Beint í efni

Stelpur sem ljúga

Stelpur sem ljúga
Höfundur
Eva Björg Ægisdóttir
Útgefandi
Veröld
Staður
Reykjavík
Ár
2019
Flokkur
Skáldsögur
Höfundur umfjöllunar
Björn Halldórsson

Það kvað við nýjan hljóm þegar Eva Björg Ægisdóttir gaf út sína fyrstu bók, Marrið í stiganum, árið 2018. Bókin var fyrsti handhafi bókmenntaverðlaunanna Svartfuglsins, sem ætluð eru nýjum íslenskum glæpasagnahöfundum og voru sett á fót af Yrsu Sigurðardóttur og Ragnari Jónassyni í von um að bæta í krimmaflóru landsins. Þó var Eva Björg ekki að finna upp hjólið í þessari fyrstu bók. Frekar má segja að hún hafi fylgt í fótspor Ragnars sjálfs, sem hefur lagst í hálfgerða alkemíu með því að bræða form hinnar hæglátu ensku hefðarsetursmorðgátu saman við hráslagalegan frásagnarmáta norrænu rökkursögunnar. Í Marrinu í stiganum lagðist Eva Björg í viðlíka gullgerðarlist, þótt innihald bræðslupottsins ætti meira sameiginlegt með breskum þorpsmorðgátum, þar sem leyndarmál og dulinn harmur leynist undir yfirborði kyrrláts sveitaþorps. Íslenskir krimmar eiga það til að gerast annað hvort í hinni gráu Reykjavík (borg óttans) eða í einangruðum sjávarplássum úti á landi sem eru umkringd fagurri en harðneskjulegri náttúru. Því fylgdi því ákveðinn ferskleiki að fá í hendur bók sem gerist á Akranesi; hversdagslegu bæjarfélagi í nágrenni Reykjavíkur sem smátt og smátt er að breytast í eitt af úthverfum borgarinnar.

Skvísusaga á Skaganum

Marrið í stiganum kynnti til sögunnar rannsóknarlögreglukonan Elmu, sem í fyrstu bókinni er nýflutt aftur á Skagann eftir margra ára fjarveru. Hún býst við að hafa lítið að gera í sinni hæglátu heimabyggð en að sjálfsögðu þarf hún strax að ráðast í torvelda morðrannsókn. Með í för er Sævar, félagi hennar í lögreglunni og mögulegt ástarviðfang. Það má segja að annað innihald bræðslupottsins sé nefnilega það bókmenntaform sem Alda Björk Valdimarsdóttir bókmenntafræðingur hefur kallað „skvísusögur“ (chick lit) í skrifum sínum um arfleið Jane Austen, en auk lögreglurannsóknarinnar er gegnumgangandi þráður í bókinni það hvort Sævar og Elma muni rugla saman reitum eður ei. Önnur birtingarmynd skvísusögunnar í Marrinu í stiganum er að frásögnin er á köflum gamansöm og gefur sér góðan tíma í að kynna fjölskyldu Elmu og sýna hversdagslegt samneyti Elmu við móður sína, föður og eldri systur. Þessi fjölskyldudínamík er annar þáttur í því hversu óvenjulegur krimmi er hér á ferðinni. Það er sjaldgæft að rannsakendur í morðgátum búi að fjölskyldulífi eða séu nátengd föður sínum og móður. Þvert á móti eru slíkar persónur oft og tíðum líkt og sjálfsprottnir einstæðingar. Einnig leggur bókin mikið upp úr því að sýna vináttusambönd kvenna. Í Marrinu í stiganum er m.a. dvalið við erfiðleika Elmu við að tengja á ný við systur sína og vinkonur á Skaganum, sem og önnur flóknari og hættulegri vinkonusambönd sem byggð eru á hrifningu, öfund og átakanlegum leyndarmálum. Eru þessi kvennasambönd mun veigameiri hluti sögunnar en tvístígandi ástartilfæringar Elmu og Sævars, sem eru á köflum heldur klisjulegar. Þessu þema um sambönd kvenna er haldið til streitu í Stelpur sem ljúga, annarri bók Evu Bjargar um Elmu og Sævar.

