Beint í efni

Undir himninum

Undir himninum
Höfundur
Eiríkur Guðmundsson
Útgefandi
Bjartur
Staður
Reykjavík
Ár
2006
Flokkur
Skáldsögur
Höfundur umfjöllunar
Ingi Björn Guðnason

Að missa póstkort, eða öllu heldur fleygja því, út um glugga á risíbúð á horninu á Kvisthaga og Hjarðarhaga, póstkort sem maður hefur trúlega skrifað eitthvað á en man ekki hvað, hljómar kannski ekki eins og alvarlegt atvik. En í huga E., aðalsöguhetju og sögumanns skáldsögu Eiríks Guðmundssonar Undir himninum, verður slíkur atburður til þess að hann missir tökin á tilveru sinni. Hann hefur opinberað hugsanir sínar, sent frá sér skrif og slíkt getur haft alvarlegar afleiðingar. Atburðarrásin sem fylgir í kjölfarið er ekki beinlínis nein flugeldasýning stórkostlegra viðburða eða dramatískra stóratburða enda einkennist hún af nístandi einveru sögumans þrátt fyrir nokkur samskipti við fólk: „Líf mitt þótti ekki beinlínis spennandi, enginn sirkus, enginn hoppukastali, ekkert trampólín. Ég hlaut að vera einmana, fljótlegur réttur, og kannski var það rétt“ (bls. 65).

Þótt líf sögumans sé ekki neinn sirkus eða hoppukastali, gerist eitt og annað sem hreyfir sannarlega við honum. E. er í launalausu leyfi frá störfum við síðdegisútvarpsþátt á Gufunni, hefur nýverði slitið samvistum við sambýliskonu sína Þórunni og heldur við giftar konur í Reykjavík en fæst einkum við að þýða spænska skáldsögu í leyfinu: „Eins og stundum gerist með bækur sem maður umgengst af alefli þá má segja að ég hafi í vissum skilningi runnið saman við hana og á einhverjum tímapunkti (vendipunkti getum við sagt) hætt að gera greinarmun á sjálfum mér og söguhetjunni, manni sem virðist varla viðbjargandi og hefur ekki þrek til að kollsigla lífi sínu, eins og segir í káputextanum“ (bls. 52). Og það er nefnilega það, E. hefur trúlega ekki þrek til að kolsigla lífi sínu algjörlega, stytta sér aldur, fara í hundana eða ganga í hjónaband. Lífi sínu siglir hann fremur á bólakaf í skáldskap, sú siglingin hefst á þýðingarstarfinu en fyrr en varir er hann farinn að skrifa sína eigin sögu upp úr spænsku skáldsögunni.

Það má reyndar líka allt eins ætla að hann hefjist handa við að lifa í þessari skáldsögu, sé hættur að gera greinarmun á sjálfum sér og aðalpersónunni. Eða eins og hann orðar það strax í upphafi sögunnar: „Stærstu mistök mín í lífinu eru þau að ég hef um nokkra hríð ekki gert greinarmun á skáldskap og veruleika“ (bls. 5). Kollsiglingin nær svo trúlega hámarki þegar handrit að þýðingunni, sem er á þeim tímapunkti löngu hætt að vera þýðing, kemst í hendurnar á öðrum þýðanda sem eignar sér verkið sem sitt eigið. Spænska skáldsagan ber hið kaldranalega nafn Hin föla hönd eilífðarinnar en útgáfa E., eða hins þýðandans, hlýtur titilinn Undir himninum og er gefin út. Sú bók er á einhvern hátt byggð á lífi E. sjálfs, sem er því nánast tekinn í gíslingu og fjötraður við með eigin skrifum.

Þessi skáldsaga fjallar að stórum hluta um skrif og hún afhjúpar eigin tilurð og sköpun í sífellu (og nú er rétt að taka fram að hér er átt við hina eiginlegu skáldsögu Undir himninum sem bókaforlagið Bjartur gaf út á dögunum). Leikurinn með veruleika og skáldskap sem er sífellt til umræðu á einn eða annan hátt, eða ekki til umræðu heldur beinlínis hluti af umgjörð verksins eins og augljósar hliðstæður aðalsögupersónunnar og höfundar hennar eru dæmi um. Hið fyrrnefnda skiptir þó meira máli því veruleiki og skrif E. eru á stöðugu floti og renna saman hvort við annað.

Nokkrir kaflar bókarinnar bera titilinn: „Ég lýsi hér með eftir bernsku minni“ en þessi eftirlýsing sögumanns á bernsku sinni er ein af burðarstoðum sögunnar, jafnvel sú mikilvægasta. E. er alinn upp í einhverskonar þorpi út á landi, sem hann kallar „hverfið“ og gæti verið hvaða þorp sem er. Um leið getur það ómögulega verið nokkuð þorp því þessi staður er ekki til neinsstaðar annarsstaðar en í hugarheimi E. og e.t.v. í huga frænda hans Sigurjóns sem E. telur að deili þessari mynd af hverfinu með sér. Meira að segja Salóme, fullorðin frænka þeirra, sem einnig er uppalin í hverfinu en býr í Reykjavík hefur allt aðra mynd af hverfinu: „Um leið og komið var út á hlað gamla hússins skildu leiðir með okkur Salóme, við vorum undir sama himni, sömu skýin bjuggu til óskiljanleg tákn yfir höfðum okkar, sömu mávarnir leituðu upp lokkandi riffilhlaup, en við vorum eigi að síður í ólíkum heimi. Foreldrar mínir og systkini voru í enn öðrum heimi, ég hef aldrei rætt við þau af neinu viti um hverfið“ (bls. 213). Eftirlýsing E. á hverfinu fer að sjálfsögðu fram í gegnum skrif og hryggstykkið í þessum skrifum er bréf sem hann skrifar til Hrefnu, einnar af konunum sem hann er í tygjum við. Bréfið á að lýsa öllu: „Að segja allt sem hægt er að segja en halda samt áfram að vera framandi, þannig ímyndaði ég mér að bréfið ætti að vera. Og þannig vil ég líka muna hverfið“ (bls. 200).

