Beint í efni

Hlín Agnarsdóttir

Æviatriði

Hlín Agnarsdóttir er fædd í Reykjavík, þann 23. nóvember 1953. Hún er rithöfundur, þýðandi, leikskáld og leikstjóri. 

Hlín lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum við Tjörnina 1973, fil.cand. prófi í sviðslistafræðum frá Uppsala- og Stokkhólmsháskóla 1979, síðan leikstjórnarnámi við Drama Studio London 1988 og loks meistaraprófi í almennri bókmenntafræði frá Háskóla Íslands 2011. Hlín hefur gegnt ýmsum trúnaðarstörfum m.a. fyrir Félag leikstjóra á Íslandi og Félag leikskálda og handritshöfunda, verið sérfræðingur hjá Norræna menningarsjóðnum og setið í stjórn Miðstöðvar íslenskra bókmennta.  

Fyrsta leikverk hennar var Láttu ekki deigan síga (ásamt Eddu Björgvinsdóttur), en það var frumsýnt árið 1984 í Stúdentaleikhúsinu. Af öðrum verkum má nefna toilettedramað Konur skelfa (1996) sem sýnt var við metaðsókn í Borgarleikhúsinu.

Hlín hefur leikstýrt í öllum helstu leikhúsum landsins, meðal annars hjá Leikfélagi Akureyrar, Leikfélagi Reykjavíkur og í Þjóðleikhúsinu.

Árið 2001 sendi Hlín frá sér sína fyrstu skáldsögu, Hátt uppi við Norðurbrún, og síðan hefur hún sent frá sér fleiri skáldverk, sum sjálfsævisöguleg.