Landsbókasafn Íslands

1818

Fyrsti vísir íslensks þjóðbókasafns, Landsbókasafns Íslands, varð til árið 1818 að tillögu danska fornfræðingsins Carls Christians Rafns. Í upphafi nefndist safnið „Stiftsbókasafnið“. Því var komið fyrir á lofti dómkirkjunnar í Reykjavík. Árið 1881 var bókasafnið flutt í hið nýreista Alþingishús og hlaut þá nafnið Landsbókasafn Íslands. Þá var fjöldi prentaðra bóka og handrita í safninu um 19 þúsund. Árið 1886 var íslenskum prentsmiðjum gert að afhenda safninu tvö eintök af öllu prentuðu máli. Landsbókasafnið fluttist í nýja byggingu, Safnahúsið við Hverfisgötu, árið 1909. Safnahúsið var þá eitt stærsta og glæsilegasta hús landsins. Landsbókasafnið var þar til húsa í 85 ár, fram að samruna þess við Háskólabókasafnið árið 1994.