Mæður og dætur

Það er ljóst að Eva Björg hefur þroskast töluvert sem höfundur á milli sinnar fyrstu og annarrar bókar. Marrið í stiganum fór heldur hægt af stað og eyddi of miklum tíma í að fylgja eftir ýmsum persónum sem lítið komu að málinu. (Bókadóm minn um Marrið í stiganum má finna annarstaðar hér á vefnum.) Í Stelpur sem ljúga er atburðarrásin mun þéttari og framvinda sögunnar heldur sig mestmegnis við sjónarhorn Elmu, fyrir utan stutta innskotskafla sem eru í öðru sjónarhorni og verður fjallað nánar um hér að neðan. Strax í fyrsta kafla bókarinnar kemur upp líkfundur í Grábrókarhrauni. Reyndar á morðmálið sér nokkra forsögu þar sem líkið reynist vera af ungri móður sem hét Maríanna og hvarf sex mánuðum áður. Elma og Sævar rannsökuðu það mál á sínum tíma og töluðu við aðstandendur Maríönnu, en allt benti til þess að hún hefði fyrirfarið sér. Hún átti sér erfiða sögu og hafði nokkrum sinnum horfið frá dóttur sinni í fleiri daga í senn, sem leiddi til þess að barnaverndarnefnd hafði afskipti af mæðgunum og útvegaði þeim stuðningsfjölskyldu á Borgarnesi. Þegar Elma og Sævar taka málið aftur til rannsóknar virðast aðstandendur og vinir Maríönnu fæstir hafa saknað hennar mikið. Hekla, dóttir hennar, er flutt inn til stuðningsfjölskyldunnar og virðist vera að pluma sig mun betur en þegar hún bjó með móður sinni. Eins og Sæunn, fósturmóðir hennar útskýrir fyrir þeim: „á vissan hátt var þetta gott fyrir Heklu. Ég er ekki að segja að það sé gott að Maríanna dó, alls ekki. En aðstæður Heklu hafa breyst til hins betra og ég veit að hún er ánægð að geta loksins búið hjá okkur“ (37). Þannig veltir sagan upp óþægilegum spurningum um móðurhlutverkið og þær mismunandi félagslegu aðstæður sem hafa áhrif á hæfni eða getu Maríönnu og Sæunnar sem mæður Heklu. Sökum bakgrunns síns og samfélagsstöðu er Maríanna á margan hátt í veikari stöðu sem móðir en Sæunn, sem á sér gott stuðningsnet og fallegt heimili og getur veitt Heklu aðgang að meiri lífsgæðum; t.d. leyft henni að iðka íþróttir og séð til þess að hún eigi öll réttu fötin til að falla inn í hópinn í skólanum. Dvelur bókin töluvert við hvaða áhrif þessi mismunur hefur á Heklu og afleiðingarnar sem það hefur á samband hennar við Maríönnu.

Sagan inni í sögunni

Inn í þessa togstreitu fléttast stuttir innskotskaflar sem sýna okkur enn eina móðurímynd. Þessir kaflar innihalda fyrstu persónu frásögn ungrar móður sem á erfitt með að tengja við dóttur sína og stendur frammi fyrir ýmsum áskorunum sem einstætta foreldri, en hún á ekkert samneyti lengur við sína eigin fjölskyldu út af ótilgreindum atburðum í fortíðinni. Þessir stuttu kaflar fylgja ónefndu móðurinni í gegnum fyrstu ár dóttur hennar og bera titla eins og „Fæðingin“, „Fimm mánaða“, „Eins árs“, „Fimm ára“ o.s.frv. Lesandinn fær að sjá hvernig samband mæðgnanna þróast og breytist allt þar til tengsl þeirra við morðmálið kemur í ljós. Þessi uppsetning er kunnugleg; það er álíka innri frásögn í Marrinu í stiganum sem einnig snýr að mæðgum í erfiðum aðstæðum—þótt þar sé sjónarhornið í höndum dótturinnar en ekki móðurinnar. Eva Björg er afbrotafræðingur að mennt og það er ljóst að henni er umhugað um að leita svara við spurningum um hvað býr að baki þegar fólk framkvæmir ofbeldisverknaði. Þessi frásagnarmáti leyfir henni að kafa ofan í orsakir ofbeldis og aðstæður gerenda.

