Beint í efni

Thor Vilhjálmsson

Æviágrip

Thor Vilhjálmsson fæddist í Edinborg í Skotlandi 12. ágúst 1925. Hann lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík 1944, nam við norrænudeild Háskóla Íslands 1944-1946, við Háskólann í Nottingham 1946-1947 og við Sorbonne háskóla í París 1947-1952. Hann var bókavörður á Landsbókasafni Íslands frá 1953-1955, starfaði við Þjóðleikhúsið 1956-1959 og var einnig leiðsögumaður og fararstjóri erlendis.

Thor gegndi fjölmörgum trúnaðarstörfum fyrir rithöfunda og listamenn, hann var meðal annars í stjórn Rithöfundasambands Íslands frá 1972-1974 og forseti Bandalags íslenskra listamanna frá 1975-1981. Þá sat hann í þjóðfulltrúaráði Samfélags evrópskra rithöfunda 1962-1968, í framkvæmdastjórn Listahátíðar í Reykjavík 1976-1980 og í undirbúningsnefnd kvikmyndahátíðar 1978 og 1980. Hann var stjórnarmeðlimur Alliance Francaise árum saman. Thor var einn stofnenda Bókmenntahátíðar í Reykjavík og sat í stjórn hátíðarinnar frá upphafi. Hann var formaður Júdófélags Reykjavíkur í nokkur ár og var um tíma  formaður íslenska PEN-klúbbsins. Thor var einn stofnenda menningartímaritsins Birtings árið 1955 og sat í ritstjórn þess til 1968.

Fyrsta verk Thors, Maðurinn er alltaf einn, kom út árið 1950 og síðan sendi hann frá sér fjölda verka af ýmsu tagi, meðal annars skáldsögur, smásögur, ljóð og ferðasögur auk fjölda greina og pistla um menningu og listir. Hann hlaut margvíslegar viðurkenningar fyrir ritstörf sín og verk hans hafa verið þýdd á fjölmörg erlend mál. Thor þýddi einnig verk eftir erlenda höfunda á íslensku, meðal annars eftir Umberto Eco og André Malraux. Auk ritstarfa lagði Thor stund á myndlist og hélt sýningar á þeim verkum sínum.

Thor Vilhjálmsson lést 2. mars árið 2011.

Forlag: Mál og menning.

Mynd af höfundi: Jóhann Páll Valdimarsson.

Ritþing um Thor Vilhjálmsson í Gerðubergi 21. janúar 2006