Beint í efni

Arndís Þórarinsdóttir

Æviágrip

Arndís Þórarinsdóttir rithöfundur og þýðandi fæddist í Reykjavík 21. desember 1982, hún býr og starfar í Reykjavík. Arndís varð stúdent af fornmáladeild Menntaskólans í Reykjavík 2002, hún lauk BA-gráðu í almennri bókmenntafræði frá Háskóla Íslands 2205 og meistaraprófi í ritlist frá sama skóla 2018. Hún er einnig með meistarapróf í leikritun (Writing for Performance) frá Goldsmiths College, London, en því lauk hún 2006.

Arndís hefur unnið í leikhúsi og við blaðamennsku, en lengst af var hún samt deildarstjóri á Bókasafni Kópavogs. Frá 2018 hafa ritstörf verið hennar aðalstarf. Arndís hefur skrifað talsvert fyrir Námsgagnastofnun, þar á meðal stuttar skáldsögur fyrir mið- og unglingastig. Hún hefur einnig fengist við þýðingar og ritstjórn og ritað greinar í blöð og tímarit.

Arndís hefur hlotið ýmsar viðurkenningar fyrir bækur sínar, árið 2020 hlaut hún, ásamt Huldu Sigrúnu Bjarnadóttur Íslensku bókmenntaverðlaunin í flokki barna- og ungmennabóka fyrir bókina Blokkin á heimsenda. Sú bók hlaut einnig Barnabókaverðlaun Guðrúnar Helgadóttur sama ár.

Arndís hefur tekið þátt í ýmsu félagsstarfi tengdum bókmenntum, var formaður IBBY á Íslandi á árunum 2010-2016, hefur meðal annars setið í stjórn Gerðubergsráðstefnunnar og bókmenntahátíðarinnar Mýrarinnar. Hún situr nú í stjórn Síung á íslandi, samtaka íslenskra barna- og unglingabókahöfunda.

Mynd af höfundi : Gassi.

 

Heimasíða Arndísar