Íslenska formúlan

Þessi frásagnartækni hefur verið áberandi í íslenskum glæpasögum undanfarin ár. Því er ekki að undra þar sem svona ótilgreindir innskotskaflar sem standa utan við megin sjónarhorn frásagnarinnar eru einföld en áhrifarík leið til að skapa spennu og dulúð frá fyrstu síðu. Einnig sjá slíkir kaflar um að mata lesendur hægt og bítandi á upplýsingum sem ýmist afvegaleiða eða varpa ljósi á lausn gátunnar. Það er ekki hægt að sakast við hvernig Eva beitir þessari tækni en ég verð að viðurkenna að ég er farinn að verða eilítið leiður á þessu tiltekna stílbrigði. Kannski er það sökum álagsins við að koma með nýja bók hver jól en mér finnst íslenskir krimmahöfundar vera farnir að styðja sig fullmikið við þessa uppsetningu. Vonandi mun Svarfugl þeirra Yrsu og Ragnars leiða fleiri óhefðbundna höfunda inn í íslensku glæpasögusenuna sem geta hrist eilítið upp í formúlunni.

Afþreyingalestur og þjóðfélagsmein

Kannski er það sökum álagsins við að þurfa að fylgja á eftir sinni fyrstu bók strax árið eftir sem gerir það að verkum að Stelpum sem ljúga förlast aðeins á lokametrunum. Ekki er þó endilega við plottið sjálft að sakast, þó að úrlausn gátunnar gangi ekki alveg hnökralaust upp. Líkt og titillinn ýjar að hvarfast efni bókarinnar um erfið málefni sem mikið er rætt um í samfélaginu um þessar mundir. Að innlima slík þjóðfélagsmein inn í skáldverk getur verið mikil áskorun, og hætta er á að höfundar meðhöndli slík mál af of mikilli léttúð eða nýti þau til þess eins að þjóna plottinu án þess að taka þátt í samfélagsumræðunni. Fyrri bók Evu Bjargar innihélt hliðarsögu úr fortíð Elmu sem sneri sjálfsmorðum og afleiðingum þeirra fyrir aðstandendur og fannst mér hún höndla það efni af mun meiri nærgætni en sýnd er hér. Það er mikil synd þar sem nálgun hennar lofar góðu framan af en undir lokin er líkt og ákveðnar persónur taki að brjóta gegn persónusköpun sinni og bugta sig tilneyddar undir þarfir plottsins. Tel ég að bókin hefði verið sterkari ef höfundur hefði gefið sér eilítið meiri tíma til að taka ígrundaðar ákvarðanir byggðar á þeim grunni sem hún leggur framan af í frásögninni eða leyft tilteknum atriðum að vera opnari fyrir túlkun lesandans. Slíkt er þó erfitt að gera í glæpasögum, sem reiða sig á skýrar úrlausnir. Þykir mér líklegt að hin eilífa barátta spennusagnahöfundarins við að forðast fyrirsjáanlega framvindu hafi leitt Evu niður þessa tilteknu blindgötu.

Morðalda á Akranesi?

Þrátt fyrir þessa hnökra er Stelpur sem ljúga á heildina litið prýðis spennusaga. Líkt og fyrri bókin lofar hún góðu um framhaldslíf Evu í glæpasagnageiranum. Forvitnilegt verður þó að sjá hvort Elma og Sævar snúi aftur þar sem saga þeirra nær ákveðnum endapunkti undir lok bókar. Ef svo er ekki þá tel ég að ég myndi sakna Elmu töluvert meira en Sævars. Þó að almennt sé persónusköpun Evu Bjargar einn af styrkleikum hennar sem höfundar þá er Sævar ekki næstum því jafn heilstæð og áhugaverð persóna og Elma. Í bókinni gegnir hann litlu hlutverki öðru en að vera ástarviðfang Elmu.

Eva Björg hefur styrkst mikið sem höfundur frá sinni fyrstu bók og mun efalaust halda áfram að gera það. Gaman er að sjá hvernig hún er óhrædd við að toga ólíka áhrifavalda inn í íslenska glæpasagnaformið, sem býður upp á svo miklu fleiri möguleika en hingað til hafa verið kannaðir af glæpasagnahöfundum þjóðarinnar. Annar styrkleiki er hve skýrt og afmarkað sögusvið hún hefur fundið sér í lögregluumdæmi Vesturlands og í Akranesbæ sjálfum. Í meðhöndlun Evu Bjargar bíður meinhæg tilveran í þessu helst til flata bæjarfélagi upp á ýmsa möguleika sem vert er að kanna í hennar næstu bókum. Í fyrirrúmi er þó afrek hennar við að skapa heilstæða og sjálfstæða persónu í lögreglukonunni Elmu, sem á sér flókið og jafnvel mótsagnakennt tilfinningalíf og er á lúmskan hátt töluvert margslungnari en gengur og gerist í íslenskum glæpasögum.


Björn Halldórsson, desember 2019