Beint í efni

Sýrópsmáninn

Sýrópsmáninn
Höfundur
Eiríkur Guðmundsson
Útgefandi
Bjartur
Staður
Reykjavík
Ár
2010
Flokkur
Skáldsögur
Höfundur umfjöllunar
Sigurður Ólafsson

 

Ef einhver BA-nemi sem ómögulega getur fengið hugmynd að sniðugu lokaverkefni er að lesa þetta, þá er ég hér með uppástungu: Pældu í karlkyns aðalpersónum nokkurra nýlegra íslenskra skáldverka og svaraðu því hvaða deyfð kom eiginlega yfir þær. Alla vega mætti athuga með skrif svoleiðis verkefnis út frá skáldsögum eins og Bankster eftir Guðmund Óskarsson, Handbók um hugarfar kúa eftir Bergsvein Birgisson og hinum nýútkomna Sýrópsmána Eiríks Guðmundssonar. (Muna svo eftir að þakka mér fyrir uppástunguna í formála BA-ritgerðarinnar).

Það er nefnilega sláandi hversu margt aðalpersónur þessara þriggja bóka eiga sameiginlegt. Allir eru þeir alveg merkilega passívir í eigin lífi og virðast raunar aktívir í því einu að klúðra viljandi því litla sem þeir hafa áunnið sér í tilverunni. Þannig gerir sérviska þeirra allra það að verkum að þeir rekast ekki í vinnu af því að þeir treysta sér ekki til að sinna henni nema eftir sínum tiktúrum. Allir eiga þeir konur eða kærustur sem gengur mun betur að fóta sig í tilverunni en þeir og sigla fram úr þeim eftir því sem á líður. Allir eru þeir einfarar sem eiga mun betra með það að fóta sig í eigin grúski og þankagangi en í hinu ferkantaða samfélagi sem krefst þess að þegnarnir leiki rétt hlutverk við rétt tilefni.

Þokan sem liggur endalaust yfir Reykjavík allri í Sýrópsmánanum rímar vel við skýjaþykknið í kolli aðalpersónunnar. Maðurinn er eirðarlaus, missir vinnuna vegna þess að hann fer ekki eftir grundvallarfyrirmælum og hefur svo ekki drift í sér til að sækja um önnur störf, þrátt fyrir þrábeiðnir sambýliskonu sinnar. Hann flýr þokuna með konu sinni og barni til Ítalíu en veröldin er honum eftir sem áður hálfhulin, og það bókstaflega, því að í stað reykvísku þokunnar kemur ítalskur skógur og ógreinilegir slóðar innan hans. Sama móðan og myrkrið. Meira að segja heimur skáldskaparins og pælinganna sem hann flýr inn í heldur honum ekki nema um stund. Þegar hann byrjar að blaða í ljóðabók sem hann tók með sér til Ítalíu sér hann eftir að hafa ekki tekið aðra bók með sér í staðinn.

Sýrópsmáninn er fyrsta verkið sem ég les eftir Eirík Guðmundsson og þess vegna get ég ekki sett það í samhengi við hans fyrri bækur. Ég veit því ekki fyrir víst á hvaða leið Eiríkur er og ætla líka að stilla mig um að svindla með því að reyna að setja hann í samband við útvarpsmanninn Eirík Guðmundsson sem vissulega hefur tekist að skapa sér eigin höfundareinkenni sem pistlahöfundur, fyrst og fremst í Víðsjá.

Sýrópsmánann á ekki að lesa einu sinni, þó að ég viðurkenni að hafa einungis látið einn lestur nægja áður en ég settist niður og skrifaði þessi orð. Það er nefnilega mýgrútur af vísunum hér og þar, undirliggjandi meiningum og merkingum. Bara það að Eiríkur hefur á undanförnum árum kynnt grúsk sitt fyrir þjóðinni á jafnólíkum höfundum og chileanska skáldinu Roberto Bolaño og William Faulkner gefur spennandi vísbendingar til að rekja sig eftir. Sem sagt; fleiri tilvalin verkefni fyrir bókmenntafræðinema í leit að hugmynd fyrir lokaverkefni. 

Eiríkur Guðmundsson lofar góðu í íslenskum bókmenntaheimi. Við lestur þessarar bókar óskar maður þess að hann haldi áfram að skerpa sín höfundareinkenni og veiti takmarkalausum innblæstri sínum áfram út í skáldskap. Ég vona að það skiljist sem jákvæð ummæli um rithöfundinn Eirík Guðmundsson þegar að ég segi að mig gruni að hann eigi eftir að skrifa mun betri bækur en Sýrópsmánann – að þessi bók gæti vel verið upptaktur að einhverju ennþá flottara.

Sigurður Ólafsson, nóvember 2010