Beint í efni

Öræfi

Öræfi
Höfundur
Ófeigur Sigurðsson
Útgefandi
Mál og menning
Staður
Reykjavík
Ár
2014
Flokkur
Skáldsögur
Höfundur umfjöllunar
Úlfhildur Dagsdóttir

Öræfi Ófeigs Sigurðssonar hlaut Íslensku bókmenntaverðlaunin fyrir síðasta ár en áður en verkið hafði einu sinni verið tilnefnt skapaðist í kringum það mikill spenningur, bókin fékk rífandi góða dóma og byrjaði að seljast – svo, að gaumlaus útgefandinn þurfti að hendast í endurprentun. Jafnframt varð skáldsagan nokkuð umtöluð, aðallega fyrir það hvað þetta kom allt á óvart. Minna bar á því að hún væri umdeild, almennt virtist lofið einróma. Útundan mér heyrði ég þó ýmsar raddir, það fylgir starfinu – eða störfunum. Ég var því við öllu búin þegar ég hóf lesturinn, enda ein af fáum sem hef lesið fleiri bækur eftir Ófeig (þó ekki allar). Í stuttu máli sagt fannst mér þetta ekki sérlega vel heppnað verk, hreinlega drepleiðinlegt á köflum og húmorinn þreytandi (ég kem að þessum atriðum síðar), ysti frásagnarramminn gengur ekki fyllilega upp og svo var ýmsilegt í heimildavinnunni sem truflaði mig – ekki síst þegar ég fann ‚villu‘. ‚Villan‘ var þó einmitt rétt, en segja má að þar hafi ofuráherslan á ‚réttar‘ heimildir þrengt sér inn í textann (austurrísk stúlka verður frönsk).

Allt um það, ekkert af þessu breytir því að verkið er nokkuð áhugavert, ekki síst þegar það er skoðað í ljósi fyrri bóka höfundar. En áður lengra er haldið er rétt að skoða aðeins ‚söguþráðinn‘. Öræfi er frásögn í mörgum lögum. Sá sem segir söguna er í raun viðtakandi langs bréfs, en það er ritað af ungum íslensk-austurrískum manni, Bernharði Fingurbjörg. Þó ekki alveg, því bréfið á uppruna sinn í skýrslu dýralæknisins Lassa, sem hefur Bernharð í sinni umsjá og skrifar upp eftir honum. En þar sem Lassi talar ekki þýsku þá notar hún túlk, auk þess sem læknirinn hefur mikinn áhuga á ýmsu grúski sem blandast inn í skýrsluna. Þess má geta að Bernharður talar ágæta íslensku en honum reynist almennt erfitt að koma íslendingum í skilning um það og því er mikil áhersla á þýðingar og túlkanir. Það eru því ansi margir sem koma að frásögninni og ekki með öllu óeðlilegt að hún sé fjölskrúðug mjög. Þetta er eitt af því sem gerir söguna hvað skemmtilegasta, og minnir svolítið á titilinn á sögu Braga Ólafssonar, Handritið að kvikmynd Arnar Featherby og Jóns Magnússonar um uppnámið á veitingahúsinu eftir Jenný Alexson (2010), en þar er einmitt nokkuð um sögur innaní sögum. Rússneski bókmenntafræðingurinn Mikaíl Bakhtin talaði um að skáldsögur væru margradda, öfugt við epískan skáldskap, þar tækjust á margar raddir og ekki endilega allar samróma. Einmitt þannig tilfinning skapast af hinum mörgu frásagnarröddum Öræfa, lesandi er aldrei alveg viss hvar hún er stödd, né er gott að átta sig á því hvað sá sem talar er að segja. Utan um þetta allt er svo einn ramminn enn, sem ekki má gefa upp, því það skemmir. Þó sá rammi sé í raun ákaflega smart, þá gengur hann ekki fyllilega upp, eins og áður segir.

