Beint í efni

Helgi Guðmundsson

Æviágrip

Helgi Guðmundsson fæddist þann 9. október 1943 á Staðastað á Snæfellsnesi, þar sem faðir hans var sóknarprestur en móðirin húsmóðir að hætti tímans. Að þessum þriðja syni nýfæddum fluttu foreldrarnir til Neskaupstaðar. Þegar Helgi var á níunda ári lést séra Guðmundur skyndilega. Var þá heimilið leyst upp vegna veikinda móðurinnar og fóru börnin, sem þá voru orðin fjögur sitt í hverja áttina. Hann átti næstu tíu árin athvarf í Skuggahlíð í Norðfjarðarhreppi, að sönnu með talsverðum og mislöngum útúrdúrum. Hann er gagnfræðingur frá Gagnfræðaskóla verknáms í Reykjavík og lauk sveinsprófi í húsasmíði frá Iðnskólanum í Reykjavík árið 1967. Varð meistari í greininni á Akureyri 1974.

Hann hóf afskipti af félags- og stjórnmálum þegar á unglingsárum og varð meðal annars formaður Iðnnemasambands Íslands og síðar í forystusveit byggingamanna. Fljótlega að námi loknu, lá leiðin norður, fyrst til Húsavíkur, en síðan til Akureyrar árið 1971. Félagsmálavafstrið breyttist í tímans rás úr tómstundastarfi í atvinnu. Hann varð ritstjóri málgagns Alþýðubandalagsins á Norðurlandi eystra, starfsmaður verkalýðsfélaganna, formaður Trésmiðafélags Akureyrar, bæjarfulltrúi, gegndi fjölmörgum trúnaðarstörfum fyrir samtök byggingamanna á landsvísu, vann hjá Alþýðusambandi Íslands um tíma, sat í stjórn Menningar- og fræðslusambands alþýðu í tvo áratugi, þar af formaður í átta ár.

Árið 1984 flutti fjölskyldan suður og má segja að upp úr því hafi hann farið að sinna ritstörfum af nokkurri alvöru. Hann var um tíma blaðamaður á Þjóðviljanum og ritstjóri blaðsins, ásamt Árna Bergmann, síðustu árin sem blaðið kom út, 1990 - 1992. Fyrstu bækur Helga, Þeir máluðu bæinn rauðan og Markús Árelíus komu út árið 1989, þegar hann var 46 ára. Fyrrnefnda bókin er af sagnfræðilegum toga, nokkurskonar mannlífs- og stjórnmálasaga heimabyggðarinnar, Norðfjarðar. Hin síðarnefnda er aftur á móti skrifuð fyrir börn og þá sem hafa gaman af að lesa fyrir börn. Auk bóka hefur hann skrifað fleiri blaðagreinar í tímans rás, og um fjölbreytilegri efni en tölu verður auðveldlega á komið.