Alþjóðadagur læsis

Alþjóðadegi læsis er fagnað víða um heim þann 8. september ár hvert. Hér heima hafa bókasöfn síðustu árin haldið upp á daginn með Bókasafnadeginum þar sem vakin er athygli á mikilvægi bókasafna fyrir læsi í víðum skilningi og samfélagslegri þýðingu þeirra auk þess sem dagurinn er hátíðisdagur starfsfólks á bókasöfnum.

Hryllilega spennandi

Í ár beina bókasöfn á Íslandi sjónum að hryllingsbókmenntum með kosningu á uppáhaldsbókum lesenda af því taginu og þá mun Hildur Knútsdóttir rithöfundur flytja erindi tengt þemanu sem streymt verður á vefnum bokasafn.is kl. 11 þennan dag.

Í ár tóku Bókmenntaborgin UNESCO sig saman í fyrsta sinn um að vekja athygli á deginum en allar eiga borgirnar í samtökunum það sameiginlegt að styðja við læsi, orðlist og bókmenningu með fjölbreyttum hætti.

Meðal borganna sem setja upp dagskrá í tilefni dags læsis í ár eru, auk Reykjavíkur, Bucheon og Wonju í S-Kóreu, Dunedin á Nýja Sjálandi, Manchester, Norwich og Nottingham á Englandi, Edinborg í Skotlandi, Kuhmo í Finnlandi, Lillehammer í Noregi, Montevideo í Úrúgvæ, Nanjing í Kína, Québec City í Kanada, Seattle í Bandaríkjunum og Ulyanovsk í Rússlandi, hver borg með sínum hætti. Meðal verkefna má nefna símenntun fyrir fullorðna á sviði læsis, dagskrár á bókasöfnum, sýningar, upplestur og sögustundir fyrir börn og fullorðna, smiðjur, útgáfu á leiðbeiningum um sögugerð fyrir foreldra, læsisverkefni fyrir sjónskerta og orðlist í borgarlandi.

Með því að vekja sameiginlega athygli á læsi og orðlist á alþjóðlegum degi læsis vilja Bókmenntaborgir UNESCO minna á mikilvægi læsis og ritlistar fyrir heilbrigð samfélög alla daga og á öllum tímum.

Um alþjóðadag læsis

Árið 1966 lýsti UNESCO 8. september alþjóðlegan dag læsis til að minna alþjóðasamfélagið á mikilvægi læsis, bæði fyrir einstaklinga og samfélög, og þörfina á því að stuðla að auknu læsi um víða veröld. Læsi er lykilþáttur í heimsmarkmiðum UNESCO um sjálfbæra þróun og er m.a. bent á gildi þessi í því markmiði sem snýr að menntun.

Fylgjast má með viðburðum á degi læsis á samfélagsmiðlum undir myllumerkinu #InternationalLiteracyDay2020

Bókmenntaborgir UNESCO á alþjóðadegi læsis

Reykjavík

Erindi Hildar Knútsdóttur verður streymt á vefnum bokasafn.is kl. 11 þann 8. september. Á sama vef verður birtur leslisti yfir þær hryllingsbókmenntir sem íslenskir lesendur hafa valið sem þær mest spennandi í kosningu á vegum íslenskra bókasafna.

Bucheon

Bucheon í S-Kóreu setur læsi fullorðinna í brennidepil með rafrænni dagskrá Miðstöðvar fullorðinsfræðslu í borginni. Dagskráin verður aðgengileg á Facebook síðu Bókmenntaborgarinnar Bucheon.

Dunedin

Borgarbókasafnið í Dunedin deilir árangri af nýlegu læsisverkefni á Facebook síðu sinni.

Edinborg

Í Edinborg verður áhersla lögð á læsisverkefni Scottish Book Trust, en stofnunin styður við læsi í Skotlandi með margvíslegum hætti. Má þar telja höfundastundirnar Live Literature Programme, Viku bókarinnar í Skotlandi og læsiverkefnið Bookbug. Fylgast má með á Facebook síðu Bókmenntaborgarinnar Edinborgar.

Lillehammer

Á Borgarbókasafni Lillehammer verður bókasýning og rafræn dagskrá í tilefni dagsins.

Manchester

Á Facebook síðu Bókmenntaborgarinnar Manchester verða rafræn hátíðarhöld með áherslu á verkefnið Read Manchester sem styður við læsi barna og ungmenna frá fæðingu til 18 ára aldurs. 

Montevideo

Frá því heimsfaraldurinn hófst hafa almenningsbókasöfn í borginni verið á faraldsfæti í því augnarmiði að ná til lesenda sem ekki komast á safnið í núverandi ástandi. Sjónum hefur sérstaklega verið beint að jaðarhópum og verið boðið upp á smiðjur og leiðsögn af ýmsu tagi þar sem best hentar.

Nanjing

Þessa dagana er áhersla lögð á rafræna viðburði og verður haldið upp á alþjóðadag læsis með upplestri fyrir börn og dagskrá fyrir sjónskert ungmenni. Viðburðurinn verður 13. september og er hann skipulagður af Bókmenntamiðstöðinni í Nanjing í samstarfi við Nanjing útgáfu.

Norwich

The National Centre for Writing í Norwich hefur látið gera vefstiklu með leiðbeiningum fyrir foreldra og umönnunnaraðila barna á aldrinum 0 – 5 ára. Þar eru gefnar hugmyndir um sögugerð og lestur með börnum. Stiklan fer í loftið þann 8. september á vef miðstöðvarinnar og á samfélagsmiðlum og verður hún aðgengileg hér á vefnum þeirra áfram.

Einnig má nálgast bæklinginn Neverending Stories á vefnum sem er fullur af hugmyndum um sögugerð og lestur með börnum.

Nottingham

Í Nottingham verður haldið upp á daginn á netinu með sögustundum og geta börn og fullorðnir hlustað á sögur á ensku og hindi.

Québec City

Í Québec City verður foreldrum og þeim sem vinna með ungum börnum boðið upp á ókeypis myndabók og stuðningsefni í gegnum verkefnið Tell Me a Story. 

Seattle

Sjónum verður beint að starfsemi samtaka og stofnanna á sviði bókmennta á Facebooksíðu Bókmenntaborgarinnar Seattle.

Ulyanovsk

Í Ulyanovsk í Rússlandi verður ljóð eftir Alexander Pushkin í brennidepli á einni af aðalgötum borgarinnar. Ljóðskáld flytja skáldskap úti á götum og listamaðurinn Danil Lapshin málar götulistaverk en viðburðirnir eru hluti af verkefninu Lesum borgina

Wonju

Í Wonju í S-Kóreu verður áhersla lögð á rafræna miðlum bókmennta fyrir börn af ólíkum uppruna.