Bókamessa með breyttu sniði - Viðburði í Hörpu aflýst

Bókamessa í Bókmenntaborg hefur markað hápunktinn í jólabókaflóðinu síðustu ár og hefur verið hægt að skoða nær alla bókaútgáfu ársins á einum stað.
Bókamessa átti að vera dagana 21. og 22. nóvember í Hörpu en er aflýst vegna Covid-19 faraldursins, en þó ekki alveg!
Á Bókamessu koma saman útgefendur, höfundar og lesendur og eiga einstakt samtal um bækur og útgáfu ársins. Samhliða messunni hefur Bókmenntaborgin skipulagt veglega bókmenntadagskrá í þremur rýmum sem sniðin er að lesendum á öllum aldri.

Bókaspjall beint til þín

Þó ekki verði hægt að bjóða fólk velkomið í Hörpu í ár geta lesendur notið hluta af dagskrár Bókamessu á vef og samfélagsmiðlum Bókmenntaborgarinnar. Rithöfundarnir Sunna Dís Másdóttir og Sverrir Norland munu stýra bókmenntaspjalli við höfunda, útgefendur, þýðendur, bóksala og fleiri sem taka þátt í jólabókaflóðinu með einum eða öðrum hætti. Eins mun Bókmenntaborgin kynna nýjar raddir í Bókmenntaborginni og sígildar raddir að utan, en í ár koma út stór nöfn í bókmenntaheiminum þýdd á íslensku, sem er mikill fengur fyrir bókmenntalífið hér. Þættirnir verða sendir út í streymi sunnudaga og miðvikudaga kl. 14 og fer fyrsta Bókmenntaspjallið í loftið sunnudaginn 1. nóvember. Vefþættirnir verða áfram aðgengilegir á miðlum Bókmenntaborgarinnar svo enginn þarf að missa af skemmtilegu bókaspjalli.

Það er ánægjulegt að nú teygir dagskráin sig út um allt land í gegnum samfélagsmiðla og geta lesendur hvar sem þeir eru staddir notið hennar. Fólk getur unað sér við að fylgjast með umræðu um nýjar bækur og bókmenntalífið á þessum undarlegu tímum heimsfaraldurs. Bækur hætta sem betur fer ekki að koma út og nóg er af nýju og spennandi lesefni fyrir fólk á öllum aldri.

Nýjar bækur heim

Hægt er að kynna sér útgáfu ársins í Bókatíðindum Félags íslenskra bókaútgefenda og eru þau aðgengileg á netinu á vefslóðinni https://vefbirting.prentmetoddi.is/Bokatidindi/2020/.
Einnig er hægt að sækja þau á vef Félagsins (www.fibut.is) sem pdf skjal fyrir þá sem geta ekki beðið eftir prentuðu eintaki. Bókaútgefendur bjóða flestir upp á heimsendingu á bókum í gegnum vefsíður sínar og hefur Bókmenntaborgin tekið saman lista og einnig bendum við á bókabúðir og vefverslanir fyrir þá sem vilja tryggja sér nýjar bækur.
Borgarbókasafnið býður einnig notendum að panta bækur í gegnum vefinn og sækja á safnið svo enginn ætti að fara ólesinn i háttinn.

Góðan lestur!