Beint í efni

Eyvindur P. Eiríksson

Æviágrip

Eyvindur P. Eiríksson fæddist 13. desember 1935 í Hnífsdal, N-Ísafirði. Hann er ættaður úr Árneshreppi en ólst upp til 8 ára aldurs á Hornströndum, síðan á Ísafirði og í nágrenni. Að loknu stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri 1955 tók við B.A. nám í dönsku og ensku við Háskóla Íslands sem hann lauk 1964. Hann settist aftur á skólabekk rúmum tíu árum síðar og lauk Cand. mag. prófi í íslenskri málfræði frá sama skóla 1977. Eyvindur hefur í gegnum tíðina fengist við kennslu á flestum skólastigum, hefur kennt við Gagnfræðakólann á Ísafirði, Ármúlaskóla, Menntaskólann í Kópavogi, Tækniskóla Íslands, Kennaraháskóla Íslands og Háskóla Íslands. Hann kenndi almenna hljóðfræði og dönsku sumarlangt á kennaranámskeiðum á vegum Menntamálaráðuneytisins 1971 og gegndi lektorsstöðu við Háskólann í Helsingfors í Finnlandi veturinn 1979 - 1980. Að þeim vetri loknum tók hann við lektorsstöðu í íslensku við Kaupmannahafnarháskóla sem hann gegndi um nokkura ára skeið með aðsetur í Árnasafni. Hann hefur einnig kennt erlendum stúdentum íslensku á sumarnámskeiðum á vegum Norræna hússins. Jafnframt hefur hann starfað við leiðsögu, þýðingar og textalestur og verið á togara svo fátt eitt sé nefnt.  

Auk ritstarfa og kennslu hefur Eyvindur unnið að dagskrárgerð bæði í útvarpi og sjónvarpi, hafði umsjón með þættinum Daglegt mál á árunum 1978-1979 og tók þátt í gerð fyrstu tveggja íslenskuþátta sjónvarpsins árið 1979, en starfaði sem fréttaritari Ríkisútvarpsins í Finnlandi veturinn sem hann kenndi við Háskólann í Helsingfors. Árið 1964 var Eyvindur fulltrúi Æskulýðsráðs á ráðstefnu á vegum Evrópuráðsins í Strassbourg og átti sæti í íslenskri málanefnd í nokkur ár sem fulltrúi Rithöfundasambands Íslands. Hann hefur tekið þátt í ýmsum bókmenntauppákomum erlendis, meðal annars unnið með öðrum listamönnum í Québec og Genúu. Hann er einn af goðum heiðinna manna.

Eftir Eyvind liggja ljóð, skáldsögur, þýðingar og greinar í fagtímaritum. Fyrsta ljóðabók hans, Hvenær?, kom út 1974 og fyrsta skáldsagan, Múkkinn, 1988. Hann hlaut Bókmenntaverðlaun Halldórs Laxness fyrir skáldsögu sína Landið handan fjarskans árið 1997 og var bókin tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna sama ár.

Mynd af höfundi: Ljósmyndasafn Reykjavíkur.