Ragnheiður og Sigrún tilnefndar til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs

Skáldsögurnar Rotturnar eftir Ragnheiði Eyjólfsdóttur og Silfurlykillinn eftir Sigrúnu Eldjárn eru tilnefndar til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2019 í flokki barna- og ungmennabókmennta.
Skáldsaga Ragnheiðar er vísindatryllir um hóp ungmenna sem fenginn er til að sinna verkefni við niðurníddan hálendisskála. Þar gerir eitthvað skuggalegt vart við sig og ungmennin þurfa að berjast fyrir lífi sínu og umfram allt halda í vonina. Skáldsaga Sigrúnar Eldjárn er ískyggileg framtíðarsaga sem gerist í heimi þar sem mannkyn hefur eyðilagt jörðina. Í henni er sagt frá ráðagóðum systkinum, þeim Sumarliða og Sóldísi, sem leggja af stað í ferðalag  ásamt dularfullri stelpu.

Sigrún Eldjárn hlaut Íslensku bókmenntaverðlaunin 2018 fyrir Silfurlykilinn og var bók Ragnheiðar, Rotturnar, tilnefnd til verðlaunanna sama ár. 

Alls eru fjórtán verk tilnefnd til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs í flokki barna- og ungmennabókmennta í ár. Tilnefningarnar voru kynntar á alþjóðlegu bókamessunni í Bologna sem stendur nú. Verðlaunahafi verður kynntur þann 29. október í Stokkhólmi í tengslum við þing Norðurlandaráðs.