Beint í efni

Váboðar

Váboðar
Höfundur
Ófeigur Sigurðsson
Útgefandi
Mál og menning
Staður
Reykjavík
Ár
2020
Flokkur
Smásögur
Höfundur umfjöllunar
Rósa María Hjörvar

Ófeigur Sigurðsson hefur skapað sér sérstöðu í íslenskri bókmenntasögu síðastliðna tvo áratugi. Hann hefur einkar mótaðan stíl sem er auðþekkjanlegur í ljóðum, skáldverkum og smásögum. Hann hefur alla bókmenntasöguna undir þegar hann spinnur sagnaþráð sinn og er ófeiminn við að skeyta saman ólíkum tímabilum og stílformum. En hann á það líka til að setja upp kúrekahatt og vera með stæla þegar hann tekst á við það hvað það er að vera karlmaður og höfundur á 21. öldinni.

Ófeigur kom fyrst fyrir sjónir almennings í frumlegum ljóðabókum sínum en fyrsta skáldsaga hans um Jón Steingrímsson eldklerk vakti mikla athygli og hlaut hann bókmenntaverðlaun Evrópu-sambandsins fyrir verkið árið 2011. En það var hin magnaða bók um Villiféð í öræfasveit, Öræfi, sem gerði hann að víðlesnum höfundi og færði honum meðal annars íslensku bókmenntaverðlaunin 2014.

Verkin eru mörg hver á jaðri þess að vera sögulegar skáldsögur, en höfundur leyfir lesanda samt aldrei að sökkva í frásagnir fyrri tíma, heldur kippir honum stöðugt inn í nútímann með allskonar tímaskekkjum og leik að blöndun samtímans við hið forna. Eins og í verkinu Heklugjá (2018) þegar Sigurður Jórsalafari uppgötvar að hann eigi eftir að kaupa jólagjafir handa herliði sínu og hefur áhyggjur af gjafapappír í miðju umsátri.

Þýðingarvél Google vill meina að Latneska sögnin transcendere sé á íslensku „yfirganga“, en sögnin merkir að yfirstíga og á einkar vel við höfundarverk Ófeigs, en þýðingarvillan á samt líka vel við því að það er eitthvað yfirgengilegt við stílinn og hvernig höfundur kærir sig kollóttan um hefðbundin mörk.

I

Skál fyrir skammdeginu (2001) er fyrsta ljóðabók Ófeigs. Formið er hefðbundið, ljóð í óbundnu máli sem birtast hvert undir sínu heiti. Í seinni verkum flýtur textinn meira og mörk ljóða er óræðari. Ljóðmælandi er einlægur en lesandi er samt ekki upplýstur um hversvegna það eru glerbrot í rúminu eins og í ljóðinu Upprisa. Þar sýnir Ófeigur líka hæfileika sinn til þess að staðsetja sig alltaf kyrfilega í íslenskum raunveruleika þegar ljóðmælandi skellir í sig hákarlalýsi í morgunsárið.

Handlöngun (2003) er önnur ljóðabók Ófeigs. Við erum stödd í Reykvískum raunveruleika frá fyrsta ljóði þar sem stúlka hefur orðið fyrir nauðgun í Fischersundi. Ljóðmælandi er hættur í skóla og vinnur íhlaupavinnu, sefur hjá og reynir að takast á við lífsleiðan. Það er skemmtilegur kúrekablær yfir verkinu, eins og þegar ljóðmælandi verður að sitja með bakið í vegginn, það er skotið á eftir honum og svo þessi yndislega töff ljóðlína: „og konurnar hverfa eins og kúlur úr skammbyssu οg taka / sér bólfestu í hjörtum annarra manna” (87). Reykjavík verður þannig að póstmódernískum vestra, þar sem ljóðmælandi reikar á milli bólfara og drykkju en form ljóðanna dregur sífellt undan sjálfi ljóðmælandans og í lok verks er lesandi skilinn eftir í vafa um hver hafi skrifað hvað og hver sé látin. Dauðinn er fyrirferðamikill í ljóðunum, þar er talað um dauða vinarins, sjálfsmorð og meira að segja bílinn er dauður. Í síðustu línum verksins er ljóðmælanda líkt við Jesú Krist og er þá aftur í bólförum og má þar greina einskonar endurfæðingu hans. Bókin er í lengra lagi, en stíllinn hraður og efnistökin fjölbreytt og forvitnileg.

