Beint í efni

Sjáðu! Haninn og þröngu gallabuxurnar og Appelsínuguli drekinn

Sjáðu! Haninn og þröngu gallabuxurnar og Appelsínuguli drekinn
Höfundur
Áslaug Jónsdóttir
Útgefandi
Mál og menning
Staður
Reykjavík
Ár
2020
Flokkur
Myndabækur
Sjáðu! Haninn og þröngu gallabuxurnar og Appelsínuguli drekinn
Höfundar
Útgefandi
Drápa
Staður
Reykjavík
Ár
2020
Flokkur
Myndabækur
Sjáðu! Haninn og þröngu gallabuxurnar og Appelsínuguli drekinn
Höfundur
Ólöf Vala Ingadóttir
Útgefandi
Sæmundur
Staður
Selfoss
Ár
Flokkur
Myndabækur
Höfundur umfjöllunar
María Bjarkadóttir

Óvenjuleg og svolítið furðuleg dýr koma við sögu í þeim þremur myndabókum fyrir börn sem hér verða teknar til umfjöllunar. Sögurnar eru allar ólíkar, meðal annars hvað varðar uppbyggingu og samspil mynda og texta, söguþráð og skilaboð til lesenda. Í Sjáðu! Myndavers fyrir börn eru myndir aðalatriðið og textinn til þess fallinn að vekja athygli á þeim, Haninn og þröngu gallabuxurnar er galsafengin frásögn af hana sem ákveður að fara sínar eigin leiðir og Appelsínuguli drekinn er saga í anda sígildra ævintýra þar sem ýmsum hefðum er snúið á hvolf og sagan tekur óvænta stefnu. Fyrri bækurnar tvær eru skrifaðar á bundnu máli, en textinn í þeim öllum gegnir afar ólíku hlutverki.

Sjáðu! Myndavers fyrir börn er nýútkomin myndabók eftir Áslaugu Jónsdóttur. Bókin er tilnefnd til Fjöruverðlauna 2021 en Áslaug er margverðlaunuð fyrir verk sín, meðal annars Skrímslabækurnar, sem orðnar eru níu talsins, myndabókina Gott kvöld og myndlýsingar í Bláa Hnettinum. Sjáðu! er bók fyrir yngstu börnin; hún er harðspjalda og myndirnar eru hér í aðalhlutverki. Á hverri opnu má sjá tvö ung börn leiðast brosandi og forvitin á svip um ólíkar sviðsmyndir sem sýna landslag bæði í sveit og borg, þar sem ýmsar skrítnar verur og óvænta hluti ber fyrir sjónir. Textinn er í bundnu máli og er kynntur sem „þulurugl“ í versi á fyrstu opnunni. Hann  er stuttur en hnitmiðaður og er bæði hljómfagur og áhugaverður. Engin sérstakur söguþráður er í sögunni, textinn gegnir því hlutverki að beina athyglinni að myndunum og því sem börnin tvö sjá hverju sinni.

Á myndunum er ýmislegt merkilegt og skrítið að finna og aðalatriðin á hverri opnu, hvort sem það eru hestur að leiða bílalest, hundur í kjól eða haförn með klærnar læstar um bleika handtösku, eru ekki bara kynnt í textanum heldur einnig lituð sterkum litum og þannig dregin fram í forgrunninn. Bakgrunnur og umhverfi eru aftur á móti oft teiknuð í daufari litum og stundum með óskýrum útlínum til að leggja enn meiri áherslu á það sem verið er að skoða. Myndirnar er fullar af leik og ímyndunaraflinu gefinn laus taumurinn, þær vekja undrun og áhuga og barnið sem hlustar getur leitað að hlutunum sem nefndir eru í þulunum og tekið þannig virkan þátt í lestrinum.


Tónninn í textanum er léttur og glaðlegur, og hann er auk þess einstaklega fallegur. Á næst-síðustu opnunni, er að finna eftirfarandi undurfögru ljóðlínur:

Sjáðu hrafn, sjáðu nótt

sofa ísbirnir rótt.

Sleppur draumur úr dós,

dimmir að, kvikna ljós.

Það er nokkuð algengt að bækur fyrir ung börn endi á þennan hátt, með því að degi tekur að halla, og gefa þannig vísbendingu um að sagan sé líka á enda. Myndin sem textinn lýsir magnar upp áhrifin. Þar má sjá svartan hrafn fljúga yfir myndina frá vinstri, með ljósaseríu í klónum. Hægra megin liggja þrír sofandi ísbirnir, birna með húnana sína tvo, öll með kórónur á höfði og yfir þeim ævintýrablær. Í bakgrunni má sjá stjörnubjartan himinn og upplýsta glugga. Litirnir sýna svo ekki verður um villst að rökkrið er að færa sig yfir og nóttin nálgast.

