Beint í efni

Kötturinn sem átti milljón líf, Hvíti björninn og litli maurinn, Systkinabókin

Kötturinn sem átti milljón líf, Hvíti björninn og litli maurinn, Systkinabókin
Höfundur
Yoko Sano
Útgefandi
Ugla
Staður
Reykjavík
Ár
2020
Flokkur
Barnabækur
Kötturinn sem átti milljón líf, Hvíti björninn og litli maurinn, Systkinabókin
Höfundar
José Federico Barcelona,
 Sólrún Ylfa Ingimarsdóttir
Útgefandi
Salka
Staður
Reykjavík
Ár
2020
Flokkur
Barnabækur
Kötturinn sem átti milljón líf, Hvíti björninn og litli maurinn, Systkinabókin
Höfundar
Jóna Valborg Árnadóttir,
 Elsa Nielsen
Útgefandi
Mál og menning
Staður
Reykjavík
Ár
2020
Flokkur
Barnabækur
Höfundur umfjöllunar
María Bjarkadóttir

Útgáfa myndabóka fyrir börn er afar fjölbreytt í ár, bæði þegar um er að ræða frumsamin íslensk verk og þýðingar á erlendum bókum. Hér verða skoðaðar þrjár nýútkomnar myndabækur, tvær þar sem dýr eru í aðalhlutverki og svo systkinasaga, þar sem aðalpersónan eignast lítinn bróður og þarf að takast á við ýmsar breytingar sem því fylgja.

Sögur þar sem dýr leika helstu hlutverk og taka á sig mannlega eiginleika eru algengar þegar um er að ræða myndabækur fyrir börn og kettir hafa lengi verið sérlega vinsælir í því samhengi. Kötturinn sem átti milljón líf eftir Yoko Sano er sígild japönsk saga sem segir eins og titillinn gefur til kynna frá ketti, sem á ekki níu líf eins og við eigum að venjast, heldur lifir og deyr milljón sinnum. Bókin hefur skírskotun til Búddisma og hefur notið mikilla vinsælda bæði í heimalandinu og víðar síðan hún kom fyrst út í Japan árið 1977. Sagan er ætluð börnum en á alveg jafnt erindi við fullorðna.

Kötturinn í sögunni er bröndóttur og einstaklega glæsilegur. Hann er mjög hrifinn af sjálfum sér en glímir við það leiðindavandamál að vera endalaust að deyja og endurfæðast. Alltaf er hann jafn óánægður með eigendur sína, sem elska köttinn hins vegar hver um sig óendanlega mikið og gráta óskaplega þegar hann deyr. Kettinum er alveg sama um það en að lokum fæðist hann sem villiköttur og á sig þá sjálfur. Aldrei hefur hann verið jafn ánægður með tilveruna enda ber hann af öðrum köttum og allir líta upp til hans, dýrka hann og dá. Kötturinn er montinn og góður með sig en eini kötturinn sem sýnir honum lítinn áhuga er falleg, hvít kisa sem bröndótti kötturinn reynir eftir fremsta megni að sannfæra um eigið ágæti. Þegar hún lætur sér fátt um finnast gefst hann upp og biður um leyfi til að fá að vera hjá henni. Þau eiga saman gott líf og eignast marga sæta kettlinga, en þegar hvíta kisan deyr áttar bröndótti kötturinn sig á því að hann elskar hana meira en sjálfan sig. Hann syrgir hana af mikilli innlifun, deyr svo að lokum sjálfur og fæðist aldrei aftur.

