Bókmenntaborgir UNESCO fagna alþjóðlegum degi ljóðsins

Í ár fagna Bókmenntaborgir UNESCO um víða veröld alþjóðlegum degi ljóðsins í annað sinn. Í Reykjavík frumsýnum við ljóðastiklu með Gerði Kristnýju og Svikaskáldin bjóða til skapandi kvölds á gamla Kaffislipp á Hótel Marina við gömlu höfnina. 

Með dagskránni vilja Bókmenntaborgirnar vekja athygli á mikilvægi ljóðlistar sem vettvangs samfélagsumræðu, persónulegrar tjáningar og nýsköpunar tungumála og ýta undir sköpun orðlistar og sýnileika hennar.

UNESCO lýsti 21. mars dag ljóðsins árið 1999 og fagnaði þannig einstakri getu ljóðlistar til að fanga skapandi anda mannsins. Eitt af meginmarkmiðum dagsins er að vekja athygli á fjölbreyttri tungumálaflóru heimsins. Þá er deginum ætlað að endurvekja hefð munnlegrar listrænnar tjáningar og minna á tengsl orðlistar við aðrar listir, svo sem leiklist og tónlist.

Raddir kvenna

Í Reykjavík og nokkrum öðrum Bókmenntaborgum er sjónum sérstaklega beint að röddum kvenna í ljóðlist að þessu sinni og / eða viðfangsefnum sem snerta konur, kynferði og jafnrétti. Vefstikla með Gerði Kristnýju verður frumbirt af þessu tilefni á vef Bókmenntaborgarinnar og á samfélagsmiðlum borganna þar sem hún flytur hluta af ljóðabálki sínum Drápu, sem er óður skáldsins til reykvískrar konu sem var myrt af eiginmanni sínum, en um leið til allra kvenna sem hafa verið beittar ofbeldi. Nokkrar aðrar stiklur með skáldkonum frá Bókmenntaborgum UNESCO verða birtar á vefmiðlum borganna þennan dag, meðal annars frá Baghdad, Tartu, Granada, Ulyanovsk, Norwich, Mílanó og Seattle.

Þá býður skáldkvennahópurinn Svikaskáld upp á opið ljóðakvöld á gamla Kaffislipp á Hótel Marina kl. 20 að kvöldi alþjóðlega ljóðadagsins þar sem verður ort, lesið, ruplað og rænt og eru allir boðnir velkomnir, hvort sem fólk hefur reynslu af skrifum eða ekki. Kvöldið byrjar með stuttum lestri úr ljóðum þekktra skálda frá öllum heimshornum. Síðan er skrifað í 10 mínútur og þátttakendur eru hvattir til að stela línum og/eða hugmyndum úr því sem lesið var á undan. Eftir tíu mínútur lesa þau skáld úr salnum sem vilja sitt nýja og hráa efni og allir eru síðan hvattir til þess að stela, spegla og svara þeim lestri á næstu 10 mínútum. Hringiðan verður endurtekin eins oft og nauðsynlegt er. Kvöldið er óður til trausts, svika og innblásturs sem ljóðskáld og annað skapandi fólk fær hvert frá öðru. Svikaskáldin eru Fríða Ísberg, Melkorka Ólafsdóttir, Ragnheiður Harpa Leifsdóttir, Sunna Dís Másdóttir, Þóra Hjörleifsdóttir og Þórdís Helgadóttir.

Viðburðurinn á Facebook

Dagskrá annarra Bókmenntaborga

Hér má sjá það sem verður á döfinni í nokkrum öðrum Bókmenntaborgum UNESCO en listinn er þó ekki tæmandi.

Granada

Í Granada á Spáni munu um 60 ljóðskáld lesa upp í 25 bókaverslunum um alla borg. Þar verður slegið upp veislum þar sem skáld og lesendur hittast á þeim fundarstað sem bókaverslanir eru. Skáldin sem taka þátt hafa gefið út a.m.k. eina ljóðabók, þau búa í Granada, eru á mismunandi aldri og af mismunandi uppruna og fást við ljóðlist af ólíkum toga. Þessi dagskrá verður frá kl. 18 – 21. Fólk getur nálgast bæklinga með staðsetningu viðburðanna og annað hvort farið á milli nokkurra eða bara notið eins þeirra.

Barcelona

Í Barcelona á Spáni verður boðið upp á tvo viðburði, annars vegar með Marcel Riera og hins vegar með Rosu Fabregat og einnig verður dagskrá fyrir börn undir heitinu „Leyniherbergi skáldsins“.

