Gestarithöfundur í Bókmenntaborg

Chantal Ringuet

Kanadíski rithöfundurinn Chantal Ringuet hefur þegið boð um að dvelja í Reykjavík í október 2019. Hún er fyrsti höfundurinn sem Bókmenntaborgin býður hingað frá annarri Bókmenntaborg UNESCO en Chantel er frá Bókmenntaborginni Québec City. Gestadvöl og samskipti höfunda þvert á landamæri eru meðal lykilverkefna Bókmenntaborga UNESCO og er það því mikið ánægjuefni að Reykjavík skuli nú taka aukinn þátt í þeirri samvinnu. Þetta er liður í að auka tengsl milli borganna og opna fyrir skapandi samræðu höfunda og orðlistar milli þeirra. Rithöfundi eða þýðanda er boðið að dvelja í einn mánuð í Gröndalshúsi og fylgir dvölinni kynning á íslensku orðlistalífi. Einnig gefst höfundinum tækifæri til að kynna sig fyrir íslenskum lesendum og áhugafólki um orðlist.

Tæplega sextíu höfundar frá sextán Bókmenntaborgum UNESCO sóttu um sem sýnir áhuga erlendra höfunda á að dvelja í Reykjavík og tengjast þannig íslensku bókmenntalífi. Að sama skapi býðst íslenskum rithöfundum nú að sækja um gestadvöl í mörgum Bókmenntaborga UNESCO, svo sem Granada, Prag, Ulyanovsk, Ljubljana og Tartu.

Chantal Ringuet

Chantal Ringuet er frönskumælandi Kanadamaður. Hún er fædd og uppalin í Québec City, sem hefur verið Bókmenntaborg UNESCO frá 2017, en býr nú í Montréal. Eftir sem áður hefur Chantal sterk tengsl við fæðingarborg sína. Hún er rithöfundur, þýðandi úr ensku og jiddísku á frönsku og fræðimaður sem hefur m.a. fengist við rannsóknir á og skrif um jiddíska menningu og er sérfræðingur í verkum Leonards Cohens. Hún hefur gefið út tvö ljóðasöfn, Le sang de ruines, sem hlaut Jacques-Poirier bókmenntaverðlaunin 2009 og Under the Skin of War (BuschekBooks, 2013) sem hún skrifar með vísan til ljósmynda Don McCullins. Hún er einn ritstjóra Les révolutions de Leonard Cohen (PUQ, 2016) sem hlaut bókmenntaverðlaun gyðinga í Kanada árið 2017 (Canadian Jewish Literary Awards). Að auki hefur Chantal skrifað fjölda greina og þýtt texta úr jiddísku og ensku á frönsku, tekið þátt í hátíðum, kennt við háskóla í Kanada og ferðast víða með verk sín.

Það er tilhlökkunarefni að taka á móti Chantal Ringuet hér í Reykjavík í haust og kynna verk hennar nánar fyrir Íslendingum.