Beint í efni

Einar Bragi

Æviágrip

Einar Bragi fæddist í Skálholti á Eskifirði 7. apríl 1921. Hann ólst upp á Eskifirði, varð stúdent frá M.A. 1944 og stundaði nám í bókmenntum, listasögu og leikhússögu við Háskólann í Lundi 1945 – 1947 og við Stokkhólmsháskóla 1950 – 1953. Hann stundaði ýmis störf, meðal annars síldarvinnu á Siglufirði og Raufarhöfn, leiðsögumennsku erlendis, blaðamennsku á Þjóðviljanum og móðurmálskennslu í ýmsum skólum á gagnfræðastigi með hléum frá 1944 – 1987.

Einar Bragi gegndi fjölmörgum trúnaðarstörfum fyrir rithöfunda, meðal annars var hann formaður Rithöfundasambands Íslands 1968 – 1970, formaður Rithöfundasjóðs Íslands 1974, var fulltrúi Íslands í nefnd á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar sem samdi starfsreglur Norræna þýðingasjóðsins 1972 – 1974 og fulltrúi Bandalags íslenskra listamanna í ráði Norræna hússins í fjölda ára. Hann var frumkvöðull að stofnun bókmenntatímaritsins Birtings 1953 og sat í ritstjórn þess allt þar til útkoma þess lagðist af 1968.

Fyrstu ljóðabækur Einars Braga, Eitt kvöld í júní (1950) og Svanur á báru (1952) komu út þegar hann bjó í Svíþjóð en eftir heimkomu sína 1953 sendi hann frá sér þá þriðju, Gestaboð um nótt. Hann hefur gefið út fjölda ljóðabóka, skáldsögur, endurminningar og ritgerðasöfn auk þess sem hann var ötull þýðandi erlendra ljóða og prósaverka. Hann þýddi meðal annars leikrit Augusts Strindbergs og Henriks Ibsens. Ljóðabækur eftir Einar Braga hafa verið þýddar á önnur mál og einstök ljóð hafa birst í safnritum á fjölmörgum málum.

Einar Bragi lést í Reykjavík í mars 2005.