Barnabókaverðlauna Reykjavíkurborgar – kallað eftir bókum til tilnefningar

Verðlaunahafar 2017 Linda Ólafsdóttir, Halla Sverrisdóttir og Ragnheiður Eyjólfsdóttir með Degi B. Eggertssyni borgarstjóra

Barnabókaverðlaun Reykjavíkurborgar eru þrískipt og er veitt fyrir bestu barna- eða unglingabók á íslensku, fyrir bestu íslensku þýðinguna á barna- eða unglingabók og fyrir bestu myndskreyttu barna eða unglingabókina. Verðlaunin eru veitt síðasta vetrardag ár hvert.

Opnað hefur verið fyrir tilnefningar til verðlaunanna fyrir bækur útgefnar árið 2017 og eru bókaútgáfur og sjálfstæðir útgefendur hvattir til að tilnefna bækur sínar til þessara virtu fagverðlauna.

Bækur til tilnefningar þurfa að berast í fimm eintök til skóla- og frístundasviðs Reykjavíkur, Borgartúni 12-14, merkt Barnabókaverðlaun. Eintökin eru ætluð dómnefnd til yfirlestrar. Æskilegt er að bækur berist sem fyrsta og í seinasta lagi 20. desember næstkomandi. E

Markmið verðlaunanna er að hvetja til útgáfu á vönduðum bókum á íslensku fyrir börn og unglinga, vekja athygli á þeim og verðlauna það sem vel er gert í íslenskri barnabókaútgáfu, hvort heldur í orðlist eða myndlist.

Tilkynnt verður hvaða bækur eru tilnefndar, fimm í hverjum flokki, í mars 2018 í tengslum við sýninguna, Þetta vilja börnin sjá, sem er sýning á myndskreytingum úr nýjum íslenskum barnabókum í Gerðubergi.

Dómnefnd barnabókaverðlauna skóla- og frístundaráðs fyrir árið 2018 er skipuð Brynhildi Björnsdóttur formanni, Jónu Björgu Sætran, Gunnari Birni Melsted, Davíð Stefánssyni, fulltrúa Rithöfundasambands Íslands, og Þórdísi Aðalsteinsdóttur, fulltrúa Sambanda íslenskra myndlistarmanna.

Nánar um Barnabókaverðlaun Reykjavíkur

Barnabókaverðlaun Reykjavíkurborgar eru veitt ár hvert, jafnan síðasta vetrardag, við hátíðlega athöfn í Höfða. Þau eru veitt höfundum og þýðendum barnabóka fyrir metnaðarfullar ritsmíðar og þýðingar fyrir börn. Markmið þessara virtu verðlauna er að hvetja til útgáfu á vönduðum bókum fyrir börn og unglinga, vekja athygli á þeim og verðlauna það sem vel er gert í íslenskri barnabókaútgáfu, hvort heldur í orðlist eða myndlist.

Verðlaunaveitingin og verkefni henni tengd eru unnin í samvinnu skóla- og frístundaráðs og menningar- og ferðamálaráðs Reykjavíkurborgar í Bókmenntaborginni Reykjavík með það leiðarljós að efla enn frekar áhuga barna á bókum og bóklestri.