 

Haninn og þröngu gallabuxurnar er einnig skrifuð á bundnu máli en er að öðru leyti nokkuð ólík Sjáðu! Sagan kom fyrst út árið 2017 í Bandaríkjunum og er fyrsta bók höfundarins Jessie Miller, en Barbara Bakos sem teiknar myndirnar hefur áður myndskreytt fjölda barnabóka. Engin þeirra virðist þó hafa verið gefin út á íslensku. Sagan segir af hana nokkrum sem pantar sér gallabuxur á netinu og fær þær heimsendar með pósti. Þó að verslun á netinu hljómi kunnuglega í eyrum margra um þessar mundir eigum við kannski ekki því að venjast að hanar séu að panta sér föt. Það eiga dýrin í sveitinni ekki heldur og þó að haninn sjálfur sé alsæll með kaupin og buxurnar geggjaðar, finnst hinum dýrunum hann vera frekar skrítinn og kjánalegur. Haninn verður leiður yfir viðbrögðum dýranna og felur sig í hlöðunni, en eftir svolitla umhugsun áttar hann sig á því að það sem mestu máli skiptir er að hann sé sjálfur ánægður. Þegar hann snýr aftur, fullur sjálfstrausts, sjá hin dýrin að hann er bara frekar flottur í buxunum og alls ekki asnalegur eins og þeim fannst fyrst. Haninn sjálfur er svo ánægður með þessar glæsilegur buxur, og nýfundið sjálfstæði sitt gagnvart skoðunum annarra, að hann rýkur aftur inn og pantar sér gullslegið vesti í stíl.

 

Myndirnar staðsetja söguna í sveitinni og sýna umhverfið sem haninn lifir og hrærist í, landslag þar sem sjá má hænsnakofann, hlöðuna og að sjálfsögðu öll dýrin. Litirnir eru sterkir, rauðir, gulir, grænir og brúnir, bjartir náttúrulitir sem undirstrika umhverfið í sveitinni. Buxurnar sem haninn pantar sér skera sig hins vegar algerlega úr, bæði eru þær eru skínandi bláar með gullþræði og svo klæðast hanar jú yfirleitt ekki fötum. Buxurnar eru eins og þær séu úr allt öðrum heimi, framandi gripur sem dýrin botna ekkert í, en haninn er líka sjálfur frábrugðinn hinum dýrunum að mörgu leyti. Sérstaða hans birtist á skýran hátt í myndunum þar sem hann stendur yfirleitt einn andspænis hinum dýrunum, en þau standa aftur á móti alltaf öll saman í hóp. Á myndunum er þannig lögð áhersla á hversu einstakur og litríkur karakter haninn er og greinilegt að ánægjan geislar af honum þegar hann tekur upp pakkann með buxunum.

 

Textinn er rímaður og kallar á að vera lesinn upphátt með leikrænum tilþrifum og ákveðinni hrynjandi. Áhersluorð eru stækkuð og með flúraðri leturgerð sem fær þau til að standa út. Þýðingar á bundnu máli geta verið ansi snúnar, ekki síst þegar myndir fylgja textanum og þýðandinn getur ekki tekið sér skáldaleyfi frá þeim. Þýðingin hér er prýðileg og fangar vel andrúmsloft sögunnar, í nokkrum tilvikum er orðaröðin svolítið öfugsnúin en það hefur lítil áhrif á heildarupplifunina. Gleðin og glensið sem einkennir söguna kemst vel til skila og línurnar hér á eftir eru dæmi um einstaklega vel heppnaða lausn þar sem textinn rennur ljúflega áfram

“Getur það verið? Er hann kominn svo fljótt?”

undrandi hugsaði haninn,

“ég pantaði pakkann á mánudagsnótt --- og sendingin innifalin!” (önnur opna)

Þessar línur eru sérlega fyndnar og eflaust margir sem kannast við að bilast úr kæti eins og haninn, þegar pakki berst heim fyrr en var áætlað. Haninn og þröngu gallabuxurnar er stórskemmtileg bók fyrir bæði stóra og smáa. Þetta er bók sem er gaman að lesa upphátt, enda alveg jafn mikilvægt að skemmta þeim sem les og þeim sem hlustar.

 

Appelsínuguli drekinn er af allt öðrum toga en hinar tvær bækurnar. Textinn er fyrir það fyrsta ekki í bundnu máli, en hann er líka töluvert lengri og meiri áhersla á söguna sjálfa á meðan myndirnar gegna aðallega því hlutverki að styðja við textann. Sagan sækir innblástur til ævintýra, með drekum, prinsessu og konungshöll, en ýmislegt er þó líka ólíkt. Aðalpersóna sögunnar er dreki, sem heitir því einfalda og lýsandi nafni Appelsínuguli drekinn, enda segir sagan að drekar séu mikið gefnir fyrir lýsandi nöfn. Appelsínuguli drekinn og fleiri af hans kyni búa á saman eyjunni Drekalandi, þar sem þeir lifa allir saman í sátt og samlyndi. Drekarnir eru hvorki góðir né vondir en eiga það til að ræna prinsessum, eins og dreka er siður í ævintýrum.