II

Fyrsta skáldsaga Ófeigs er Áferð (2005) og er hún gefin út með því yfirlýsta markmiði að vera „ekki allra“ , Í henni kynnumst við Offa sem er á ferð um heiminn. Hann ferðast fyrir hönd annars manns sem getur það ekki en sendir skýrslur heim. Fljótlega fáum við hinsvegar á tilfinninguna að Offi sé óáreiðanlegur sögumaður sem er svo staðfest við ítrekaðar vísanir í minni/minnisleysi. Fljótlega fara svo að birtast  mótsagnir og gloppur í frásögninni. Það er óljóst plott um að Offi sé að leita að einhverskonar uppfinningu eða hatti fyrir manninn sem fjármagnar ferðina. Offi sjálfur er tilgerðalegur og unglingslegur maður á tvítugsaldri. Allt er ömurlegt og flestir hálfvitar. Hann er klofinn á milli þess sem hann skilgreinir sem góðmennsku sína og þess sem hann tilskrifar „litla karlinum“. Litli karlinn er uppfullur af greddu og ofbeldisórum sem Offi sjálfur telur sig hafinn yfir.

Offi er hinsvegar hin alversta sort af ferðamanni, sem telur allt sem telst til túrisma vera undir sinni virðingu og krefst þess að fá að sjá það sem er ekta. Þegar hann finnur það veldur það honum  klígju og lamar hann. Þannig ræður hann illa við þær aðstæður sem hann sækist eftir og á köflum minnir verkið helst á bandaríska unglinga-grínmynd. En Offi breiðir yfir misþroska sinn með stórkarlalegu orðfæri, talar um negra, róna, hórur og sígauna. Ferð hans um ókunnugt lönd eru oftast án samkenndar og virðast fyrst og fremst snúast um hann sjálfan.

Verkið er undarlega samsett, þannig að á köflum leggur Offi fram harða gagnrýni á heimsvaldastefnu og kúgun en virðist samt helst láta sig dreyma um að vera góður yfirmaður eða góður við þær konur sem þjóna honum. Kvenlíkaminn er fyrirferðamikill í textanum og en það sem í seinni verkum er leikandi gróteska jaðrar hér við kvenfyrirlitningu af hálfu sögumanns. Konur eru kerlingar, hórur eða þokkafullar. Brjóst og rassar eru allsráðandi og Offi er nokkuð viss um hvað þær vilja og þær fá enga rödd innan verksins til þess að segja sína eigin sögu. Þannig ferðast Offi um eins og svo margir hvítir karlmenn á undan honum, með tilvistarkrísu í bakpoka handviss um að heimurinn sé hlaðborð gert til þess eins að auka þroska hans og skilning á eigin tilgangi.

III

Í ljóðabókinni Roða (2006) kannar höfundur mörk heilbrigðis og eyðileggingar. Horguðinn leggur land undir fót með sýklaher sínum og hleypir roða í húðina og ræðst á fegurð og heilbrigði. Þannig flosnar allt upp, brotnar niður og úrkynjast. Verkið litast af mælsku höfundar sem leikur sér að málvenjum og minnum til þess að draga upp myndir af eyðileggingu og hamförum. Lesandi lærir hinsvegar líka um nauðsyn rofs, hvernig til að mynda rofinn naflastengur ungabarnsins er hluti af heilbrigðri fæðingu. Rétt eins og sýkingar eru hluti af lífi allra manna.

Um Tvítólaveislan (2008) segir í tilkynningu frá útgefanda að hér „stefni Ófeigur Sigurðsson saman forneskjulegri dulúð og lostafullum viðfangsefnum svo úr verður blanda sem skilur lesandann eftir tilfinningalega steinrotaðan, spólgraðan en þó annarlega háleitan í hugsun.“ Og það er erfitt að gera betur í lýsingu á þessari litlu ljóðabók. Bæði umgjörð hennar og innihald gefa í skyn einhverskonar uppreisn gegn almennum viðhorfum, en verkið hefst á einskonar esseiju um kynæxlun, trúarbrögð og tvíkynja verur. Hér er kannski íslenska góðærið mætt í formi bókar, algjörlega ótamin nautn, sem litaði samfélagið fram að hruni fjármálakerfisins seint september 2008. Í þessu broti er neyslan í fyrirrúmi:

borðið allt á boðstólum
botnlaust látið streyma
líkaminn er sólin
látið logandi stór
fljótin streyma í gegn
um gáttir allar

