Beint í efni

Tanntaka

Tanntaka
Höfundur
Þórdís Helgadóttir
Útgefandi
Mál og menning
Staður
Reykjavík
Ár
2021
Flokkur
Ljóð
Höfundur umfjöllunar
Snædís Björnsdóttir

Þórdís Helgadóttir er menntuð í heimspeki, ritstjórn og ritlist og hefur sent frá sér verk af margvíslegum toga. Fyrsta bók hennar, smásagnasafnið Keisaramörgæsir, kom út árið 2018 en að auki hefur hún gefið út tvær ljóðabækur og skáldsöguna Olíu (2021) í félagi við höfundakollektívið Svikaskáld sem tilnefnd er til Íslensku bókmenntaverðlaunanna 2021. Hún var leikskáld Borgarleikhússins 2019-2020 og leikverk hennar, Þensla, var sýnt þar við góðar viðtökur. Tanntaka er nýjasta verk Þórdísar og fyrsta ljóðabók hennar í fullri lengd. Ljóðabókin var tilnefnd til fjöruverðlaunanna 2021 og Þórdís hlaut Ljóðstaf Jóns úr Vör 2021 fyrir upphafsljóð bókarinnar „Fasaskipti“.

Að taka tennur

Tanntaka er súrrealísk og draumkennd ljóðabók í þremur hlutum. Myndheimur bókarinnar er í senn ævintýralegur og óvæntur, ægifagur, viðkvæmur og harðneskjulegur og einkennist því af andstæðum. Ýmsir þræðir tengja ljóðin saman og helstu minni bókarinnar snúa að líkamanum og þolmörkum eða endamörkum hans, móðurhlutverkinu, börnum, systralagi og kvenlegum reynsluheimi.

Bleikur litur er ráðandi í ljóðabókinni og prýðir auk þess kápu hennar. Ýmis bleik fyrirbæri stinga upp kollinum í bókinni, svo sem bleikar bakteríur og flauelshúðar bleikar baunir, en liturinn skírskotar einnig til tannholdsins og margvíslegra kima líkamans sem koma við sögu í ljóðunum. Titillinn Tanntaka dregur þar að auki upp mynd af bleiku og mjúku tannholdi sem hvítar barnstennur rjúfa gat á. Tennurnar veita barninu verkfæri til að bíta umheiminn í sig og standa vörð um viðkvæman góminn en í bókinni öðlast tanntakan margræða merkingu. Þannig skírskotar hún ef til vill einnig til þeirra aðferða sem við beitum til að verja okkur gegn umheiminum og til þess þykka skráps sem við tökum á okkur þegar við fullorðnumst. Um leið kann titillinn að vísa í einskonar tannstuld eða tannmissi.

Barnatennur og glerbrjóstsykur

Eins og minnst er á hér að ofan hlaut Þórdís Ljóðstaf Jóns úr Vör 2021 fyrir ljóð sitt „Fasaskipti“ sem er jafnframt upphafsljóð Tanntöku. „Fasaskipti“ er marglaga og margrætt ljóð um skil á milli ólíkra heima og alls konar himnur, skæni og yfirborð sem hvíla á milli veruleika okkar og þess sem liggur að handan; um upphaf og endi; barnæsku og það að fullorðnast; móðurást, fórn, grimmd og sársauka. Ljóðmælandi dregur upp mynd af börnum sem skauta á ísilagðri tjörn yfir ókönnuðu dýpi, börnum sem hann elskar og „börnunum sem börnin mín elska og börnunum sem elska börnin mín“. Börnin drekka „Fljótandi fæði úr sykurbrjósti / Þau bíta í rendurnar / Bryðja glerbrjóstsykur, stolt af styrk sínum.“ Í barnatennurnar „vantar taugarnar fyrir tannkul“ og börnin dansa ærslafullan dans á þunnu skæninu sem skilur að veruleika okkar og handanheiminn:

Börnin en ekki ég treysta gljúpri himnunni

Yfir handanheiminum þar sem andardrátturinn

Rennur í öfuga átt. Enda er stutt síðan þau komu

Í gegn.

Hér, líkt og í fleiri ljóðum bókarinnar, mætast viðkvæmni og harðneskja og myndmálið er í senn fagurt og grimmt jafnframt því að vera litað sársaukafullum trega. Um leið fjallar ljóðið um það hvernig upplifun okkar af heiminum breytist þegar við fullorðnumst og fáum ný hlutverk, börnin leika sér og skynja ekki háskann en móðirin hugsar stöðugt um hættuna og finnur til ótta við að horfa á börn að leik á þunnum ís.

Rauðhetta og úlfurinn

Yfir Tanntöku hvílir ævintýralegur blær og í ljóðinu „Hótel á bláu vatni“ tekur sagan um Rauðhettu og úlfinn á sig óvænta mynd. Ljóðið er afar súrrealískt og lesandinn fylgir ljóðmælanda inn í draumkenndan veruleika þar sem Rauðhetta týnir egg og telur skapahár, sofnar með blóðugan skurð yfir kviðinn og gengur síðar að eiga veiðimann sem er í raun úlfur:

sagði ekki krummi þér að hún giftist seinna veiðimanni, seinna

þegar hún var orðin kona. Sagði ég veiðimanni, ég meinti auðvitað

reiðum manni.

 

Sagði ég reiðum manni, ég meinti auðvitað úlfi.

Í gegnum ljóðabókina er líkaminn sundurskorinn, rakinn í sundur og sprengdur í tætlur. Í síðari hluta bókarinnar þræðir ljóðmælandi sig um myrka kima líkamans í leit að hryggjasúlunni sem heldur honum saman:

Af því að þegar þú hugsar út í það þá er lifandi líkami myrkra-

kompa

 

Líffærin strita í hita og myrkri og þrengslum

Sitja þarna þind við bris við lifur við leg

 

Frumuveggur við frumuvegg og öll staurblind í myrkrinu

Ljóðin vekja þannig upp ýmsar hugleiðingar um þá merkingu sem lögð er í líkamann og sömuleiðis hvernig hann mótar hugsun okkar og upplifun af heiminum.

Tanntaka er ljóðabók sem er í senn súr og sæt, beisk og blóðug. Tónninn í bókinni er nýstárlegur og ferskur, ljóðin hafa fallegan hrynjanda og tungumálið er lipurt og leikandi. Myndmál ljóðanna er sterkt og þau flæða fram af miklum krafti en vert er að staldra við og lesa í annað eða þriðja sinn því við hvern lestur má uppgötva eitthvað nýtt.
 

Snædís Björndsóttir, janúar 2021