Beint í efni

Þráinn Bertelsson

Æviágrip

Þráinn Bertelsson er fæddur í Reykjavík 30. nóvember 1944. Hann varð stúdent frá M.R. 1965 og stundaði síðan nám í heimspeki og sálfræði við University College í Dublin 1968-1970, og í heimspeki og sálfræði við Université d’Aix-Marseille 1970-1972. Hann útskrifaðist með próf í leikstjórn og kvikmyndaframleiðslu frá Dramatiska Institutet í Svíþjóð 1977. Kvikmyndagerð var síðan hans meginstarf til 1995, en auk þess hefur Þráinn unnið sem blaðamaður, dagskrárgerðamaður, verið afgreiðslumaður í vínbúð, kennari, starfsmaður í frystihúsi og skrifstofustjóri hjá flugfélagi í Saudi Arabíu, svo sitthvað sé nefnt. Hann var ritstjóri Þjóðviljans 1987-1988 og tímaritsins Hestsins okkar 1990. Þráinn sat á Alþingi fyrir Borgarahreyfinguna og síðar Vinstri græna árin 2009-2013.

Þráinn var formaður Rithöfundasambands Íslands frá 1992-1994 og formaður Félags kvikmyndastjóra um eins árs skeið. Hann var einn stofnenda kvikmyndafélagsins Norðan 8 og stofnaði kvikmyndafélagið Nýtt líf 1982.

Þráinn hefur gert fjölmargar kvikmyndir og má þar nefna myndina um þá bræður Jón Odd og Jón Bjarna, sem byggð er á sögum Guðrúnar Helgadóttur, gamanmyndina Nýtt líf og aðrar sem fylgdu í kjölfarið um þá kumpána Þór og Danna og kvikmyndina Magnús sem tilnefnd var til Felix verðlaunanna (evrópsku kvikmyndaverðlaunin) fyrir besta frumsamda handrit og sem besta myndin 1989. Myndin hlaut einnig Menningarverðlaun DV 1990. Hann hefur einnig gert myndir fyrir sjónvarp, meðal annars þáttaröðina Sigla himinfley, og fjölda útvarpsþátta auk útvarpsleikrits. Þráinn sendi frá sér sína fyrstu bók árið 1970, skáldsöguna Sunnudagur. Síðan hefur hann sent frá sér fjölda bóka, fleiri skáldsögur (meðal annars Tungumál fuglanna undir dulnefninu Tómas Davíðsson), barnabók, bók um Þórhall Sigurðsson (Ladda), safn útvarpsþátta og endurminningabækurnar Einhvers konar ég sem vakti mikla athygli þegar hún kom út 2003 og sjálfstætt framhald hennar, Ég, ef mig skyldi kalla 2008. Hann hefur einnig sent frá sér glæpasögur á síðustu árum, Dauðans óvissi tími kom út 2004, Valkyrjur 2005 og Englar dauðans 2007. Hann hefur einnig þýtt sakamálasögur eftir sænsku hjónin Sjöwall og Wahlö. Einhvers konar ég kom út í enskri þýðingu sem Myself & I árið 2004.

Þráinn hlaut Heiðursverðlaun fyrir framlag sitt til kvikmyndagerðar á Edduhátíðinni 2022.

Mynd af höfundi: Ljósmyndasafn Reykjavíkur.