Beint í efni

Guðmundur Andri Thorsson

Æviágrip

Guðmundur Andri Thorsson fæddist í Reykjavík 31. desember 1957. Hann lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum við Sund 1978 og B.A. prófi í íslensku og bókmenntafræði frá Háskóla Íslands 1983. Hann nam til Cand.mag prófs í íslenskum bókmenntum við sama skóla frá 1983 - 1985.

Guðmundur Andri starfaði sem blaðamaður og bókmenntagagnrýnandi á DV og Þjóðviljanum um tíma og var um árabil með þættina Andrarímur í Ríkisútvarpinu. Hann var ritstjóri Tímarits Máls og menningar 1986 - 1989 og tók aftur 2009 - 2018. Einnig starfaði hann sem ritstjóri hjá bókaforlaginu Máli og menningu (síðar Eddu) frá 1987 - 2004 og hjá Forlaginu 2008 - 2017. Hann settist á alþingi Íslendinga sem þingmaður Samfylkingarinnar 2017. Guðmundur Andri hefur að auki spilað á gítar og sungið með félögum sínum í Hinum ástsælu Spöðum.

Fyrsta skáldsaga Guðmundar Andra, Mín káta angist, kom út árið 1988 og síðan hefur hann sent frá sér fleiri skáldsögur. Hann hefur haft umsjón með útgáfu fjölda rita og einnig hefur hann þýtt verk erlendra höfunda á íslensku, m.a. tvær skáldsögur Marinu Lewycka, Stutt ágrip af sögu traktorsins á úkraínsku og Tveir húsvagnar. Guðmundur Andri hefur skrifað fjölda pistla og greina um menningu og þjóðfélagsmál í blöð og tímarit og kom greinasafn hans, Ég vildi að ég kynni að dansa, út 1998. Hann hlaut Menningarverðlaun DV í bókmenntum fyrir Íslenska drauminn 1991 og var bókin einnig tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna sama ár. Skáldsagan Íslandsförin var tilnefnd til sömu verðlauna 1996.