Barnabókamessa haldin í fjórða sinn

Í morgun, mánudaginn 9. nóvember, hófst þriggja daga Barnabókamessa fyrir leik- og grunnskóla í borginni en hún er liður í aðgerðum til að örva áhuga barna og ungmenna á bóklestri. Bókamessan er haldin í Hörpu og í samstarfi skóla- og frístundasviðs, Félags íslenskra bókaútgefenda og Reykjavíkur bókmenntaborgar UNESCO.

Á messunni, sem að þessu sinni er haldin er með stífum fjöldatakmörkunum og með möguleika á pöntunum, er lögð áhersla á að kynna nýjar íslenskar barna- og ungmennabækur fyrir fulltrúum skólasafna grunnskóla og leikskóla borgarinnar. Þessum stofnunum hefur verið tryggt viðbótarfjármagn til að kaupa nýjar bækur að eigin vali á messunni fyrir bókasöfn skólanna á sérstöku kynningarverði.

Bókakaup reykvískra skóla hafa nærri tvöfaldast frá árinu 2018, sem skilar sér í mun betra úrvali fyrir börn af nýjum íslenskum titlum í skólum borgarinnar. Þá gefa tölur um útlán sömuleiðis til kynna að aðdráttarafl skólabókasafnanna hafi aukist verulega á undanförnum árum.

Skóla- og frístundaráð Reykjavíkur samþykkti í liðnum mánuði að veita alls 9 milljónum króna til bókakaupa fyrir leikskóla, grunnskóla og frístundastarfið, en frístundin hefur aðgang að bókunum í gegnum skólabókasafnið.

Barnabókaútgáfan er blómleg í ár eins og síðustu ár og það er mikið gleðiefni að sjá hvað skólar í Reykjavík nýta sér vel þetta tækifæri til að koma nýjum bókum í hendur barna borgarinnar.