Jóladagatal Borgarbókasafns og Bókmenntaborgar

Líkt og síðustu ár verður hægt að telja niður til jóla með lestri jólasögu Borgarbókasafns og Bókmenntaborgarinnar í desember. Í ár var höfundum boðið að taka þátt í samkeppni um sögu í jóladagatalið og bárust þrettán umsóknir. 

Valnefnd hefur nú lokið við að fara yfir umsóknirnar og varð sagan Jólaálfurinn sem flutti inn fyrir valinu. Höfundar hennar eru hjónin Gréta Þórsdóttir Björnsson, sem skrifar textann, og Halldór Snorrason, sem teiknar myndirnar. 

Í umsögn nefndarinnar segir: 

„Sagan Jólaálfurinn sem flutti inn er falleg jólasaga og skemmtilega myndskreytt. Í sögunni er spennandi ráðgáta og hún er jafnframt fyndin og miðlar fróðleik um jólin, bæði íslenskum og dönskum. Sagan hentar breiðum hópi barna og fullorðnir ættu að hrífast af henni líka og því er Jólaálfurinn sem flutti inn kjörin saga fyrir fjölskyldur að lesa saman á aðventunni.“ 

Jólaálfurinn sem flutti inn er fyrsta sagan sem birtist eftir þau Grétu og Halldór. 

Um höfundana

Halldór Snorrason er með meistaragráðu í hönnun, nánar tiltekið því sem á ensku kallast „production design“ (framleiðsluhönnun). Þetta er ekki í fyrsta sinn sem hann vinnur að jóladagatali því hann kom að dagatalinu Tinkas juleeventyr sem var sýnt á TV2 í Danmörku árið 2017. Framhaldið verður sýnt í ár og tók hann líka þátt í því verkefni. Halldór sést stundum á götum bæjarins á glæsilegu hlaðhjóli sem hann hefur lagt mikla ástúð í að sinna. Þegar hann er ekki að hjóla flýgur hann dróna og þrívíddarprentar. Þegar Halldór var að vaxa úr grasi átti hann vin á bókasafninu í Sólheimum, bókavörð sem hjálpaði honum að finna allar Bob Moran bækur landsins.

Gréta Þórsdóttir Björnsson er menntaður arkitekt frá Árósum með sérhæfingu í byggingararfi og sjálfbærni. Hún elskar handbolta og Danmörku, enda bjó hún þar í 14 ár. Hún er samt alveg að venjast Íslandi aftur, sérstaklega sundlaugum, lakkrís og því að hafa fjölskylduna í seilingarfjarlægð. Gréta var fastagestur á bókasafninu sem barn og unglingur og tók oft meira en tíu bækur með sér heim á viku.

Saman hafa Gréta og Halldór baukað ýmislegt, t.d. ferðast um Evrópu og stýrt veftímariti um hönnun og arkitektúr. Upp á síðkastið hafa þau mest verið í að sinna barnauppeldi. 

Einn kafli á dag

Jólasagan Jólaálfurinn sem flutti inn verður birt á vefjum  Borgarbókasafnins og Bókmenntaborgarinnar frá 1. desember fram að jólum, einn kafli á dag. Hægt verður að lesa söguna á vefnum eða hlusta á upplestur höfundar í hlaðvarpi Bókasafnsins. Fjölskyldur geta því látið sig hlakka til að opna saman glugga jóladagatalsins og njóta sögumola dagsins. 

Borgarbókasafn og Bókmenntaborgin þakka öllum umsækjendum fyrir þann áhuga sem þeir sýndu verkefninu og óska þessum nýju höfundum til hamingju.