Frásögnin er byggð upp af endurtekningum þar sem hvert líf kattarins rekur annað; hann er köttur konungs, sjómanns, sirkusköttur, köttur þjófs, gamallar konu og lítillar stúlku áður en hann verður villiköttur. Lýsingar á þessum ólíku lífum hans eru áhugaverðar og stundum furðulegar, sömuleiðis mismunandi dauðdagi sem kötturinn hlýtur. Textinn er hnitmiðaður og ekki skafið utan af neinu, en myndirnar bæta ýmsu við og gefa aukna innsýn í líf kattarins hverju sinni. Myndirnar eru vatnslitaðar og útlínurnar eru svolítið óskýrar og renna stundum aðeins til. Þetta gefur sögunni ákveðna mýkt sem myndar svo áhugaverða andstöðu við textann þar sem vanþakklæti kattarins og áhugaleysi er gegnumgangandi framanaf. Kötturinn sjálfur er svo sannarlega stórglæsilegur og setur mark sitt á myndirnar með kostulegum svipbrigðum þar sem tilfinningar hans eru afar ljósar, hvort sem honum leiðist þegar eigendur hans fara í taugarnar á honum eða geiflar sig þegar hann leyfir öðrum villiköttum að dást að sér. Sömuleiðis má lesa ást hans á hvítu kisunni og kettlingunum út úr fallegri mynd af þeim öllum saman undir lok bókarinnar.

Sagan er nokkuð myrk á köflum, mismunandi dauðdagar kattarins eru sumir hverjir svolítið hrikalegir en þrátt fyrir það vekur hún frekar forvitni og áhuga en hrylling. Hún kallar á alls konar spurningar um líf kattarins, hvers vegna hann elskar bara sjálfan sig, um sætu kettlingana og dauða hvítu kisunnar, og gefur tækifæri til ýmissa umræðna.

Í Hvíti björninn og litli maurinn eru annars konar dýr í aðalhlutverki og sagan er töluvert frábrugðin þeirri um köttinn bröndótta. Hvítur björn býr sig undir að leggjast í hýði yfir veturinn, enda er orðið kalt og vindasamt úti. Á sama tíma er lítill maur að villast um í vonda veðrinu og ratar í helli hvíta bjarnarins einmitt um það leyti sem björninn er að festa svefn. Maurinn ákveður að koma sér fyrir í mjúkum og hlýjum feldi milli tánna á birninum en í stað þess að fara að sofa bítur hann björninn sem hrekkur við og vaknar. Björninn sér ekki hver beit hann og sofnar á endanum aftur. Maurinn færir sig þá ofar og endurtekur leikinn, bítur björninn fyrst í hnésbótina, svo á magann, næst olnbogabótina og svo á bakvið eyrað. Í hvert sinn sem maurinn bítur hann vaknar hvíti björninn sífellt reiðari en sér ekki litla maurinn. Ekki fyrr en maurinn klifrar upp á nef bjarnarins og hann vaknar með hnerra. Maurinn útskýrir þá fyrir hvíta birninum að hann langi til að leika og björninn tekur vel í það þrátt fyrir að vera nú allur útbitinn. Þessir ólíku félagar leika sér saman í góða stund, þangað til þeir þreytast, ákveða að leggjast báðir til svefns og maurinn fær að sofa í feldi hvíta bjarnarins.

Líkt og frásögnin af bröndótta kettinum er sagan byggð upp á endurtekningum þó þær séu reyndar enn meira áberandi hér, þar sem bæði texti og myndir eru endurtekin í gegnum söguna með smávægilegum breytingum. Áheyrandinn, sem veit við hverju hann á að búast, getur tekið þátt í frásögninni og jafnvel sagt söguna með þeim sem les. Auk þess verður ákveðin stígandi í sögunni eftir því sem maurinn færir sig ofar á birninum og spennan eykst fyrir viðbrögðum bjarnarins, þegar hann áttar sig loksins á því hver er að bíta hann. Myndirnar undirstrika endurtekninguna á ýmsan hátt, svo sem með mismunandi myndum af maurnum þar sem hann er við það að bíta ísbjörninn, með risatennur og brjálæðislegan glampa í augunum, og svo á móti með myndum af hvíta birninum sem er alltaf að reyna að leggja sig og verður sífellt meira pirraður yfir þessum truflunum. Hvíti björninn er auk þess undir lok sögunnar kominn með þessa fínu plástra á öll bitin, sem áheyrandi getur skoðað og talið á meðan sagan er lesin.