Bucheon

Margt verður um að vera í Bucheon í S-Kóreu, meðal annars upplestur skáldkonunnar KO Gyeong-suk. Einnig má nefna smiðju þar sem þátttakendur geta spreytt sig á skrautskrift í bókamerkjagerð og tekið þátt í ljóðlistarsmiðjum í Sangdong bókasafninu.

Baghdad

Í Baghdad í Írak verður ljóðadagskrá með upplestri fjölda skálda auk þess sem vefstiklu með íröskum skáldkonum verður deilt á vefmiðlum. 

Nottingham

Bókmenntaborgin Notthingham á Englandi fær til liðs við sig tólf skáldkonur sem lesa upp í Clifton Campus bókasafninu í Trent háskóla. Upplesturinn verður sýndur í beinni útsendingu á Facebook síðu Bókmenntaborgarinnar, Nottingham City of Literature. Skáldin verða þarna umkringd bókum sem hafa nært skrif þeirra á bókasafni skólans en í ljóðum sínum fjalla þær um alls kyns ólíkar hliðar þess að vera kona frá sjónarhóli ólíkra kvenna á öllum aldri. Skáldin eru Panya Banjoko, Sofi Bajor, Hannah Cooper-Smithson, Becky Cullen, Jo Dixon, Birgit Friedrich, Julia Gardner, Tuesday Shannon, Bridie Squires, Carolina Stancer, Aly Stoneman, Lauren Terry og Victoria Zoe.

Norwich

Í Norwich á Englandi verður stikla með Cieru Drury, sem er lárviðarskáld Norfolk fylkis af yngri kynslóðinni, frumsýnt. Þar flytur hún ljóð sem hún orti í tilefni aldarafmælis hreyfingar sufragettanna. Ljóðið sigraði í samkeppninni "Young Norfolk Writing" árið 2018.

Ljubljana

Ljubljana í Slóveníu verður með 24 klukkustunda upplestur á þremur stöðum. Frá miðnætti til 8 að morgni í Tomaž Šalamun ljóðamiðstöðinni; frá 8.30 - 16.30 í bókmenntahúsinu Trubar og frá kl. 17.00-01.00 í Pritličje Bar.

Lviv

Bókmenntaborgin Lviv í Úkraínu verður með dagskrá frá morgni til kvölds, m.a. smiðjur, ljóðagöngu og upplestur. 

Ulyanovsk

Í Ulyanovsk í Rússlandi verður lesið upp á yfirgefnum svæðum í borgalandinu undir heitinu “ljóð utan tíma og rúms”.

Tartu

Í Tartu í Eistlandi geta ljóðaunnendur tekið sér ferð um borgina og hlustað á upplestur á kaffihúsum, börum og á Borgarbókasafni Tartu þar sem hver lestur tekur við af þeim næsta á undan. Þessi dagskrá stendur frá hádegi fram á kvöld.

Óbidos

Í Óbidos í Portúgal verður sett upp sýning þar sem ljóðabækur sem nemendur í skólum borgarinnar hafa búið til eru í forgrunni.

Mílanó

Mílanó á Ítalíu býður upp á fjölda viðburða í samstarfi við alþjóðlegu ljóðahátíðina í borginni og alþjóðlegu ljóða- og listahátíðina Grito de Mujer.

Heidelberg

Í Heidelberg í Þýskalandi hafa ljóð og stutter textar verið birt í almenningsvögnum allt árið og á alþjóðlega ljóðadaginn verður boðið upp á sérstaka ljóðaferð á milli Bókmenntaborgarinnar Heidelberg og nágrannaborgarinnar Mannheim, sem er Tónlistarborg UNESCO. Auk þess verður ljóðakvöld í Heidelberg Haus í systurborg Heidelberg, Montpellier í Frakklandi þar sem lesið verður á þýsku og frönsku. Tónlistarborgin Mannheim tekur líka þátt með ljóðagöngum, ljóðavegg sem settur verður upp af þessu tilefni, ljóða-símalínu og fleira.

Kraká

Í Kraká í Póllandi verður farin ljóðaganga í fótspor skáldkonunnar Wisława Szymborska. Þar verður líka haldið ljóðaslamm þar sem þátttakendur borgarinnar í landskeppni ljóðaslamms í Póllandi verða valdir. Í kjölfar alþjóðadags ljóðsins, þann 23. mars, verður svo byrjað að kynna dagskrá og gesti Miłosz ljóðahátíðarinnar og þá verður einnig dagskrá með skáldinu Önnu Adamowich sem er pólskt skáld af yngri kynslóðinni.

Fylgjast má með alþjóðlega ljóðadeginum á samfélagsmiðlum undir myllumerkinu #WorldPoetryDay19 og á Spáni undir #Haztepoesía.