 

Þegar sagan hefst er prinsessan Elín Maríanna, sem drekarnir kalla prinsessuna svipfríðu því hún er einmitt það, fangi þeirra á drekaeyjunni. Prinsessan er reyndar orðin ágæt vinkona þeirra og hjálpar þeim með ýmis smáverk. Dag nokkurn verður Appelsínuguli drekinn fyrir því óláni að lítill karl flytur inn í eyrað hans, en það er víst vandamál sem hrjáir marga dreka. Litli karlinn syngur mikið og er með læti og tekur ekkert tillit til þess hve miklu hugarangri það veldur drekanum að hann skuli hafa ákveðið að flytja inn í eyrað. Drekinn er algerlega miður sín en prinsessunni dettur ráð í hug. Hún leggur til að þau fari heim til foreldra hennar, hún fái frelsi og drekinn fái aðstoð frá kónginum og drottningunni, sem eru afskaplega ráðagóð og geta örugglega hjálpað.

 

Drekinn samþykkir en þegar komið er í höllina verða svo mikil veisluhöld og fagnaðarfundir að prinsessan steingleymir í fyrstu loforðinu um að hjálpa drekanum. Það er ekki fyrr en eldingu lýstur niður í kastalanum að þau muna eftir drekanum og loforði prinsessunnar og hefjast þá handa við að reyna að reka karlinn út. Eftir margar tilraunir, misfurðulegar og sársaukafullar fyrir drekann, gefast allir upp og þegar litli karlinn stingur upp á að þeir drekinn semji frið og gerist vinir ákveður hann að slá til. Þeir semja lög og reglur um hvernig hvor þeirra megi haga sér og eru á endanum báðir sáttir og sælir með sitt.  

 

Myndirnar eru ekki fallegar í hefðbundnum skilningi en það er eitthvað við þær sem fær mann til að vilja sökkva sér í þær og skoða betur. Þær eru samsettar úr smærri útklipptum myndum sem eru teiknaðar og litaðar með tússlitum, og límdar inn á stærri bakgrunnsmyndir, útlínur eru grófar og litun oft ójöfn. Í nokkrum tilfellum eru pallíettur límdar inn á myndirnar og úrklippur úr ljósmyndum, svo sem af fínlegri blúndu sem verður að dúk á veisluborði í konungshöllinni. Drekarnir eru sérlega litríkir og heillandi, sérstaklega þar sem þeir eru allir saman komnir við varðeld, allir ólíkir á litinn á svörtum bakgrunni sem dregur enn frekar fram litina. Appelsínuguli drekinn er frábrugðinn hinum og myndirnar leggja áherslu á það. Hann er með brodda sem eru ýmist útklipptar myndir af hringjum eða öðrum smágerðum gylltum eða silfruðum hlutum en þeir breytast á milli mynda. Á nokkrum myndum sést Appelsínuguli drekinn á flugi yfir hafi, myndirnar sýna vel frelsisþrá drekans og á mynd þar sem hann flýgur með prinsessuna á bakinu heim í höll foreldra hennar er nánast hægt að skynja hraðann úr svipbrigðum prinsessunnar, sem er mjög hrædd á svip.

 

Orðfæri í sögunnar er fjölbreytt og vandað, orð eins og ‚svipfríð‘ og ‚snakillur‘, sem notuð eru til að lýsa prinsessunni og skrítna karlinum hvoru um sig, eru dæmi um skemmtileg orð sem eru til þess fallin að auka við orðaforða lesandans. Persónusköpun sögunnar er athyglisverð, drekinn, prinsessan og skrítni karlinn eru öll marghliða, breyskar persónur sem eiga bæði sínar góðu og slæmu hliðar. Prinsessan vill vera vinkona drekans en gleymir honum um leið og hún er komin heim, drekinn er ógurlegur en bugast algerlega þegar karlinn flytur inn í eyrað hans og litli karlinn flytur einmitt óboðinn inn í eyra drekans og lætur öllum illum látum, en vill svo á endanum semja um frið svo allir geti verið ánægðir. Sagan er á köflum svolítið grótesk, sérstaklega þegar kemur að tilraunum til að ná karlinum úr eyra drekans, en þar er ýmsum mis geðfelldum aðferðum beitt, konunglegt hland kemur við sögu og gerir kónginn, sem á annars að vera frekar virðulegur, fremur hjákátlegan. Sagan er þannig bæði áhugaverð og sérstök, hún leiðir lesandann á óvæntar slóðir og sýnir á endanum að enginn er alslæmur.

 

Furðulegar verur og alls konar dýr í óvæntum aðstæðum, hani fullur nýfundins sjálfstrausts og dreki sem sættir sig við orðinn hlut og semur frið við sinn innri mann (í bókstaflegri merkingu) hafa komið við sögu í bókunum sem hér hefur verið fjallað um. Þessar ólíku sögur eru allar afar frumlegar á sinn hátt og vekja ekki bara athygli lesandans heldur gleði og undrun yfir því óvænta sem ber fyrir augu og eyru. Þær sýna svo ekki verður um villst að gróskan í myndabókaútgáfu fyrir börn er mikil um þessar mundir og enginn ætti að verða uppiskroppa með lesefni þessi jólin, vandinn er kannski helst að velja hvað á að lesa næst.

 

María Bjarkadóttir, desember 2020