Sama ár gefur Ófeigur út Provence í Endursýningu (2008) og þar gætir aftur áhrifa góðæris. Hún er samkvæmt útgefandanum Apaflösu síðrómantísk og skrifuð til heiðurs Sigfúsi Daðasyni í Provence á þýska ritvél. Hún er handinnbundin og speglar þessi áhersla á umgjörð verksins þá ofgnótt sem ríkti í íslensku samfélagi rétt fyrir fjármálahrunið 2008. En þrátt fyrir loforð um síðrómantík er verkið jarðbundið. Ljóðin hverfast um þá skemmtilegu spurningu hvað skáldið geri andspænis villisvíni og hér er því kannski grunnur af stórvirki Ófeigs, Öræfum, þar sem skáldið tekst á við villifé. Steinn Steinarr kemur við sögu og þó að stíll Ófeigs sé allt annar má kannski segja að þeir eigi það sameiginlegt að beita beinskeyttu háði í skrifum sínum.

BISCAYNE BLVD (2009) er lítil ljóðabók sem hefst við Mexicoflóa og höfundur dregur upp augnabliksmyndir af mangóuppboðum, mýrarflákum og keldusvínum. En Ísland dúkkar upp hér og þar, með vísunum í Árnessýslu, Snorra og Steinn Steinarr. Sjálfur segir ljóðmælandi að það sé ekki hægt að komast undan norðrinu. Verkið er hinsvegar hófstemmt miðað við fyrri verk. Og ljóðrænan fær að njóta sín án grótesku og gífuryrða. Verkið sýnir þannig hversu fjölhæfur Ófeigur er og tenging hans við Baudelaire fer honum ekki síður vel en Rabelais.

IV

Skáldsagan um Jón og hans rituðu bréf til barnshafandi konu sinnar þá hann dvaldi í helli yfir vetur og undirbjó komu hennar & nýrra tíma (2010) fjallar um eldklerk sem dvelur í helli á meðan Katla gýs og skrifar bréf til Þórunnar. Þórunn var samkvæmt verkinu gift Jóni klausturhaldara sem beitti hana ofbeldi. Eldklerkur og Þórunn  feldu hugi saman og þegar klausturhaldarinn deyr verður til orðrómur um það að Jón hafi komið honum fyrir kattanef til þess að eignast konu hans. Jón er seinn til varna en segir sögu sína og gerir lesanda grein fyrir atburðarrásinni.

Inn í frásögnina fléttast sögur af alþýðu og yfirboðurum, svo og gróteskar lýsingar á Kötlugosi þar sem bændur upplifa ragnarök og þurfa að hafa sig alla við til þess að lifa af. Bjarni og Eggert koma í hellinn og bera með sér upplýsinguna sem í meðförum landans blandast við hjátrú og guðsótta. Á meðan berst klerkur við melakólíu sem hann lýsir sem þeirri gerð þunglyndis sem menn geta haft unað af. Svartagallssýkin, sem melankólía er einnig nefnd er svo tengd við svarta sól Kötlu hamfara og þar með líka við hugmyndir Júlíu Kristevu um list og tunglsýki. Verkið er skemmtilegt, lýsingar ofsafengnar og oft kímnar. Þegar Eggert og Bjarni koma við sögu birtast þeir lesanda eins og eitthvað úr Tinna-bókum. Bókin hefur skýrt afmarkað form og veitir höfundi fjöldamörg tækifæri til þess að sýna vald sitt á mismunandi stílbrögðum hvort sem það er hrollvekja, ástarsaga eða sögulega skáldsagan.

Landvættir (2012) er  kátari og hefur léttara yfirbragð en önnur verk höfundar. Þar tekst hann á við reykvískan samtíma sinn. Aðalsöguhetja heitir Sókrates eftir frægum fótboltamanni og er alin upp hjá vondu fólki í Breiðholti. Hann er í tilvistarkrísu við upphaf verksins, hefur lent í skelfilegu óhappi og er úthrópaður á opinberu vettvangi. Hann flýr lögfræðinám og fer að vinna í kjötvinnslu á Kjalarnesi. Þar hittir hann fyrir misskrýtið fólk og lendir í ýmsum ævintýrum. Þess á milli lifir hann bóhem lífi í 101, en heimarnir fléttast saman þegar Járngrímur samstarfsmaður hans í kjötvinnslunni kemur af stað óeirðum í miðborginni. Járngrímur er nýnasisti og stendur fyrir göngu fyrsta maí sem leysist upp í blóðbaði. Í kjötvinnslunni er listaverkasafn og dularfull kona sem talin er vera listfræðingur. Safnið samanstendur af verkum Kjarval. Þar á meðal ókláraðri mynd sem Sókrates tekur að sér að klára. Í lok verks hefur hann fundið einhverskonar hamingju með listfræðingnum sem er sérfræðingur í rithöfundinum Borges og er ennfremur af suður-amerískum frumbyggja ættum. Stíllinn er ótrúlega þéttur og hraður í þessari skondnu sögu og höfundur fer á kostum í lýsingum á mannlífi. Eins og þegar sögumaður stígur á stúlku á dansgólfinu í upphafi kafla sem nefndur er „Samdrykkja“:

