Þjóðsagnasöfnun hefst

1850

Um miðbik nítjándu aldar hefst skipulögð þjóðsagnasöfnun á Íslandi í kjölfar rómantísku stefnunnar. Líkt og í öðrum löndum fylgdi henni áhugi á alþýðumenningu og munnmælasögum og tengist þessi áhugi á þjóðmenningu einnig sjálfstæðisbaráttunni hér á landi.

Fyrsta þjóðsagnasafnið sem gefið var út á Íslandi, Íslenzk ævintýri, kom út 1852 og voru það safnararnir Jón Árnason og Magnús Grímsson sem gáfu það út. Jón hélt síðan áfram söfnun og var bókin Íslenskar þjóðsögur og ævintýri gefin út í tveimur bindum árin 1862 og 1864 hjá þýskum forleggjara, en heildarsafn hans (6 bindi) kom ekki út fyrr en á árunum 1954-1961.

Oft hefur verið bent á að þjóðsögur séu kvenlæg bókmenntagrein, það voru fyrst og fremst konur sem varðveittu og sögðu sögurnar þótt karlar hafi síðar safnað þeim á bók. Undantekningin frá því er Torfhildur Hólm, en Þjóðsögur og sagnir hennar kom út árið 1962. Söfnun þjóðsagna hélt áfram langt fram eftir tuttugustu öldinni og komu margir að henni en slíkri söfnun verður eðli málsins samkvæmt aldrei lokið.