Sumargjafir Bókmenntaborgarinnar

Sumargjafir Bókmenntaborgarinnar á degi bókarinnar eru splunkunýtt ljóð og mynd frá Þórarni og Sigrúnu Eldjárn og sögustundir í hlaðvarpi með Ævari Þór Benediktssyni þar sem hann les æsispennandi sögu sína um ævintýri Sleipnis.

Sleipnir, lestrarfélaginn okkar allra, ræður sér varla fyrir kæti þessa dagana. Þótt margt hafi verið erfitt fyrstu mánuði ársins 2020 er eitt þó klárlega skemmtilegt sem sameinar tvennt af því sem Sleipnir er hvað spenntastur fyrir. Á einum og sama deginum höldum við upp á langþráða sumarkomu og bækur. Í ár ber sumardaginn fyrsta upp á alþjóðlegan dag bókarinnar, 23. apríl.

Sumarkveðja frá Þórarni og sigrúnu eldjárn

Bókmenntaborgin sendir lesendum sumarkveðju í formi ljóðs sem Þórarinn Eldjárn orti fyrir okkur í tilefni dagsins og Sigrún Eldjárn teiknaði mynd við. Ljóðið, sem ber heitið Sumardagur bókarinnar, er birt hér á vefnum okkar á degi bókarinnar og einnig flutt sem kveðja á RÚV í upplestri leikkonunnar Þuríðar Blævar Jóhannsdóttur og birt sem rafrænt póstkort á samfélagsmiðlum sem fólk getur sent áfram til fjölskyldu og vina að vild. 

Framhaldssaga um ævintýri Sleipnis

Við látum ekki staðar numið við þessa sumargjöf heldur bjóðum við krökkum á öllum aldri líka upp á sögustund með Sleipni í hlaðvarpi á degi bókarinnar og svo áfram næstu daga. Hlaðvarpið má nálgast hér á vefnum okkar. 

Ævar Þór Benediktsson les sögu sína Sleipnir og stórhættulega fjölskyldutréð, sem hann skrifaði fyrir Bókmenntaborgina til yndislestrar í skólum en bókin hefur ekki komið út á almennum markaði. Ævar hefur lesturinn 23. apríl og þessi spennandi framhaldssaga heldur svo áfram í nýjum hlaðvarpsþætti næstu daga og verða sögulokin birt mánudaginn 27. apríl. Bókin er fagurlega myndlýst af Gunnari Karlssyni sem einnig teiknaði Sleipnismyndina sem prýðir þessa frétt. Bókin hentar lesendum frá yngsta stigi grunnskóla og uppúr. 

Við vonum að þið njótið þessara sumargjafa Bókmenntaborgarinnar og óskum ykkur gleðilegs sumars og gleðilegs dags bókarinnar!