Beint í efni

Kvæði 03

Kvæði 03
Höfundur
Kristján Karlsson
Útgefandi
Hið íslenska biblíufélag
Staður
Reykjavík
Ár
2003
Flokkur
Ljóð
Höfundur umfjöllunar
Úlfhildur Dagsdóttir

Í lok bókarinnar Kvæði 03 eftir Kristján Karlson birtist "Athugasemd höfundar" en þar lýsir skáldið því hvernig hann hefur sett bókina saman eins og ljóðaflokk og númerað og nefnt 8/34 (ath brot, 34 hækkað með striki undir). Þrátt fyrir þetta er ekki um eiginlegan flokk ljóða að ræða, heldur fremur þörf fyrir að losna við titla og fyrirsagnir sem höfundur telur "skrauthúfulegar eða aðþrengjandi". Talan 8/34 er því annarsvega heil tala og hinsvegar brot, "sem í mínum augum er góð ímynd kvæðis en ekki lýsing þess né skýring, frekar en skírnarnafn sem segir kannski eitthvað um foreldrana en ekkert um barnið."

Þessi ímynd ljóðsins sem heil tala og brot er bæði heillandi og frelsandi, annars vegar er hvert ljóð heil tala og hinsvegar er ljóðið náttúrulega form brotsins, enda "nær kvæðið réttu brothljóði", "síðsumars þegar tært kulið/leysir upp söng fugla", eins og segir í lokaljóðinu, XXVI.

Upphafsljóðið lýsir að sama skapi broti:

Meðan við héldum að vissir
menn væru ódauðlegir á jörðu
sumir staðir óumbreytanlegir,
hafið glampi hreyfing og hljóð
heiðríkjan bústaður gyðja ofar
skýjum, vórum við sjálf eilíf:
börn: glampar hreyfingar hljóð

Þannig er manneskjunni lýst sem brotum, glömpum, hreyfingu og hljóðum, líkt og mannsævin er ekki annað en brot af tímanum. Tíminn er það tákn sem ríkir í bókinni, mögulega samhengið í 'ljóðabálknum': "tilfinning fyrir eyðingarverki tímans, á mælikvarða mannsævi og viðbrögð manns við þeim, eftir gerð kvæðanna, hvers fyrir sig." Aldurinn er því skáldinu ofarlega í huga og á stundum ávarpar ljóðmælandi sig sem gamlan mann. Í ljóði XI fyllir frelsið hann svima, "Eða aldurinn: byrjandi aðkenning ellinnar taumlausa frelsis?" Hér er á ferðinni dálítið skemmtilega sláandi hugmynd um elli sem dálítið valta á fótunum, svimandi og umfram allt frjálsa. Síðar í bókinni, í ljóði XXIV, sést jarpur hestur ranka við "í fjallshlíð handan fljóts", "þú kallar/á hann en hvert viltu/fara gamli maður?" Réttmæt spurning, því hesturinn sést í draumsýn og er að auki þekkt skáldskapartákn dauðans. Annar hestur birtist okkur í III, en þar veltir ljóðmælandi því fyrir sér að kjarni lífsins sé ef til vill jafn óljós, hann man bjartari jaðra "en grásprengd rithönd vindsins leggst oní miðjar hlíðar". Við sjáum fyrir okkur hvítt fjúkið sem er "eins og krot eftir alþjóðleg guðlaus/börn: einungis trúaðar þjóðir og smáþjóðir/skrifa vel?" Þannig tekur myndmálið á sig eitt augnablik sjálfstætt líf í stuttri hugleiðingu. En "úti í nesi handan vogar//stendur leirljós hestur", ekki fyllilega raunverulegur frekar en hinn, en þó snúa hófar hans rétt "sem er góðs viti", því ef þeir sneru öfugt væri hann nykur og færi með ljóðmælanda beint út á vatn og hyrfi þar. Og ljóðmælandi finnur að hann verður að sjá til hans, annars verður honum órótt, "nú,/um leið og þekking mín fer minnkandi."

Þannig eru ljóð sem í fyrstu virðast dálítið háfleyg og fjarlæg full af leik, jafnframt því að vera alvörugefnar hugleiðingar um tíma og mannsævina.

Mannsævin er táknuð í hafinu, í II sem ber einskonar yfirskrift: "Héðinshöfðasandur". Þar gengur ljóðmælandi eftir strönd og hlustar á "hella við sjó sem þegja ekki/í logni". "Laskaður máfur" fylgir honum eftir og öðru megin "hrynur hafið í sandinn". Ljóðmælandi hlustar enn á eitthvað annað en hafið "rekafjöl: langspil úr draumi" og ávarpar máfinn, "bráðum máfur verðum við að greikka/sporið." Hér dregur Kristján upp magnaða mynd hljóða og sýnar, vegferð mannsins eftir svartri ströndinni (ég sé fyrir mér íslenska strönd), hvítur máfurinn haltur á eftir og svo hvín allt í kring og í minningum mannsins. Heil tala og brot.

Úlfhildur Dagsdóttir, desember 2003