koma henni í stól / af gólfinu / það er erfitt í þrengslunum / mér er hrint af dansandi fólki / hér er ómögulegt að athafna sig í björgunaraðgerðum / ég kem stúlkunni í fangið á manni / hann sýnir henni strax mikinn áhuga / sjálfur er ég undir eins kominn yfir á hinn endann / þar fæ ég óblíðar móttökur / harkalegt olnbogaskot í síðuna / frá grimmilegum manni / hann er að skemmta sér / þarf sitt pláss / nýta helgina vel / ég skil það / (125)

Verkið vísar óbeint í ýmsa atburði og persónur úr samtímanum eins og Stjána í Kók, ferðamannavæðingu og léttvínsbar í eigu franskrar konu. Þar er líka að finna minni sem koma fyrir í seinni verkum, heimili hans á Freyjugötu er á svipuðum slóðum og gistiheimili í verkinu Öræfi, spægipylsa er mikið rædd, en hún kemur við sögu í Heklugjá og svo er líka minnst á helli og villifé. Þannig er þetta líka hluti af alfræðiriti Ófeigs sem þegar í þessu verki er farinn að mynda sinn eigin sagnaheim.

V

Kviðlingur (2013) er ljóðabók sem gefin var út í takmörkuðu upplagi. Hér eru á ferðinni rímuð ljóð þó að ekki verði gerð tilraun hér til þess að greina bragfræðina. Enda er þetta eins og Ófeigs er von og vísa óhefðbundið, í bæði uppsetningu og inntaki. Þannig kallast ljóðið „Dalvík“ kannski á við Dakóta ljóð Káins en dósabjórinn staðsetur okkur í nútímanum og vísunin í Múhammeð bendir í austur öfugt við ljóð vesturfarans.

Á tjaldstæðinu á Dalvík dvelur
þreyttur fýr með dósabjór
& langa kreppta fingur
Múhameði leiðist lukkan burtu
flýr lífið það er gagnslaus
vítahringur.

Í verkinu spannar Ófeigur ýmsar víddir og á auðvelt með að draga upp gróteskar myndir og þetta tvennt einkennir einmitt næstu verk hans. Heljarslóðarorrusta Benedikts Gröndal og Gargantúa eftir Rabelais eru aldrei langt undan en þó alltaf með tilvísunum úr samtíma skáldsins.

VI

Öræfi (2014) fjallar um Bernharð Fingurbjörg, sem er hálfur íslendingur og hálfur Svisslendingur. Ófeigur blandar hér saman skáldskap og raunveruleika að því leyti að Bernharður er sonur konu sem ásamt systur sinni varð fyrir hrottalegri árás á Skeiðarársandi. En sú árás átti sér stað, önnur stúlkan var myrt og hinn stórslösuð og morðinginn faldi sig í helli. Þessi dramatíska atburðarrás er þungamiðja verksins, en henni er pakkað inn í fjöldamörg lög af skrautlegum frásögnum.

Verkið byggir á bréfum Bernharðs, þar sem hann lýsir æsilegri atburðarás í Skaftafelli. Hann hefur verið bitin af villifé og er nær dauða en lífi þegar honum er bjargað af sérvitrum dýralækni sem á köflum tekur að sér hlutverk sögumanns. Ófeigur tvinnar saman sögu svæðisins og þessari furðulegu atburðarás og lætur gamminn geisa svo úr verður hröð frásögn. Bernharð er með koffortið fullt af bókum frá Braga bóksala um Öræfi og er bókin full af ýmsum fróðleik. En líka endalausum leik við lesanda, eins og þegar öll skráð sjálfsvíg fyrr á öldum eru talinn upp í löngum kafla eingöngu til þess að benda á að engin þeirra áttu sér stað í Öræfum. Þegar á líður verkið byrjar lesanda að gruna að ekki sé allt með felldu og að þetta textaflóð sé tilraun til þess að fela eitthvað, eitthvað sem glittir í öðru hverju en hverfur jafn óðan í strauminn. Ákveðnar senur eru endurteknar, með nýjum persónum þannig að virðist sem að það sé einhver undirliggjandi stöðnun. Ófeigur sýnir list sína í því hvernig textinn og ástand hans speglar raunverulegt ástand Bernharðs sem opinberast lesanda í bókarlok.

