Beint í efni

Slepptu mér aldrei

Slepptu mér aldrei
Höfundur
Kazuo Ishiguro
Útgefandi
Bjartur
Staður
Reykjavík
Ár
2005
Flokkur
Íslenskar þýðingar
Höfundur umfjöllunar
Gunnþórunn Guðmundsdóttir

Heimavistarskólar hafa löngum verið breskum höfundum uppspretta margvíslegra sagna. Þessir staðir fullnægja ýmsum þörfum sem sagan krefst, eins og að vera lokaður heimur með takmörkuð tengsl við umheiminn; barnabækur hafa nýtt sér að þarna eru börn sem byggja fyrst og fremst á samböndum við hvert annað og fullorðnir eru í afmörkuðu kennarahlutverki frekar en flóknu foreldrasambandi. Í barnabókum er það oftar en ekki öryggi þessa aflokaða heims sem er í forgrunni, þótt margar skáldsögur og kvikmyndir hafi að sjálfsögðu bent á ofbeldi og kaldan veruleika þessa heims.

Í höndum Kazuo Ishiguros í skáldsögunni Slepptu mér aldrei verður heimavistarskólinn að einhvers konar ýktri útgáfu af sjálfum sér, því hann er algjörlega lokaður frá umheiminum, mótunarhlutverk hans er algert og einnig hlutverk hans sem heimili. Í augum Harry Potters er Hogwarts skólinn öruggara og meira heillandi athvarf en heimilið, en börnin í Hailsham hafa ekki samanburð, heimilið er ekki fyrir hendi. Ishiguro segir í viðtali við Eirík Guðmundsson sem birtist í Lesbók Morgunblaðsins 29. október 2005 að heimavistarskólinn hafi verið uppspretta sögunnar fremur en líftæknin sem söguþráðurinn þó snýst um. Klónun er umræðuefnið hér, því börnin í Hailsham eru líffæragjafar, sem eiga ekki langa ævi fyrir höndum og við fylgjumst með þremur þeirra, Kathy, Ruth og Tommy. Sögumaðurinn Kathy rifjar upp ævi sína og bætist í hóp sérstæðra sögumanna Ishiguros sem oft eru í senn heillandi og fráhrindandi. Lesandinn er frá upphafi meðvitaður um að sögumaður hefur ekki alla þræði í hendi sér, vitneskja hennar er takmörkuð, sýn hennar á Hailsham heimavistarskólann er nánast þráhyggja og hugmyndir hennar um umheiminn sérkennilegar. Þetta sjónarhorn og átök þess við það sem lesandinn skynjar sem einhvers konar veruleika gera það að verkum að erfitt er að leggja bókina frá sér, því maður vonast stöðugt eftir einhverri lausn, einhverri skýringu á ‘umheiminum’ sem Kathy hvorki skilur né þekkir. En að auki sver sögumaður sig í ætt við sögumenn Ishiguros, eins og Stevens í Dreggjar dagsins og Banks í When We Were Orphans, hverra sýn er blinduð af sérkennilegum ranghugmyndum, eða kannski frekar fyrirframgefnum (og yfirleitt röngum) ályktunum sem gera persónurnar vanmáttugar og gerðir þeirra annað hvort tilgangslausar eða þær beinast í algjörlega ranga átt.

Bretar gera gjarnan grín að Norfolk og flestir brandararnir ganga út á að þar sé ekkert að sjá og ekkert við að vera – og er litið á þá sem sérvitringa sem heillast af flötu landslaginu, eins og W. G. Sebald heitinn gerði. Í Slepptu mér aldrei hafa börnin í Hailsham gert Norfolk að staðnum þangað sem týndir hlutir fara. Þetta er heillandi og hughreystandi hugmynd, því það merkir að hlutir týnast aldrei alveg, þeir eru bara komnir til Norfolk og það sama á þá líklega við um fortíðina alla saman – hana er alla að finna í Norfolk. Slepptu mér aldrei er að einhverju leyti bók um von og það er mjög í anda hennar að hið ‘eyðilega’ Norfolk sé birtingarmynd vonarinnar. Söguhetjurnar þrjár eiga sérkennilegt líf fyrir höndum og taki Hailsham á hugmyndum þeirra og lífi sleppir ekki, því þegar þau ‘útskrifast’ þaðan stækkar heimurinn varla nokkuð, hvað þá að hann opnist, hann skiptist einungis niður í aðrar lokaðar einingar. Það má segja að klónun og líftækni séu hér aðferð til að skoða dauðleikann og hvernig við bregðumst við honum og að því leyti er þetta elegískt verk, frekar en umræða eða greining á afleiðingum þessarar tækni. Þetta er líka sérlega áhrifamikil og jafnvel á stundum allt að því kaldranaleg hugleiðing um ást og von.

Slepptu mér aldrei var tilnefnd til Booker-verðlaunanna í ár, og þótti ákaflega sigurstrangleg og John Sutherland formaður dómnefndar í ár, hefur gefið í skyn að dómnefndin hafi verið klofin milli Ishiguros og höfuðstílista Íra, Johns Banville, sem hreppti hnossið. Eins og Ingi Björn Guðnason bendir á í umfjöllun sinni um James Meek hér á síðunni, er mjög ánægjulegt að fá svona fljótt útgefnar þýðingar á erlendum skáldverkum. Þýðingin er að mestu leyti mjög góð, á stöku stað mátti þó sjá sérkennilega orðaröð og nokkuð formlegt eða hátíðlegt orðalag notað þar sem enskan virkar hversdagslegri.

Gunnþórunn Guðmundsdóttir, nóvember 2005.