Alþjóðlegur dagur ljóðsins í Bókmenntaborgum UNESCO

Bókmenntaborgir UNESCO fagna alþjóðlegum degi ljóðsins með ljóðaviðburðum víða um heim

Alþjóðlegur dagur ljóðsins er haldinn hátíðlegur 21. mars ár hvert. Bókmenntaborgin Reykjavík fagnar nú deginum í fyrsta sinn og margar aðrar Bókmenntaborgir UNESCO fagna honum einnig með ýmsu móti.

Í Reykjavík verða þrír viðburðir í tilefni dagsins. Borgarbókasafn Reykjavíkur býður leikskólabörnum í ljóðastund að morgni dagsins. Í hádeginu verður ljóðalestur á Háskólatorgi í Háskóla Íslands og síðdegis verður ljóðagjörningur í Hólavallagarði. Ljóðadeginum lýkur svo í húsi skáldsins Benedikts Gröndal, Gröndalshúsi, þar sem ljóðaunnendur geta fengið kaffisopa og vermt sig eftir útiveru í kirkjugarðinum.

Á þessum alþjóðadegi ljóðsins eru ljóðskáld heiðruð og ljóðlistinni fagnað sem einu dýrmætasta tjáningarformi mannkyns. Ljóðið hefur fylgt manninum á öllum tímum og í öllum menningarsamfélögum enda tjáir það mennskuna í öllum sínum fjölbreyttu myndum og gefur innsýn í hið sammannlega. Fá, ef einhver, listform birta okkur ummyndandi afl orða á sama hátt og ljóðformið.

Um viðburðina í Reykjavík


Barnaljóðastund

Alþjóðlegur dagur ljóðsins í Reykjavík hefst með barnaljóðastundum í Borgarbókasafni Reykjavíkur. Leiskólabörnum verður boðið á söfnin og þar verða lesin fyrir þau ljóð og þau fá að taka þátt í vali þeirra með því að velja sér ljóðaspjöld sem safnið hefur útbúið. 
 

Ljóðahádegi á Háskólatorgi

Í hádeginu verður ljóðastund á Háskólatorgi. Bókmenntaborgin, MA nemar í ritlist við Háskóla Íslands og Bóksala stúdenta taka þar höndum saman. Þar sem þetta er í fyrsta skipti sem Bókmenntaborgin fagnar þessum degi er við hæfi að leyfa nýjum röddum úr röðum ritlistarnema að njóta sín. Þau Þórdís Helgadóttir, Jóna Kristjana Hólmgeirsdóttir, Þorvaldur Sigurbjörn Helgason, Lára Kristín Sturludóttir, Ásta Björk Sveinbjörnsdóttir, Hlín Leifsdóttir og Una Björk Kjerúlf koma saman í uppáhaldsbókaverslun háskólanema, Bóksölu stúdenta, og lesa frumsamin ljóð fyrir gesti og gangandi. Ljóðabækur fá sérstakt rými þennan dag í Bóksölunni og hvetjum við ljóðaunnendur að koma við á Háskólatorgi og njóta ljóðahádegis með ritlistarnemum í Bókmenntaborg.

Streymt verður frá þessum viðburði á Facebook síðum Bókmenntaborgarinnar, Reykjavíkurborgar og Bóksölu stúdenta.
 

Áður en áður en .... Ljóðagjörningur í Hólavallagarði

Klukkan 18 hefst ljóðastund í Hólavallagarði þar sem skáld fara með ljóð bæði á íslensku og öðrum málum. Höfundarnir eru allir búsettir í Reykjavík en koma þó víða að og þeir munu flytja frumsamin ljóð sín samtímis á ólíkum stöðum í garðinum í tæpan klukkutíma. Gestir geta því gengið á milli skálda og hlýtt á ljóð í bland við fuglasöng og önnur umhverfishljóð á þessu síðdegi sem er daginn eftir vorjafndægur hér á norðurhveli jarðar. Dagskráin hefst við leiði skáldsins Benedikts Gröndal sem er eitt af mörgum skáldum sem hvíla í garðinum. Gröf hans er í elsta hluta garðsins alveg upp við Suðurgötu. Meðal annarra skálda í garðinum eru Hannes Hafstein, Ólöf frá Hlöðum, Herdís og Ólína Andrésdætur, Þorsteinn Erlingsson, Theodóra Thoroddsen, Guðrún Lárusdóttir og Sveinbjörn Egilsson. Á þessum alþjóðlega ljóðadegi fögnum við fjölbreytileika tungumála og skáldskapar Reykjavíkur dagsins í dag í þessum fallega hvíldarstað skáldmæðra okkar og -feðra þar sem nútíð og fortíð mætast. 

Eftir ljóðastundina í Hólavallagarði verður boðið upp á kaffi í Gröndalshúsi í Grjótaþorpi, fyrrum heimili skáldsins Benedikts Gröndal. Húsið stendur á horni Fiscersunds og Mjóstrætis. 