Dýrin tvö í sögunni eiga fátt sameiginlegt og það er einmitt mergurinn málsins, hvíti björninn er risa stór og maurinn pínulítill, björninn hvítur og maurinn svartur og svo framvegis. Myndirnar sýna andstæðurnar glögglega en þær verða sérstaklega áberandi þegar björninn samþykkir að leika við maurinn. Textinn lýsir leiknum ekki beint en heil opna af þeim félögum sýnir þá spila, syngja og hafa gaman. Má meðal annars sjá björninn fela sig á bakvið hægindastól, sem er töluvert minni en hann sjálfur og maurinn halda á spilum úr spilastokk sem virka risavaxin því maurinn er svo lítill. Þó þeir séu svona ólíkir ná þeir samt að skemmta sér stórvel saman, því auðvitað geta vinir verið alls konar.

Sagan er nokkuð óvenjuleg að því leyti að hún er skrifuð niður eftir munnlegri frásögn höfundarins José Federico Barcelona og þýdd á íslensku, en í ávarpi frá höfundinum aftast í bókinni kemur fram að hann starfi á leikskóla og hafi notað söguna í kennslu þar. Hann setur auk þess fram ýmsar tillögur og hugmyndir að notkun bókarinnar við kennslu ungra barna, leggur til umræðuefni og aðferðir við upplestur hennar.

Í bókunum um Sólu er reynsluheimur barna skoðaður með augum Sólu, sem hefur afar frjótt ímyndunarafl. Systkinabókin er fimmta bókin sem kemur út í þessari syrpu en fyrir hafa komið út Brosbókin, Knúsbókin, Vinabókin og Hetjubókin. Nú er Sóla búin að eignast lítinn bróður og eins og hún var búin að hlakka mikið til þá er það bara ekkert skemmtilegt. Allt í einu má ekki hafa hátt eða hlæja, hlaupa inni eða klappa saman lófunum, því þá getur litli bróðir vaknað og Sóla sem hélt að hún gæti leikið við bróðurinn þegar hann fæddist finnst hann gera lítið annað en að gráta.

Hún ákveður að athuga hvort hún geti ekki skilað honum eitthvert en þar sem hún veit ekki alveg hvar hann var áður en hann fæddist ætlar hún að reyna að koma honum fyrir á einhverjum hentugum stað. Eftir svolitlar vangaveltur endar hún á að fara með hann í vagninum til konu sem hún kallar konuna með eplin, sem tekur þeim systkinum afar vel. Þegar Sóla býr sig undir að afhenda henni bróðurinn gerist hins vegar svolítið alveg óvænt. Litli bróðir tekur sig til og skellihlær að Sólu þegar hún hnerrar og allt í einu sér hún að hann er kannski ekki alveg eins slæmur og hún hélt. Í kjölfarið ákveður hún að halda litla bróður og fer með hann aftur heim. Þegar hann verður aðeins eldri geta þau leikið sér saman og þó hann sé reyndar svolítið óþægur áttar Sóla sig á því að þau geti alveg verið vinir.

Myndirnar í Sólubókunum eru teiknaðar og í nokkuð einföldum stíl, þar sem útlínur eru skýrar og litirnir í þægilegum, mildum tónum. Inn á þær er svo bætt úrklippum af ýmsum smáatriðum sem gæða söguna lífi og kalla á athygli lesandans. Hárið á mömmu Sólu er dæmi um slíkt en hún er með ótrúlega fallegt, krullað, brúnt hár sem gæti verið klippt út úr sjampóauglýsingu. Þegar rýnt er í myndirnar má líka sjá litla hluti eins og úrklippur af eplum og bláberjum hjá konunni með eplin og ýmislegt fleira smálegt. Á hverri opnu er auk þess lítil úrklippa af kórónu sem verður skemmtilegur leikur að finna, stundum blasir hún við en stundum má sjá hana á ólíklegustu stöðum sem vekja kátínu þess sem leitar að henni.

