Beint í efni

Andri Snær Magnason

Æviágrip

Andri Snær Magnason fæddist í Reykjavík þann 14. júlí 1973. Hann er Árbæingur í fjórða lið en rekur einnig ættir norður á Melrakkasléttu. Hann lauk stúdentsprófi af eðlisfræðibraut Menntaskólans við Sund árið 1993 og B.A. prófi frá Íslenskudeild Háskóla Íslands árið 1997. Lokaritgerð hans, Maður undir himni, fjallaði um ljóðskáldið Ísak Harðarson og var hún gefin út í ritröð Bókmenntafræðistofnunar Háskóla Íslands, Ung fræði, 1999. Andri Snær vann að verkefni fyrir Árnastofnun sem var tilnefnt til Nýsköpunarverðlauna forseta Íslands og í framhaldi af því kom út geisladiskurinn Raddir í samvinnu Smekkleysu og Árnastofnunar. Hann inniheldur upptökur íslenskra þjóðlaga sem safnað var umhverfis landið frá 1903 - 1973. Andri Snær hafði forgöngu um útgáfu bókarinnar Bók í mannhafið sem var fyrsta útgefna bók ársins 2000. Þetta er ljóðasafn nokkurra ungra höfunda, meðal annars Andra Snæs, sem ritstýrði verkinu. Bókin  var ekki til sölu heldur er ætlast til að hún veltist um sem almenningseign.

Andri hefur sent frá sér bækur af ýmsum toga, meðal annars ljóðabækur, smásögur, skáldsögur og barnabækur. Barnabók hans og Áslaugar Jónsdóttur, Sagan af bláa hnettinum, hefur verið þýdd á fjölmörg mál. Leikrit byggt á bókinni var sett upp í Þjóðleikhúsinu 2001 og hefur einnig verið sýnt erlendis, m.a. í Lorraine Kimsa Theatre for Young People í Toronto í Kanada 2005. Leikrit Andra, Náttúruóperan, var sett upp af leikfélagi Menntaskólans við Hamrahlíð árið 1999 og hann samdi leiktextann í Úlfhamssögu sem Hafnarfjarðarleikhúsið setti á svið 2004. Leikrit hans og Þorleifs Arnarssonar, Eilíf hamingja, var frumsýnt á Litla sviði Borgarleikhússins í janúar 2007.

Andri Snær hefur hlotið ýmsar viðurkenningar fyrir verk sín, m.a. hlaut Sagan af bláa hnettinum Íslensku bókmenntaverðlaunin 1999 í flokki fagurbókmennta, fyrst barnabóka. Skáldsagan LoveStar fékk Menningarverðlaun DV í bókmenntum 2003 og Draumalandið: Sjálfshjálparbók handa hræddri þjóð Bókmenntaverðlaun starfsfólks bókaverslana í flokki hand- og fræðibóka 2006 og Íslensku bókmenntaverðlaunin sama ár. Þar með varð Andri Snær fyrstur höfunda sem hlotið hafa verðlaunin í báðum flokkum. Óhætt er að segja að bókin hafi slegið í gegn og hélt Andri fjölda erinda víðs vegar um landið í kjölfar útgáfu hennar. Það sama má svo segja um bók hans Um tímann og vatnið (2019) þar sem bráðnun jökla og umhverfismál eru í brennidepli. 

Mynd af höfundi: Christopher Lund.

Heimasíða Andra Snæs Magnasonar.