Beint í efni

Staðir

Staðir
Höfundur
Guðrún Hannesdóttir
Útgefandi
Salka
Staður
Reykjavík
Ár
2010
Flokkur
Ljóð
Höfundur umfjöllunar
Úlfhildur Dagsdóttir

Það skilur enginn hvað þetta auglýsingaslagorð á eiginlega að þýða (og ég man alls ekki hvað er verið að auglýsa), en hinsvegar á frasinn afar vel við þessa ljóðabók Guðrúnar Hannesdóttur, því þar er sannarlega gott að vera.

Staðir er önnur ljóðabók Guðrúnar, en sú fyrri, Fléttur, kom út árið 2007 í kjölfar þess að Guðrún hlaut Ljóðstaf Jóns úr Vör. Sú bók þótti mér í það hógværasta og ljóðin óþarflega sviplítil. Kannski mætti tengja það einhverskonar femínisma - að skáldkonan sé svo hógvær að það varla heyrist í henni og kannski er bara um að kenna minni skáldskaparsýn. Í umsögn Björns Þórs Vilhjálmssonar (sem vitnað er til aftast í nýju bókinni) segir: „Gegn ys og þys hins póstmóderníska nútíma stefnir bókin dansi kyrrðarinnar.” Björn Þór fagnar því sem mér finnst athugavert og mögulega segir þetta sitt um það viðhorf sem gagnrýnandi ferjar með sér inn í hvern lestur og hvert verk.

En hvað um það, ég held að hrifning mín á nýju bókinni þurfi alls ekki að þýða að Guðrún sé orðin einhver póstmódernisti (eða ég hætt að vera það). Mér finnst röddin einfaldlega sterkari og það sem meira er um vert, hér er kominn húmor. Ekki endilega einhver póstmódernísk írónía, takið eftir, bara dálítil hlýleg kímni, ekki ósvipuð þeirri sem birtist í ljóðum hinnar kunnu og alls ópóstmódernísku skáldkonu, Vilborgar Dagbjartsdóttur.

Það er reyndar fleira sem minnir mig á Vilborgu í ljóðum Guðrúnar, til dæmis hlýlegar lýsingar á búfénaði. Þetta er heimur sem ég þekki ekki sjálf en hef alist upp við sögur af, aðallega frá móður minni og móðursystrum, en líka ömmu og jafnvel afa. Mér finnst því alltaf forvitnilegt að lesa ljóð af þessu tagi. Eitt slíkt, „fang”, lýsir fullkominni samkennd með lambinu sem verið er að marka: „þetta tekur fljótt af” lofar ljóðmælandi, og eftir að hnífnum er brugðið á eyrun er strokið yfir „með hrjúfum þumalfingri.” Svo eykst samsömunin í annarar persónu frásögn: „þú spyrnir þér / titrandi úr fanginu / hristir sárt höfuðið / svo blóðið ýrist / úr báðum eyrum / út í hrollkalt vorið // merkt lífinu / um stund.” Lambið er falleg og mjúk ímynd lífsins. Ljóðið „landnám” gefur svo skepnunni táknrænni merkingu, en þar er fjallað um kvígu sem ljóðmælandi leiðir langa leið, „nú er leiðitöm og létt í spori / ljúfan mín ung og kná.” Sama samkennd birtist í annarar persónu ávarpi: „þú fagureyga / fótviss og frá” og þó skepnan sé orðin þreytt, „syngur þreyta í beinum” þá heldur hún ótrauð áfram, „sleikir dögg af steinum / systir mín silkihrein” og þær ná niður í fjöru glaðar í hjarta: „allt þetta á ég ein!”

Hér er á fallegan hátt dregin fram ferð með ljúfri skepnu, sem einnig táknar landnám, en á landnámsöld gátu konur eignað sér land á þennan hátt. Annað ljóð fjallar einnig um kú á táknrænan hátt, „taktu hár úr hala mínum”, þar geta ljóðmælandi og kýrin treyst hvor á aðra, en þegar ógæfan „varpar eiturskugga / yfir okkur báðar / grípum við í tómt // hárið sem við lögðum á jörðina / er hvergi að sjá // okkur láðist að reikna með / bannsettri vestanáttinni / og rokgjarnri iðrun / óbótamanna.” Þjóðsagan um Búkollu, beljuna úrræðagóðu, bætir enn nýrri mynd við en það sem einkennir þessar táknmyndir skepna (líf, land og auður) er að þær eru líka virkir þátttakendur, lifandi persónur ljóðanna, en ekki dauðar myndhverfingar.

Húmorinn sem ég nefndi áðan kemur líka fram í búkolluljóðinu og beinist bæði gegn ljóðmælanda sjálfum, fyrir fyrirhyggjuleysið, og forkólfum kreppunnar, einnig fyrir fyrirhyggjuleysið. Kreppan stingur sér aftur niður og enn á sama kómíska háttinn í ljóðinu „blessun”, en þar eru það kristin fræði sem bindast skepnuhaldi: „þegar skuldunautunum / hefur verið fyrirgefið / og þau bundin á básana” tekur gleðin við á ný, kveikt er á ljósum „hjá vesalings meinvillingunum” og við getum skriðið „í heimsumbólið / og jésus breiðir blessun sína / á barnaskóna mína.” Tónninn er krúttlega barnslegur en merkingin margslungin, bæði háðsleg og dálítið andstyggileg, því allir vita að skuldunautum verður aldrei komið á bása né mun ljósið upplýsa meinvillingana. Eins og fram kemur í búkolluljóðinu, þá er iðrun óbótamanna rokgjörn. Því má segja að á vissan hátt sé hér meira myrkur en birta, en samt er tónninn svo fallega skær að það er ekki annað hægt en brosa.

Þessa tæru beitingu á náttúru og þjóðsögu er einnig að finna í ljóðum Þóru Jónsdóttur, og hefur hún reyndar iðulega verið talin sem einkenni á ljóðum kvenna. Þjóðsagan stingur sér víðar niður, eins og í dásamlegu ljóði sem vísar til Bakkabræðra og iðju þeirra við að bera inn ljós, og náttúrustemning er einnig áberandi í ljóðunum. Stundum tekur hún á sig óvæntar myndir eins og í ljóðinu „meydrottningin”, en þar hverfist náttúrusýnin inn í hinn fullkomna hversdagsleika morgunverðarins: „aldrei var nokkurt eyland / jafn fagurt og frjálst / jafn glitrandi hlýtt / og nákomið mér / og daginn / sem mér tókst / að láta hafragrautinn / dansa í mjólkinni / í fyrsta sinn.” Og enn á ný birtist hér mynd af landnámi.

Vissulega eru myrkari ljóð inni á milli, en heildarstemningin í bókinni er létt og björt og það er kannski það sem hrífur mig hér umfram ljóðin í fyrri bókinni, einhver afslappaður léttleiki. Segja má að hér hafi skáldkonan náð að helga sér sitt eigið land.

Úlfhildur Dagsdóttir, nóvember 2010