Þar tekur svo við eftirmáli sem virðist vera skrifaður í einhverskonar post apocalyptic aðstæðum. Verkið fjallar um dauðann en er öðrum þræði saga um eyðileggingu náttúrunnar, gildi hennar og afleiðingar þeirra vegferðar sem maðurinn er á. Í lok verks virðist hið versta hafa átt sér stað og náttúran orðið undir. Með þessu móti tengist þetta verk öðrum verkum frá sama tíma sem vísa í deilur um til að mynda virkjunarframkvæmdir.

Í Heklugjá (2018) veltir sögumaður fyrir sér hvernig maður kynnist annarri manneskju. Hann er á leið á þjóðskjalasafnið að að rannsaka líf og æfi Karls Einarssonar Dunganons. Hann hugsar þetta undir Hallgrímskirkjuturni ásamt hundi sínum Koli. Söguþráðurinn er ekki heilstæður en hægt að segja að þungamiðja verksins sé för Sigurðar Jórsalafara til Jerúsalem. Við það blandast ævintýri Dunganons og Segerts Patursonar og á einum stað bregður meira að segja fyrir Ormi Ormar skáldi sem kom fyrst fyrir hjá Ófeigi í Öræfum. Auk þess er saga af sambandi sögumanns við Heklu þjóðskjalavörð sem hann kynnist á Þjóðskjalasafni Íslands og ferðast með bæði til Berlínar og Istanbúl.

Sagan bæði er og er ekki, er í mótsögn við sjálfan sig og höfundur notar neðanmálsgreinar til þess að gefa til kynna að sögumaður sé höfundur og að hann hafi raunverulega verið að þessum stöðum. Þannig er sjónhverfing verksins endalaus. Ófeigur notar hér sama frásagnarbragð og í Öræfum, þar sem mótsagnir og sjónhverfingar gefa lesanda til kynna að frásögnin sé óáreiðanleg og að hann megi eiga von á einhverju snúningi. En snúningurinn í Heklugjá er samt alls ekki eins afgerandi og skilur þannig lesanda eftir í vafa um hvort hann hafi leyst gátuna.

Í upphafi veltir sögumaður sem sagt því fyrir sér hvernig maður kynnist fólki. Niðurstaðan er að beitt skuli sömu aðferð og landkönnuðir. Þessi hugmynd litar alla bókina, sögumaður ryðst inn í líf annarra, borgir og söguleg tímabil. Sjónarhornið litast af þessari nýlendustefnu og er sjónarhorn konunga. Ofbeldi yfirstéttarinnar er lýst af innblæstri og hrifningu á meðan alþýða fólks hræðir sögumann sem hugsar um morðóða róna og sér hryðjuverkamenn í hverju horni. Heimsvaldastefna hins íslenska menntamanns er til staðar frá upphafi verks þar sem gerð er tilraun til þess að gera Ísland og þá sérstaklega Heklu að miðju menningar í Evrópu þegar sjálfur Dante mætir til þess að skoða landið. Nöfn eru íslenskuð í hví vetna, Jórsalir, Áskell (Ezikiel), Sigurður (Sigert) o.s.frv.

Sögumaður er miðjan og lýsir „hinum“ utanfrá sem annaðhvort framandi eða rangir; klæða sig vitlaust, haga sér vitlaust eða ógna sögumanni. Honum tekst aldrei að brúa bilið á milli þeirra og okkar og endar því í sömu gryfju og aðrir landkönnuðir. Lýsingarnar hverfast um landkönnuðinn sjálfan og viðhorf hans til heimsins frekar en aðra menningarheima og rödd jaðarsins finnst hvergi. Sama á við gagnvart konum í meðförum sögumanns. Hann hyllir Heklu sem er sæt og nett og ímyndar sér samtöl þeirra. Það er talið á fingrum annarrar handar hversu oft hún sjálf tekur til máls. Móður Karls Einarssonar er lýst sem latri og yfirgangsamri og fær ekki að njóta sín sem bóhem á meðan uppátæki sona hennar er til fyrirmyndar. Annars eru konur giftar, huldar, myrtar og þeim nauðgað án þess að sögumaður leggi sig neitt fram við að gefa þeim rödd í allri niðurlægingunni.

