Heildarútgáfa Íslendingasagna á ensku

Sagas of the Icelanders

1997

Heildarútgáfa á Íslendingasögum og þáttum kom út í enskri þýðingu síðsumars 1997 hjá útgáfufélaginu Leifi Eiríkssyni. Ritstjóri útgáfunnar var Viðar Hreinsson bókmenntafræðingur og með honum starfaði fjögurra manna ritnefnd sem skipuð var þeim dr. Robert Cook, dr. Terry Gunnell, dr. Kenevu Kunz og Bernard Scudder þýðanda.

Þýðendur voru alls þrjátíu frá sjö löndum í þremur heimsálfum.

Heildarútgáfan, sem hefur að geyma fjörutíu Íslendingasögur og fjörutíu og níu sagnaþætti, kom út í fimm bindum, ríflega 2.300 blaðsíður alls. Í kjölfar útgáfunnar undirritaði bresk-bandaríska útgáfusamsteypan Penguin Press samning við Bókaútgáfu Leifs Eiríkssonar um útgáfu á tíu bókum með Íslendingasögum árið 1999.