Ýmislegt kemur fram á myndunum sem ekki er sagt í textanum. Dæmi um slíkt eru lögreglubílarnir sem bíða í bakgrunninum þegar Sóla snýr aftur með litla bróður og gefa til kynna að foreldrarnir hafi verið búnir að ræsa út leitarflokk þó það komi ekki fram berum orðum. Myndirnar af konunni með eplin, sem Sóla ákveður að gefa litla bróður sinn, eru annað slíkt dæmi. Þegar þau systkinin koma að húsinu hennar er hún með nornarhatt og langt nef með vörtu, og þó hún sé fremur góðleg að sjá er augljóst að í huga Sólu er hún svolítið nornaleg. Þegar Sóla hefur tekið ákvörðun um að halda bróður sínum, því hann sé eftir allt saman alveg ágætur, er nefið á konunni hins vegar orðið venjulegt, lítið og pent og vartan horfin. Jákvæðara viðhorf Sólu til litla bróður og í raun alls annars líka, endurspeglast þannig í myndunum.

Þó að sögurnar séu eins og má sjá nokkuð ólíkar eiga þær það allar sameiginlegt að fjalla um samkennd og mikilvægi þess að hugsa ekki bara um sjálfan sig og eigin velferð. Sögurnar af kettinum og hvíta birninum má líta á sem dæmisögur, sem er nokkuð algengt stílbragð þegar dýr eru í aðalhlutverkum. Slíkar sögur gegna oft því hlutverki að koma á framfæri ákveðnum boðskap og það líka er tilfellið hér. Kötturinn lærir að elska einhvern annan en sjálfan sig og losnar þannig við að endurfæðast enn eina ferðina og ísbjörninn ákveður að deila hýði sínu með litla maurnum og fær þá að sofa í ró og næði auk þess sem hann eignast vin. Sagan af Sólu lýsir aftur aðstæðum sem mörg börn upplifa þegar lítið systkini bætist við fjölskylduna. Upphaflega fóru hugmyndir Sólu og veruleikinn ekki alveg saman en á endanum er hún þó orðin alveg sátt, enda búin að hafa tíma til að sjá björtu hliðarnar og hugsa málið.

Til viðbótar við þessar þrjár bækur er ekki hægt að láta hjá líða að minnast á endurútgáfu á hinni stórmerkilegu Allt í plati eftir Sigrúnu Eldjárn, en bókin er fyrsta bók Sigrúnar og kom upphaflega út árið 1980. Í sögunni hitta aðalpersónurnar Eyvindur og Halla fyrir krókófílinn Sigvalda, furðuveru sem býr í holræsum Reykjavíkur og sem leiðir þau um borgina í ótrúlegustu ævintýri. Sagan á sérstakan sess í hjörtum margra þeirra sem fædd eru á áttunda og níunda áratugnum og einkennisstíll Sigrúnar er þá þegar greinilegur. Eyvindur og Halla eru að sjálfsögðu í converse skóm og myndirnar þar sem heimarnir ofan jarðar og neðan mætast, af ljósastaurum með rótum sem ná niður til krókófílanna, eru sérlega eftirminnilegar. Vonandi verður framhald á og fleiri bækur Sigrúnar endurútgefnar; Eins og í sögu liggur næst við og svo Langafa-bækurnar Langafi drullumallar og Langafi prakkari sem voru reyndar endurútgefnar saman í einni bók árið 2007, en mætti alveg endurprenta, enda kominn tími til að næstu kynslóðir fái að lesa fleiri af þessum sígildu barnabókum.
 

María Bjarkadóttir, desember 2020