Beint í efni

Steinunn G. Helgadóttir

Æviágrip

Steinunn G. Helgadóttir er fædd í Reykjavík 4. mars árið 1952. Hún stundaði nám við Listaháskólann í Gautaborg. Hún hefur starfað sem myndlistarmaður og sýningarstjóri um árabil, tekið þátt í samsýningum bæði hér heima og erlendis og haldið fjölda einkasýninga. Hún sat í stjórn Sambands íslenskra myndlistramanna frá 1995-1996 og í Félagi íslenskra myndlistarmanna frá 1997-1999.

Fyrsta bók Steinunnar var ljóðabókin Kafbátakórinn sem kom út árið 2011. Tveim árum síðar sendi hún frá sér ljóðabókina Skuldunautar. Árið 2016 sendi Steinunn frá sér sína fyrstu skáldsögu Raddir úr húsi loftskeytamannsins og fyrir jólin er nýjasta skáldsaga hennar væntanleg, Sterkasta kona í heimi. Auk þess hafa birst eftir hana ljóð og smásögur í blöðum og tímaritum.

Árið 2011 hlaut Steinunn Ljóðstaf Jóns úr Vör og fyrir Raddir úr húsi loftskeytamannsins hlaut hún Fjöruverðlaunin árið 2017 og var valin ein af tíu nýju röddum í bókmenntatímaritinu Literary Europe.

Steinunn býr í Reykjavík.

Forlag: JPV