Að gefa náttúrunni rödd - Um trjáleysi

 

Kanadíski rithöfundurinn Chantal Ringuet, sem er gestahöfundur Reykjavíkur bókmenntaborgar UNESCO í október, heldur erindi í Mengi miðvikudaginn 23. október kl. 17:30.

Chantal Ringuet er gestahöfundur Bókmenntaborgarinnar Reykjavíkur nú í október. Hún er fyrsti höfundurinn sem Bókmenntaborgin býður hingað til lands frá annarri Bókmenntaborg UNESCO en Chantel er frá Bókmenntaborginni Québec City. Gestadvöl og samskipti höfunda þvert á landamæri eru meðal lykilverkefna Bókmenntaborga UNESCO og er það því mikið ánægjuefni að Reykjavík skuli nú taka aukinn þátt í þeirri samvinnu. Þetta er liður í að auka tengsl milli borganna og opna fyrir skapandi samræðu höfunda og orðlistar milli þeirra. Rithöfundi eða þýðanda er boðið að dvelja í einn mánuð í Gröndalshúsi og fylgir dvölinni kynning á íslensku orðlistalífi. Einnig gefst höfundinum tækifæri til að kynna sig fyrir íslenskum lesendum og áhugafólki um orðlist.

Tæplega sextíu höfundar frá sextán Bókmenntaborgum UNESCO sóttu um sem sýnir áhuga erlendra höfunda á að dvelja í Reykjavík og tengjast þannig íslensku bókmenntalífi. Að sama skapi býðst íslenskum rithöfundum nú að sækja um gestadvöl í mörgum Bókmenntaborga UNESCO, svo sem Granada, Heidelberg, Prag, Ulyanovsk, Ljubljana og Tartu.

Um trjáleysi – viðburður í Mengi

Chantal segir frá verki sem hún vinnur nú að í Mengi miðvikudaginn 23. október kl. 17:30. Viðburðurinn, sem er ókeypis og öllum opinn, verður á ensku.

Hún lýsir verkinu með þessum orðum:

„Hvað ef trén væru að horfa á okkur? Hvaða áhrif hefði það á sýn okkar á heiminn og á umhverfið. Gætum við endurskapað frumsögur vestrænnar menningar, svo sem Biblíuna og Ódysseifskviðu Hómers, í tuttugustu og fyrstu aldar trjálausu umhverfi? Verkið sem ég er með í vinnslu er ljóðræn ferð um landslag sem er ógnað eða sem hefur verið eytt í stríðum, samhliða þjóðarmorðum og öðrum hörmungum.“

Chantal skoðar samband orða og mynda, sérstaklega með tilliti til ljósmynda ljósmyndablaðamannsins Don McCullins sem er þekktastur fyrir ljósmyndir sínar frá stríðshrjáðum svæðum. Hún leggur áherslu á að gefa fórnarlömbum hörmunga rödd – hvort sem er tilteknum minnihlutahópum eða „venjulegu“ fólki.

Í ljósi hamfarahlýnunar dagsins í dag telur hún svo fulla ástæðu til að taka þessu umræðu skrefinu lengra og gefa náttúrinni einnig rödd – svo sem trjám, skógum og vötnum.

Chantal Ringuet

Chantal Ringuet er frönskumælandi Kanadamaður. Hún er fædd og uppalin í Québec City, sem hefur verið Bókmenntaborg UNESCO frá 2017. Chantal býr nú í Montréal sem er Hönnunarborg UNESCO og því einnig systurborg Reykjavíkur í samstarfsneti Skapandi borga UNESCO, UNESCO Creative Cities Network.

Chantal er rithöfundur, þýðandi úr ensku og jiddísku á frönsku og fræðimaður sem hefur m.a. fengist við rannsóknir á og skrif um jiddíska menningu og er einnig sérfræðingur í verkum Leonards Cohens. Hún hefur gefið út tvö ljóðasöfn, Le sang de ruines, sem hlaut Jacques-Poirier bókmenntaverðlaunin 2009 og Under the Skin of War (BuschekBooks, 2013) sem hún skrifar með vísan til ljósmynda Don McCullins. Hún er einn ritstjóra Les révolutions de Leonard Cohen (PUQ, 2016) sem hlaut bókmenntaverðlaun gyðinga í Kanada árið 2017. Að auki hefur Chantal skrifað fjölda greina og tekið þátt í hátíðum, kennt við háskóla í Kanada og ferðast víða með verk sín.

Hér í Reykjavík hefur Chantal hitt íslenska rithöfunda og aðra listamenn, ferðast um borgina og utan hennar og mun fyrrnefnt verk sem hún vinnur að litast af dvöl hennar í Reykjavík og þeirri reynslu sem gestadvölin hefur fært henni. Áhugi hennar hefur ekki síst beinst að höfundum sem fjalla um umhverfismál og einnig hafa ljóð eftir íslenskar konur, m.a. Vilborgu Dagbjartsdóttur, fangað athygli hennar.