Beint í efni

Villibörn

Villibörn
Höfundur
Björn Þorláksson
Útgefandi
Tindur
Staður
Akureyri
Ár
2007
Flokkur
Skáldsögur
Höfundur umfjöllunar
Úlfhildur Dagsdóttir

Náttúruvernd hefur verið mörgum rithöfundum uppspretta skáldskapar og nú undanfarið hafa listamenn farið framarlega í umræðu um umhverfið og mikilvægi þess að ganga varlega að hagnýtingu náttúruauðlinda. Í þeirri umræðu hefur borið nokkuð á (gamaldags) rómantík, þarsem ullarlagðir leiðsögumenn lýsa dásemdum hinnar hreinu, auðu og glæstu náttúru. Slík umræða getur auðveldlega hverfst í andstæðu sína vegna þeirrar upphafningar sem óneitanlega fylgir og klisjan tekur yfir.

Í skáldsögu sinni, Villibörn, virðist Björn Þorláksson vera að taka á þessum tveimur hliðum náttúruverndarsjónarmiða. Sagan er greinilega skrifuð sem áróður gegn stóriðju og álíka (of)nýtingu náttúruauðlinda, en höfundur er einnig meðvitaður um þær rómantísku-klisju-gildrur sem umræðan getur tapað sér í. Verkefnið sem slíkt er þarft og á stundum tekst höfundi ágætlega upp, en í heildina séð gengur verkið ekki nægilega vel upp, þrátt fyrir skemmtilega spretti.

Sögusviðið er Ísland í nálægri framtíð, sveitirnar hafa meira eða minna lagst í eyði og álverin tekið yfir, sveitafólkið hefur allt flutt til Álgarðs, sem er yfirbyggður unaðsgarður á jörð og virðist einskonar blanda af bæ og verslunarmiðstöð með tilheyrandi dystópískum undirtónum, doða þeirra sem misst hafa tengls við ‘landið’. Sögumaður, Smári, er sonur hjónanna sem byggja Fagralæk, síðasta bæinn í dalnum, hann er ákaflega mikill sveitamaður og náttúrubarn, allur klæddur ull enda býlið næsta sjálfbært. Heimur ábúenda að Fagralæk umhverfist svo þegar í hlaðið rennur stærðarjeppi, en þar er kominn ungur jakkafataklæddur farsímavæddur maður sem gerir eigendunum gríðargott tilboð í jörðina. Það er þó mikið leyndarmál hver ætlar að borga og virðist hér sem eitthvað dularfullt samsæri sé í gangi. Einnig er í jeppanum yngismær sem Smári fellur umsvifalaust fyrir, og hún fyrir honum, enda er hann flinkur bæði með færi og byssu og kann að taka á móti lömbum, en sagan gerist undir lok sauðburðar. Þannig er undirstrikað að sagan er sögð í anda hefðbundinna sveitarómansa – tvöfalt, því það er ekki bara aðkomustúlkan unga sem fellur fyrir sveitamanninum og (vel lesna) villibarninu, heldur hefur þetta gerst áður í kynslóðinni á undan þegar móðir Smára féll fyrir föður hans á sama hátt.

Inni á milli koma svo kaflar sem lýsa yfirvofandi dauða baráttukonunnar Heklu sem hefur orðið að táknmynd náttúruverndarsjónarmiða, en er nú að deyja úr lungnasjúkdómi. Svo virðist sem hún hafi gert samning við lækni sinn um líknardauða, en honum er lýst sem miklum glaumgosa, fulltrúa alls hins versta sem álverin bera með sér - merkjavöru, stórra bíla, gervigreindar og gagnvirkra sjónvarpstölva, að ekki sé talað um fegrunaraðgerðir. Vitið er hinsvegar dottið úr tísku.

Björn notar neðanmálsgreinar til að koma írónískri sýn enn frekar til skila og kommenterar stöðugt á eigin texta, þó sérstaklega á þann hluta hans sem snýr að gagnrýni á stóriðju og umræðu um sölu landsins. Þar bendir hann á að hér sé hreinn áróður á ferðinni og það sé ljóst að höfundur svífist einskis þegar kemur að slíkum. Þetta skapar ákveðna tvíræðni innan textans sem þó nær aldrei alveg nógu langt, því á stundum verða þessar athugasemdir sjálfshælnar frekar en írónískar. Á sama hátt virðist sem sveitarómantíkin nái aldrei alveg máli - hún er hvorki nógu rómantísk né nægilega mikil paródía til að virka verulega vel. Sem dæmi má nefna lýsinguna á því hvernig móðir Smára, miðaldra bókasafnsfræðingur og ljósmyndari úr bænum, fellur kolflöt fyrir stálgráum augum “sem voru eins og samofin óbyggðunum og gætu engan svikið” (54) og varpar frá sér öllu til að flytja inn í afdalinn; senan er of klisjukennd til að virka á hvorn veginn sem er, sem rómantík eða paródía. Á sama hátt er það frekar þreytandi hvað ungmeyjan Anna fellur umsvifalaust flöt fyrir hinum siðaða villimanni, auk þess að samlagast landinu á undraverðan hátt.

En þrátt fyrir þessa ágalla á Villibörn góða spretti, á köflum nær höfundur að skapa skemmtilega stemningu og (eins og hann segir sjálfur) er nokkuð sniðugt að láta söguna gerast í fjarlægri framtíð, því það gefur meira rými fyrir ýkjustíl sem oft heppnast vel. Í heildina líður bókin þó fyrir það að vera of mikið áróðursrit og er enn eitt dæmi þess hversu erfitt það er að fella heitar pólitískar skoðanir að skáldlegu máli.

Úlfhildur Dagsdóttir, september 2008