Þessi skáldaga er drepfyndin, maður beinlínis skellir upp úr hvað eftir annað. Þetta á við stórt sem smátt, því Eiríki tekst að bregða nýju ljósi á smávægilega hluti í samtímamenningu okkar, hluti sem maður tekur varla eftir í fjölmiðlum og annarstaðar. Það er líka óborganlegt að lesa um Kvöldgesti Jónasar Jónassonar og sólbaðsstofumenningu í Reykjavík í einni og sömu bókinni, gott ef ekki í sömu köflum. Um leið og það er kómískt segir það heilmikið um þann hrærigraut sem samtímadægurmenning er. En þrátt fyrir fyndnina er líka sársaukafullur tónn í verkinu. Tónn sem erfitt er að átta sig á í hverju felst, að einhverju leyti liggur hann í stílnum sem er galgopalegur og grafalvarlegur í senn. Það er ef til vill í þessu sem töfrar skáldsögunnar liggja, því hún er töfrandi, í því hvernig húmor og sársauki renna saman.

Ég get ekki stillt mig um að minnast á eitt dæmi úr sögunni sem situr í mér. Eftir að hafa gert tilraun til að skrifa bréfið til Hrefnu sem á að lýsa öllu, ráfar E stefnulaus um miðborgina og vesturbæinn en staðnæmist við Tjörnina til að fylgjast með mönnum sem eru að bjástra eitthvað við styttu hjá Fríkirkjunni. Þar sem hann situr og fylgist með þessum mönnum rifjar hann upp furðulegan bíltúr austur fyrir fjall að Gullfossi með Salóme og náunga að nafni Hannes sem er mágur eða síðbúinn elskhugi hennar, eins og sögumaður kemst að orði. Á leiðinni austur spilar Hannes jólalög af kassettu: „Þessi ferð var reyndar ekki farin í desember heldur skömmu eftir að skóla lauk, í maí eða júní – ég fór ekki til Reykjavíkur nema á sumrin, það er nægilega nöturlegt að vera til þótt ekki bætist við ferðalög að vetrarlagi. Hannes spilaði jólalagið Í hátíðarskapi og söng með. Þegar kaflinn sem Jóhann Helgason syngur einn byrjaði, hækkaði Hannes í tækinu og söng um þær Völu og Soffíu sem bíða eftir því að klukkan verði sex á aðfangadegi, en tíminn líður hægt“ (bls. 280). Lýsingin á þessu furðulega háttalagi Hannesar að spila jólalög af kassettu og syngja hástöfum með er ákaflega fyndin en ferðin er líka öðru marki brennd því einhver dauðabeygur læðist að drengnum í ferðinni, beygur sem fylgir honum áfram. Blómakrans við minnismerki Sigríðar í Brattholti vekur þennan beyg hjá drengnum: „Kransinn skaut mér skelk í bringu. Ég man að ég hugsaði: Þennan krans má ég ekki snerta, ef ég snerti hann þá dey ég“ (bls. 281). Að því er virðist fyrir slysni eða umhugsunarlaust snertir drengurinn samt á kransinum og fyllist ótta: „Á meðan jólalögin hljómuðu í kasettutækinu hans Hannesar, þau urðu sífellt fjörugri, sat ég í aftursætinu, horfið á fjöllin út um bílgluggann og sökk neðar og neðar í hyldýpi innra með mér, þar féll nú foss, það var kransinum að kenna“ (bls. 282).

Stórt og smátt kallast á í þessari skáldsögu. Sífellt dúkka upp kunnugleg stef sem virka annaðhvort eins og áminningar um það sem áður hefur komið fram eða það sem mun koma í ljós síðar í frásögninni. Ég held að töfrar sögunnar felist einkum í þessu, því maður er sífellt hálfvegis að lesa aftur fyrir sig í huganum. Stíllinn er líka rammgöldróttur, heldur manni föngnum svo erfitt er að leggja bókina frá sér. Óvæntar ljóðrænar setningar sem skjóta upp kollinum öðru hvoru eru eins og bragðbætir fyrir allt hitt, allan orðaflauminn og galsann: „Höfum röðina nokkurn veginn rétta þótt ekkert gerist í réttri röð, ég efast reyndar stórlega um að „rétt röð“ sé yfirleitt til. Geislar kvöldsólarinnar eru bókamerki á himninum, þeirra vegna get ég flett liðnum dögum eins og bók“ (bls. 33).

Ingi Björn Guðnason, desember 2006