hann dvelur nú í Gröndalshúsi í boði La Rochelle Centre Intermondes í samvinnu við Alliance francais á Íslandi og Bókmenntaborgina Reykjavík. Philippe heldur sýningu í húsnæði Alliance francais í Reykjavík og leiðbeinir í ritsmiðju laugardaginn 3. nóvember.

Philippe Guerry hóf feril sinn sem bókavörður og vann einnig að kennslu og rannsóknum. Hann starfar nú sem sjálfstæður blaðamaður og fæst við persónulegt ritlistarverkefni. Hann hefur birt texta í bókmenntatímaritum, svo sem Le paresseux littéraire og Dissonances, og skrifar líka bloggtexta í Bonheur portatif og Au petit commerce. Philippe vinnur gjarnan með ljósmyndurum og myndlistarmönnum og heldur úti lítilli útgáfu, Philippe Book Club. Hann hefur verið að þreifa sig áfram með örtexta þar sem hann vinnur með minningar, sjálfsskoðun, landslag og athuganir á hversdagslífinu. Hér í Reykjavík hefur hann m.a. skoðað borgina fótgangandi og hefur í hyggju að skrifa stutta texta um þetta borgarflandur sitt. 

Sýning á ljósmyndum og ritverkum

Miðvikudaginn 31. október kl. 18 opnaði samsýning Philippe Guerry og Helgu Nínu Aas í húsnæði Alliance francais í Tryggvagötu 8 í Reykjavík. Þar sýna þau ljósmyndir Helgu Nínu og texta og ljósmyndir eftir Philippe. Þau skoða bæði lokun hverfisverslana, annars vegar í Reykjavík og hins vegar í Charentes héraðinu í Frakklandi. Hvort um sig sýnir þessa þróun á sinn einstaka hátt, Helga Nína í sterkum ljósmyndum og Philippe með samspili mynda og stuttra texta .

Sýningin verður opin frá 31. október til 3. nóvember á opnunartíma Alliance francais. 

Opin ritsmiðja, bókagerð og Bókamarkaður

Laugardaginn 3. nóvember verður bókamarkaður í húsnæði Alliance francais í Tryggvagötu frá kl. 13 - 17 og gestir geta þá líka skoðað fyrrnefnda sýningu. Frá kl. 14 - 16 leiðbeinir Philippe Guerry svo í opinni ritsmiðju á sama stað. Hún fer fram á frönsku og eru allir hjartanlega velkomnir að taka þátt. Ritsmiðjan verður í tvennu lagi, annars vegar leiðbeinir Philippe gestum við skrif örtexta og hins vegar við gerð smábóka. Þátttakendur geta því farið heim með sína bók eftir smiðjuna.

Smiðjan er ætluð bæði börnum og fullorðnum og er þátttaka ókeypis.

Eftir smiðjuna verður svo einn þekktasti kökugerðarmaður heims, Jacquy Pfeiffer, á staðnum. Hann gefur fólki að smakka og veitir fræðslu um kökugerð.