Beint í efni

Smáa letrið

Smáa letrið
Höfundur
Linda Vilhjálmsdóttir
Útgefandi
Mál og menning
Staður
Reykjavík
Ár
2018
Flokkur
Ljóð
Höfundur umfjöllunar
Úlfhildur Dagsdóttir

Pólitík og listir eiga sér flókna sögu og enn flóknara samband. Listir hafa oft og iðulega leikið lykilhlutverk í pólitísku andófi og félagslegri og menningarlegri greiningu, en jafnframt hafa listamenn ítrekað minnt á að þeir hafa ekki neinar skyldur gagnvart pólitískri umræðu, skylda þeirra er fyrst og fremst við listina. Þessi togaði tangó valsar svo vítt og breytt um sviðið, allt eftir stefnum og straumum í hugmyndaheimi listarinnar, og svo auðvitað þjóðfélögum og menningarlegum aðstæðum hverju sinni. Ekki má heldur gleyma því að pólitík og samfélagsleg rýni er ekki einfalt mál, ekki frekar en hugtökin list og menning; ég hika til dæmis ekki við að segja að öll list sé í grundvallaratriðum alltaf pólitísk, það að fremja list og taka þátt í menningarumræðu er í sjálfu sér pólitísk gjörð. Pólitíkin eða samfélagsrýnin getur birst á ákaflega ólíkan og fjölbreyttan hátt, og þar kem ég aftur að upphaflegu yfirlýsingunni um hið flókna samband. Flækjustigið felst hvað helst í því að halda tryggð við hvort tveggja, listina og pólitíkina. Þar er það helst pólitíkin sem er óþekka stærðin, ef hún tekur yfir er hætt við að listin bugist.

Eftir þennan langa inngang er best að taka strax fram að ljóðabókin Smáa letrið eftir Lindu Vilhjálmsdóttur er sérdeilis gott dæmi um hamingjusaman vefnað pólitískrar ádeilu og listrænnar sköpunargleði. Linda á að baki fjölbreytt höfundarverk, fyrst og fremst í formi ljóða, en hún hefur einnig skrifað skáldsögu, Lygasögu (2003), sem er eitt af þeim fjölmörgu athyglisverðu verkum sem standa á mörkum skáldsögu og æviskrifa, og fjalla beinlínis um þau mörk. Í ljóðum sínum hefur Linda meðal annars tekist á við ást og ástarsorg í einni af fallegri ástarljóðabókum síðari tíma, Öll fallegu orðin (2000). Tónninn er öllu léttari í bókinni Valsar úr síðustu siglingu (1996), en þar er hafið og sjómennskan til umfjöllunar.

Ljóðabókin Frelsi kom út árið 2015 og hlaut mikla viðurkenningu, en þar er einnig sleginn afar pólitískur tónn. Að mínu mati er Smáa letrið mun betur heppnað verk, ekki síst vegna þess að þar nýtur sérstæður húmor skáldkonunnar sín betur, og þó að henni sé greinilega afar mikið niðri fyrir þá einkennist verkið af því sérstæða flæði sem skáldkonan hefur svo vel á valdi sínu, enda dóttir sjómanns eins og kemur fram í Völsunum.

Aldan sem hér er stigin er kynjaumræðan, en það þarf ekki að koma á óvart að #metoo umræðan er að skila sér inn í listaverk af miklum krafti. Titillinn Smáa letrið er leikur í þessa umræðu þar sem staða konunnar er ævinlega ‚smáa letrið‘, það sem er neðanmáls, baksviðs eða jafnvel með öllu falið eða þurrkað út. Smáa letrið vísar líka til vafasamra samninga, og tekur þar á sig annað form, en í smáa letrinu felast iðulega lykilupplýsingar sem skipta sköpum þegar kemur að því að uppfylla samningana. Ef þessi líking er tekin áfram þá mætti skoða titilinn sem líkingu fyrir þann ‚samning‘ sem ríkir milli kynjanna, þar sem konurnar eru faldar í smáa letrinu.

Linda byrjar á að skipa fram fylkingu kvenna :

 

í stað þess

að stilla okkur upp

á stallinum

 

köllum við saman

allar fjallkonur landsins

 

hó!

nú streymum við misvænar niður á völlinn

 

margar

með þunga snjóköggla á kviðnum

 

Svo stíga konurnar fram, í sögulegri röð, fyrst konur fortíðar, síðan þær frá síðustu öld og loks druslurnar, konur nútímans :

 

og þegar við höfum helgað okkur

hverja torfu á vellinum

stígum við fram

 

allar fjallkonur landsins

fullvalda og sjálfstæðar

 

Fjallkonan er auðvitað hið klassíska tákn Íslands, íslenskrar náttúru og Konunnar, hinnar fullkomnu og hreinu húsfreyju sem er alltumvefjandi – en jafnframt bundin í smáa letrið, falin baksviðs í eldhúsi eða þvottahúsi, en dregin fram á tyllidögum. Síðasta línan, „fullvalda og sjálfstæðar“, vísar til hundrað ára fullveldisársins – og gefur til kynna að fyrst nú, heilli öld síðar, séu konur að ná sínu fullveldi.