Bernharður þessi hefur frá unga aldri ást á Íslandi og norðurslóðaferðum almennt og stór hluti verksins fjallar um slíkar, með tilheyrandi lýsingum á landi og þjóð, farangri, bóklestri og náttúrufræði. Megináherslan er á Öræfum, eins og titillinn gefur til kynna, og er Öræfasveit lýst eins og landi í landinu, íbúunum sem sérstökum þjóðflokki – sérstökum í tvöfaldri merkingu, bæði afmörkuðum og sér á parti, og sérstökum hvað varðar sérlund og óvenjulegheit.

Bókin hefst á því að Bernharður hefur fundist á jökli, illa skaddaður eftir fall í sprungu. Lassi héraðsdýralæknir bregst snarlega við og aflimar hann til að koma í veg fyrir blóðeitrun og geldir í leiðinni, en skaðinn er í lærinu. Lassi þessi er „boldangskvenmaður í þykkum vaxfrakka með herðaslá“ og klæðist „háum leðurstígvélum og með flöskugrænan flókahatt á höfði“ (10). Að auki er hún lesbísk. Lassi er lessa. Seinna fáum við að vita meira um forsögu Bernharðs, móðir hans heimsótti Ísland og varð þar fyrir alvarlegu áfalli, faðir hans er íslenskur og uppeldið sérstætt – eins og gengur og gerist með skáldsagnapersónur. Þegar hann kemur til landsins, í fylgd með gríðarstórri bókakistu, lendir honum saman við Gest nokkurn sem þekkir vel til Öræfa og leiðir útlendinginn í allan sannleika um svæðið – fer með hann í fornbókaverslun (Bókina) og síðan á bar (Sirkus – þetta á að gerast 2003, í miðju gróðæri en fyrir alla kreppu), en þar hittir hann einmitt viðtakanda bréfsins. Það er þessi millikafli sem flestum reynist erfiður, því Gestur, sem er uppnefndur Fastagestur, er ákaflega ræðinn, að ekki sé meira sagt.

Hér ætla ég að staldra við. Í fyrsta lagi grunar mig sterklega að þessum hluta sé beinlínis ætlað að taka á taugarnar, en ákveðin vísbending felst í uppnefninu ‚fastagestur‘. Áfengi og þaulsetur á bar eru viðfangsefnið hér og allir þekkja fulla fastagesti sem kunna nöfn þjónanna og bregða sér bakvið barinn. Þetta er fólk sem virðist lifa fyrir það að koma höndum yfir saklausa fáséða gesti og ausa úr viskubrunnum sínum yfir þá. Hér er því komið dæmi um eitthvað sem beinlínis á að reyna á þolrifin og er því að einhverju leyti kómískt, mitt í því hvað það er óþolandi. Einnig gat ég ekki annað en velt fyrir mér hvort Gestur þessi væri einskonar Óðinn (en Gestur er eitt af nöfnum Óðins þegar hann er á flakki og ferðalagi), enda er Sirkus lýst sem goðsögulegum stað. Og Óðinn blessaður átti það einmitt til að segja fólki sögur, sem hafa ábyggilega getað tekið á taugarnar.

Annað dæmi um svona húmor gæti einmitt verið Lassi lessa, sem mér fannst ótrúlega hallærislegt til að byrja með, en þegar ég fór að skoða söguna í heild, og með hliðsjón af öðrum verkum Ófeigs, þá get ég vel ímyndað mér að þarna sé á ferðinni samskonar snúningur með íslenska fyndni.

Það er því af ýmsu að taka þegar skoða á söguna og kannski er það þessi gnótt sem hefur heillað lesendur og gagnrýnendur svo mjög. Einnig er sagan skrifuð beint inn í þann atvinnuveg sem nú er að yfirtaka land og þjóð: ferðaþjónustuna. Á sinn hátt má lesa söguna sem framlag til ‚inspired by Iceland‘ auglýsingaherferðarinnar. Einn lesandi taldi til dæmis að bókin væru fyrst og fremst skrifuð fyrir útlendinga og ætluð í útflutning. Því samhliða auknum vinsældum Íslands sem áfangastaðar hefur íslenskum bókmenntum vaxið fiskur um hrygg erlendis.