Viðburðir í öðrum Bókmenntaborgum UNESCO

Í Granada á Spáni take 60 skáld þátt í upplestrum á 24 bókasöfnum. Meðal þeirra eru gestir frá Bókmenntaborgunum Nottingham og Ljubljana, þær Georgina Wilding og Anja Golob. Ítalska skáldið Maria Francesca Merloni, sem er velgjörðarsendiherra UNESCO Creative Cities, verður viðstödd viðburðina.

Í Heidelberg í Þýskalandi verða 45 ljóð eftir 22 skáld birt í sporvögnum. Sérstakur ljóðavagn mun ferðast um borgina þar sem skáld lesa upp ljóð fyrir farþega allan daginn. Þá stendur systurborg Heidelberg, Montpellier í Frakklandi, fyrir dagskrá með þýskum skáldum í Heidelberghúsi og sjónum verður beint að því hvernig þýsk ljóðlist hefur haft áhrif á franska ljóðagerð.

Í Lillehammer í Noregi verður ljóðakvöld í Litteraturhus Lillehammar undir heitinu Poesi pluss. Þar taka þrír höfundar þátt í spjalli um ljóð, ljóðaþýðingar, sönglagatexta og húmor í ljóðum svo eitthvað sé nefnt, þau Thomas Lundbo, Kjersti Wøien og Håvard Rem.

Í Tartu í Eistlandi geta gestir fetað ljóðaslóð milli sjö kaffi- og öldurhúsa þar sem boðið verður upp á 15 ljóðaviðburði. Að auki taka framhaldsskólanemar þátt í deginum með ljóðalestri yfir daginn.

Fjöldi viðburða verða í Kraká í Póllandi, m.a. syngjandi ljóðaganga auk þess sem ljóðum verður varpað á vegg á Bracka stræti og dagskrá Milosz ljóðahátíðarinnar verður kynnt.

Í Barcelona á Spáni verður boðið upp á myndljóðasmiðju og viðburði með skáldunum Mariu Isern og Guillem Gavalda, sem eru handhafar Francesc Garriga ljóðaverðlaunanna.

Ljóðaviðburðir verða einnig í Bókmenntaborgunum Iowa City í Bandaríkjunum og Prag í Tékklandi.

Fyrir alþjóðlega ljóðadaginn, þann 19. mars, býður Bókmenntaborgin Dublin upp á ljóðagöngu með þátttöku bæði þekktra og upprennandi skálda.

Fylgist með streymi

Víða verður sýnt beint frá þessum ljóðaviðburðum eða þeim gerð skil í fjölmiðlum.

Í Reykjavík má fylgjast með beinu streymi frá hádegisupplestri á Háskólatorgi á Facebook síðum Bókmenntaborgarinnar, Reykjavíkurborgar og Bóksölu stúdenta.

Í Obidos í Portúgal verður sýnt beint frá ljóðalestri skáldsins Armando da Silva Carvalho við borgarhlið bæjarins.

Í Edinborg í Skotlandi munu skáld skrifa ljóð allan daginn og á klukkutíma fresti verður nýtt hlaðvarp sett í loftið þar sem fjallað verður um ljóðlist frá mismunandi sjónarhornum. Nálgast má hlaðvarpið á Facebook og Twitter síðum Bókmenntaborgarinnar Edinborgar.

Í Baghdad í Írak verður sýnt beint frá ljóðaviðburðum á kaffihúsum og á götum úti í sjónvarpi.

Kraká verður með beina útsendingu á Facebook þar sem skáld leiðir gesti milli bókaverslana í borginni.

Fylgist með ljóðlistinni í Bókmenntaborgum UNESCO á alþjóðlegum degi ljóðsins undir myllumerkjunum #WPD2018 og #CitiesofLitPoetry.

Um Bókmenntaborgir UNESCO

Bókmenntaborgir UNESCO eru hluti af stærra samstarfsneti Skapandi borga UNESCO, UNESCO Creative Cities Network. Það var sett á laggirnar árið 2004 og telur nú 180 borgir um allan heim. Bókmenntaborgirnar eru nú 28 talsins í sex heimsálfum og 23 löndum. Bókmenntaborgirnar deila reynslu og árangursríkum starfsháttum og starfa saman að því að miðla bókmenntum og standa fyrir og stuðla að bókmenntatengdum verkefnum bæði heima fyrir og á alþjóðavísu.

Um alþjóðlegan dag ljóðsins

Alþjóðlegur dagur ljóðsins er haldinn hátíðlegur þann 21. mars ár hvert. UNESCO tileinkaði þennan dag ljóðinu á alþjóðaþingi sínu í París árið 1999 og síðan hefur honum verið fagnað víða um heim. Markmiðið er að benda á fjölbreytta tungumálaflóru heimsins og stuðla að viðgangi hennar með ljóðrænni sköpun og tjáningu og ýta undir það að öll tungumál heimsins fái að hljóma.