Það læðist að lesanda sá grunur að sögumaður sé í raun siðlaus. Það er staðfest þegar hann klofar yfir fórnarlamb hnífstungu í Berlín og hugsar hvernig stungusárið er eins og gjá sem opnast inn í iður jarðar. Hér er því einnig ádeila á höfundarhlutverkið og tilhneigingu  höfundarins að fylgjast með þjáningum annarra án hlutdeildar. Slíkar vangaveltur um stöðu höfundar finnum við í fleiri verkum Ófeigs og má þar benda á Áferð þar sem sami skortur á samkennd einkennir sögumann og lýsingar hans á aðstæðum annarra. Þegar Offi leggur alla áherslu á að finna ekta þjáningu en stendur svo aðgerðarlaus frammi fyrir henni þá minnir það líka á starf höfunda. Eins er hægt að segja að það hversu hægt Jón eldklerkur tekur til varna sýni hversu hægt bókmenntaformið bregst við og hversu getulaust það á það til að vera í tilraunum sínum til þess að bregðast við þjáningu og óréttlæti.

Váboðar (2020) er samansafn af smásögum sem hanga lauslega saman. Rammafrásögnin er saga af furðulegu atviki í lífi konu sem hefur nýverið misst manninn sinn. Í gegnum verkið fáum við vísbendingar um atvikið og í lok verksins fáum við lýsingu á morði eiginmanns hennar. Gegnum gangandi eru draumar og rannsóknir á mágum og öpum. Verkið gerist í framtíðinni og hoppar til og frá í tíma og þannig er sagt frá apanum hennar Ellý Vilhjálms en líka flugslysi í desember 2020. Í verkinu eru sögur af berdreymi, fyrirboðum, dvergum í bland við fyrirbæri eins og  stjórnlagaráð og úthverfalíf. Höfundur nýtur sín í þessum frásögnum, þar sem form verksins hentar einstaklega vel til þess að stríða lesanda, sem er alltaf að reyna að átta sig á réttu samhengi hlutana.

Við það bætist meinfyndni höfundar sem hann notar í bland við sagnaheim sinn til þess að draga upp skopstælingar af samtíma okkar. Í Váboðum kynnumst við manískum höfundi sem reynt hefur að finna ró til listsköpunar í úthverfi. Hugmyndin um hið „eðlilega úthverfalíf“ er tekin í karphúsið og þegar yfir lýkur er ekki laust við að lesandi vilji forðast ferðlög þangað. Tenging milli fugla og drauma er gegnumgangandi og gefur verkinu ljóðrænt stef. Þó að sögurnar séu léttar og minni þannig meira á Landvætti en aðrar bækur Ófeigs, þá er óhugnanlegur tónn í sögunum sem eins og titillinn gefur í skyn að eitthvað slæmt sé yfirvofandi. Þessi undirliggjandi bölsýni talar vel inn í samtíma verksins þar sem hamfaradraugar leynast í hverju horni.

Váboðar eru því enn eitt dæmi um það hvernig að Ófeigi tekst að takast á við samtímann á sinn óvenjulega og marglaga hátt án þess endilega að lesandi verði þess var í fyrstu.

VII

Skáldverk Ófeigs innihald mörg þau brögð og minni sem einkennt hafa íslenskar samtímabókmenntir undanfarna ártuga. Hann beitir óáreiðanleika, leikur sér að minni, býr til sjónhverfingar og völundarhús í frásögn. En það er gróteskan og hið yfirgengilega sem gerir verk hans sérstæð. Hann hafnar mínimalisma og leyfir frásögnum að flæða svo úr verða stórfljót. Verk hans varpa þannig ljósi á þá texta-ofgnótt sem orðið hefur við tilkomu upplýsingatækninnar sem gerir okkur kleift að fræðast jafn auðveldlega um Sigurð Jórsalafara og kjötvinnslu. Í skáldsögunum er samband höfundar við efnið og samband lesanda við höfund sett á oddinn og minnir þannig á að þrátt fyrir tækni og ofgnótt þá hafa grundvallarskilyrði frásagnarinnar ekki breyst. Hlutverk höfundar er til umræðu og þá sérstaklega það sem kalla má siðlaust í fari þeirra: Hvernig þeir ryðjast inn í aðstæður og láta gamminn geisa um framandi heima. Þannig ýtir Ófeigur við lesanda og minnir á að gagnrýn hugsun er eina vörnin við því að lesa yfir sig.


Rósa María Hjörvar, desember 2020