Stallurinn sem nefndur er í upphafi þessa fyrsta ljóðs vísar svo til annars ljóðabálks, síðar í bókinni en þar er karlinum gerð skil :

 

enn og aftur

er hann reistur upp úr haugnum

 

að frumkvæði genginna meðbræðra

að því er virðist

 

og settur á stall

meðal hinna valinkunnu

 

Þessi karl „veður fram eftir rauðum slóðanum // yfir hold blóð reiði / og skömm mæðra okkar og dætra“. Í næsta erindi „skilur“ hann „sitt skítuga hafurtask eftir / við valhallarinnganginn“. Hér er ekkert smátt letur, og skáldkonan fer engar grafgötur með það til hverskonar karla er vísað, né hvar þeir standa í pólitík. Það er auðvelt að finna hér merki umræðu sem kom upp í kringum síðustu ríkisstjórn og varð henni að falli.

 

Önnur ljóð bókarinnar eru persónulegri þar sem skáldkonan veltir fyrir sér stöðu sinni innan heims kvenna og kvenleikans :

 

sjaldan

eins rangstæð í eigin lífi

 

og þegar ég fletti kvennablöðunum

í hárgreiðslustólum og á tannlæknabiðstofum

 

Í kjölfarið veltir hún fyrir sér mótun kvenleikans og skoðar þann grímuleik sem hann er :

 

eftir

hálfrar aldrar

blóðuga baráttu

við að halda brothættri sjálfsmyndinni

innan viðurkenndra skekkjumarka

 

get ég staðhæft

að konur af minni tegund

eru enn sem fyrr óþekktar stærðir

 

Í næsta bálki kallast Linda á við aðra íslenska skáldkonu, Steinunni Sigurðardóttur, sem í ljóðabókinni Kúaskítur og norðurljós (1991) lýsti fjölbreyttum sjálfsmyndum í „Sjálfsmyndir á sýningu“. Ljóðið hefst á línunni „Sál mín var dvergur á dansstað í gær“, sem er tilvísun til smæðar, hvort sem er skáldkonunnar sjálfrar eða konunnar almennt. Í inngangi sínum að ljóðasafni Steinunnar, lýsir Guðni Elísson ljóðinu svo að „Flokkurinn [sé] sérkennileg portrettsýning, röð mynda þar sem sál ljóðmælandans er að finna í ýmsum venjulegum og óvenjulegum hlutverkum“ (Guðni Elísson, „Hef ég verið hér áður?“, í Ljóðasafn, 2004, vii).

Sjálfsmyndir Lindu eru ekki síður fjölbreyttar og hlutverkin bæði venjuleg og óvenjuleg : „stundum líður mér eins og síld í tunnu“ er upphafslínan og svo halda ‚portrettin‘ áfram :

 

eins og varphænu á ó vistvænu búi

/

eins og bilaðri neyðarlúgu í skolphreinsistöð

/

eins og fararstjóra í norðurljósarútunni

/

eins og gamalmenni á biðlista

/

eins og konu í ummönnunarstétt

 

Lokalínan dregur þetta saman : „alltaf / eins og stelpukrakka á bakaleið í myrkri“.

 

Síðustu ljóð bókarinnar eru í minningastíl, en þar heldur Linda áfram að tefla konum fram á völlinn, að þessu sinni sínum eigin konum: „ég sé móður mína / móður hennar og ömmur í anda // sé þær rísa upp / úr bælunum eða baðstofufletunum / / koma bognar í baki / út úr hreysunum sem kölluðust kot“. Þessar konur yfirgefa heimili sín, og „hoppa upp í frystihúsrútuna / ungar og grannar með skupluna bundna um hárið“. Þrátt fyrir þessa bjartsýnu byrjun minnir skáldkonan á stöðu formæðra sinna, „í kirkjubókum ættfræðiritum / og manntölum eru þær sagðar / tökubörn vinnukonur sjúklingar / húsfreyjur og ekkjur // dæmdar í óskráða ánauð / allar sem ein“. Næstu ljóð eru nær í tíma en þar lýsir ljóðmælandi ömmum sínum og mömmu og speglar þessar konur í eigin sjálfsmynd, sem endar í einskonar ‚sátt‘ :

 

eftir að ég komst yfir miðjan aldur hef ég hins

vegar oft óskað mér þess á vorin að eiga svolítinn

garðskika og ekki endilega uppkomin börn en

nokkur barnabörn samt til að reyta með mér arfa

og tína upp rusl svo gróðurinn megi dafna

 

Hér birtist auðvitað fjallkonan á ný, Konan sem tekur til og ræktar, en þessi kona er ekki ímynd tilbúin af (hátimbruðum) körlum, heldur þægileg og afslöppuð mynd konu sem finnst það sjálfsagður hluti af lífinu að hlú að umhverfi sínu og leyfa gróðrinum að dafna. Þessi kona er líka skáldkonan sem framar hafði minnt á „að ég hef skrifað þúsund / sinnum þúsund ljúfsár ljóð í huganum // til að sanna / það í eitt skipti fyrir öll / að ég sé nokkuð gott skáld“. Og hún helgar sér sinn skika í (víðfemum) garði ljóðsins og reytir þar arfa, tínir upp rusl og ræktar skáldskapinn.

 

 

úlfhildur dagsdóttir, 2018