Beint í efni

Sif Sigmarsdóttir

Æviágrip

Sif Sigmarsdóttir er fædd í Reykjavík 30. nóvember árið 1978. Hún starfar sem rithöfundur og blaðamaður á Íslandi og í Bretlandi og fæst við skrif bæði á íslensku og ensku. Hún hefur skrifað fjölda bóka á báðum tungumálum sem hafa meðal annars hlotið tilnefningar til Íslensku bókmenntaverðlaunanna og Fjöruverðlaunanna. Hún starfar sem pistlahöfundur hjá Fréttablaðinu og skrifar reglulega fyrir breska fjölmiðla á borð við The Guardian, The Independent og The Bookseller.

Sif lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík og BA prófi í sagnfræði frá Háskóla Íslands. Sif hélt í kjölfarið til Bretlands til framhaldsnáms og útskrifaðist með MA í bókmenntum frá University of Reading.

Fyrsta skáldsaga Sifjar, unglingabókin Ég er ekki dramadrottning, kom út árið 2006. Hún varð söluhæsta íslenska unglingabók ársins. Bók hennar, Freyju saga – Múrinn, fantasía fyrir unglinga byggð á norrænni goðafræði, hlaut tilnefningu til Íslensku bókmenntaverðlaunanna og Fjöruverðlaunanna. Bókin Sjúklega súr saga, Íslandssaga í léttum dúr fyrir unglinga sem myndskreytt var af skopmyndateiknaranum Halldóri Baldurssyni var tilnefnd til Fjöruverðlaunanna og Barnabókaverðlauna Reykjavíkur.

Fyrsta skáldsaga Sifjar sem skrifuð er á ensku er bókin I am Traitor. Bókin er gefin út af Hachette, stærstu bókaútgáfu Bretlands. Önnur bók Sifjar sem skrifuð er fyrir enskan markað er bókin The Sharp Edge of a Snowflake. Bókin hefur verið þýdd á fjölda tungumála.

Árið 2007 stofnaði Sif bókaútgáfuna Handtöskuseríuna, sem gaf út ritröð þýddra skáldsagna eftir konur. Á vegum seríunnar komu út í fyrsta sinn á íslensku höfundar á borð við Audrey Niffenegger, Monica Ali, Karen Joy Fowler, Candace Bushnell og Anna Gavalda. Klúbburinn óx hratt og keypti Forlagið útgáfuna.

Heimasíða Sifjar: http://www.sifsigmarsdottir.com/