Ég held að það geti vel verið ýmislegt til í þessu, en þó ekki á neinn einfaldan hátt, því eins og fram hefur komið er bókin ákaflega kómísk og húmorinn margræður, enda miðlað í gegnum margar raddir. Öræfi er að mínu mati fyrst og fremst áhugaverð fyrir að taka einmitt fyrir þessa ímynd Íslands sem land sérvisku, álfa og ævintýraferða; vissulega staðfesta hana að einhverju leyti, en einnig að leika sér með hana, velta henni á ýmsar hliðar, blása upp og jafnvel sprengja. Og það er ekki síst í ljósi fyrri verka sem þessi lestur virðist nærtækur.

Árið 2010 vakti Ófeigur nokkra athygli fyrir skáldsögu með ákaflega langan titil: Skáldsaga um Jón & hans rituðu bréf til barnshafandi konu sinnar þá hann dvaldi í helli yfir vetur & undirbjó komu hennar & nýrra tíma. Sagan gerist á Suðurlandi um árið 1755, en einmitt þá er Kötlugos í fullum gangi, með tilheyrandi hamförum, jarðskjálftum, öskufalli og upphlaupi. Sá Jón sem nefndur er í titlinum er eldklerkurinn Jón Steingrímsson, sem hér er ungur að árum. Einkenni verksins var áhrifamikil beiting tungumálsins á náttúruhamfararnar, en að öðru leyti var sagan ekki burðug. Í Landvættum frá 2012 var minna um náttúru og meira um borgarlíf í bland við goðsagnir, en sú saga er einskonar heimsendaverk sem tekur meðal annars til gróðærisins og kreppunnar. Þar er Ófeigur enn að skoða ímynd íslands, þjóðlegan menningararf og ýmislegt tengt því – meðal annars eru þarna áhrifamiklar lýsingar á kjötvinnslufyrirtæki. Það er margt forvitnilegt í Landvættum en verkið líður mjög fyrir óhóflega lengd.

Á vissan hátt er Öræfi einskonar framhald af þessum tveimur bókum, en þarna slær saman mögnuðum og ævintýralegum náttúrulýsingum við ákveðna stúdíu á ímynd Íslands, allt frá þjóðháttum til nútímaklisja (sem á stundum falla saumlaust saman). Út úr þessu kemur áhugaverð nálgun á ímyndasköpun Íslands. Ímynd Íslands hefur löngum verið nokkuð skrautleg, en eins og kom fram í eftirminnilegri sýningu undir stjórn listamannsins Einars Garibalda, Flogið yfir Heklu (Kjarvalsstaðir 2001) mótaðist hugmyndin um Ísland lengi vel af þeirri hugmynd að Hekla væri inngangur helvítis. Í ferðabókum útlendinga birtust ýmsar furðumyndir af Íslendingum (þó ekki eins fjarstæðar og Framsóknarmanna um Evrópusambandið), en Íslendingar létu ekki sitt eftir liggja þegar kom að eigin skrifum um þjóðhætti og náttúru. Undanfarna áratugi hafa kvikmyndir og tónlist tekið við keflinu, en margar Íslenskar kvikmyndir innihalda náttúrusenur sem minna meira á auglýsingar en kvikmyndagerð. Björk Guðmundsdóttir var strax tengd við íslensk náttúruundur og Sigur Rós sigldi hamingjusamlega í því kjölfari. Nú síðast hafa Of Monsters and Men tekið við keflinu. Það er því ljóst að ímyndasköpunin er ekki einfalt mál, og það þær ímyndir sem útlendingar hafa gert sér af Íslandi hafa áhrif á sjálfsmynd Íslendinga, auk þess sem ímyndasköpunin fyrir ferðaþjónustuna skilar sér að einhverju leyti til baka á heimamenn – lopapeysuæðið er líklega eitt augljósasta dæmið um þetta.

Í ljósi þessa er Öræfi bæði forvitnilegt og athyglisvert verk, ekki síst fyrir það að hafna einföldum lestri og lausnum. Beiting húmorsins – í bland við séríslenska fyndni – skiptir miklu máli, og margröddunin er gerð bókstafleg í flókinni framsetningu frásögunnar.

úlfhildur dagsdóttir, júlí 2015