Beint í efni

Kamilla vindmylla og leiðinn úr Esjunni

Kamilla vindmylla og leiðinn úr Esjunni
Höfundur
Hilmar Örn Óskarsson
Útgefandi
Bókabeitan
Staður
Reykjavík
Ár
2013
Flokkur
Barnabækur
Höfundur umfjöllunar
María Bjarkadóttir

Í Esjunni búa ekki lengur jólasveinar. Og ekki heldur álfar eða tröll. Þangað er fluttur Júlíus Janus, brjálaður vísindamaður sem hefur andstyggð á gleði og elskar leiðindi svo mikið að hann myndi brosa og hlæja að þeim ef það væri honum ekki þvert um geð. Takmark hans er að soga hamingjuna úr öllum svo þeir verði jafn fúlir og hann sjálfur. Svo væri flott ef hann gæti í leiðinni fengið inngöngu í Óþokkaregluna.

Kamilla vindmylla og leiðinn úr Esjunni (já, leiðinn með tveimur n-um) er önnur bókin eftir Hilmar Örn Óskarsson um Kamillu og vini hennar, þau Jakob, Kötlu, Anton og Felix. Í síðustu bók smíðaði brjálaði vísindamaðurinn Elías hugbreytandi sendi sem hann beindi að fullorðnu fólki til að breyta hugsunum þeirra. Fullorðnir urðu að börnum á ný og Kamilla og vinir hennar áttuðu sig fljótlega á því að eitthvað þyrfti að gera til að stöðva Elías. Í lok sögunnar tekst mikil vinátta með krökkunum og Elíasi og Kamilla vindmylla og leiðinn úr Esjunni hefst þar sem Kamilla er á leið heim eftir sumarfrí hjá pabba sínum í Noregi og bíður eftir að hitta vini sína og Elías í hústalanum hans (hús+kastali=hústali). Mikið fjör er hjá Elíasi enda ýmsilegt merkilegt í gangi en hann og krakkarnir vinna hörðum höndum að skipulagningu skemmtigarðs sem þau ætla að byggja í sameiningu.

Ekki eru þó allir jafn hressir og krakkarnir og eftir þónokkrar njósnir ákveður fúli vísindamaðurinn Júlíus Janus að brjótast inn til Elíasar og stela teikningum að hugbreytandi sendinum.  Í kjölfar innbrotsins fara vélar og tæki að haga sér undarlega, svo ekki sé minnst á fólk, og allt í einu virðast allir vera að fara yfirum af geðvonsku og fýlu. Ekki líður á löngu þar til krakkarnir komast að því að það var illfyglið Júlíus Janus, erkióvinur Elíasar, sem stal upplýsingunum um hugbreytandi sendinn og hefur nú smíðað sinn eigin sem hann notar til að gera alla eins fúla og hægt er. Krakkarnir og Elías þurfa að taka höndum saman og sigrast á þessum nýja óþokka en þá er Antoni rænt. Og svo eru allir að farast úr fýlu.

Frásögnin af Kamillu og félögum hennar er nokkuð hröð og skemmtileg, áherslan er fremur á framvindu en persónusköpun, en það kemur ekki að sök og minnti þennan lesanda í það minnsta hreinlega svolítið á góðan teiknimyndaþátt frá níunda áratugnum. Kannski eru það brjáluðu vísindamennirnir eða lýsingarnar á umhverfinu og tæknilegar útleggingar Elíasar og Felix sem vekja þessar tengingar, eða kannski barátta góðs og ills með vísindin að vopni – sem var og er nokkuð algengt umfjöllunarefni teiknimynda. Eins og í fyrri bókinni eru orðaleikir áberandi og fyndnar aðstæður, sem skapast af því að Elías og börnin eru ekki alltaf á sömu blaðsíðu, ef svo mætti að orði komast. Þótt titillinn vísi til Kamillu sem aðalpersónu má segja að hún sé ekkert frekar í aðalhlutverki en hinir krakkarnir. Í raun eru það vísindamennirnir Július Janus og Elías sem leika stærstu hlutverkin en annars skiptist aðalhlutverkið nokkuð jafnt á milli persóna bókarinnar.

Í íslenskum barnabókum sem ætlaðar eru lesendum á grunnskólaaldri er nokkuð algengt að lögð sé áhersla á að tengja frásögnina á einhvern hátt við þjóðsagnaarfinn, álfa, tröll og huldufólk, eða í það minnsta einhverskonar galdra. Þetta virðist vera orðið að nokkurs konar hefð í barnabókum, auk félagslegs raunsæis þar sem fjallað er um vandamál á raunsæislegan (og oft niðurdrepandi) hátt. Í Kamillu vindmyllu er farin allt önnur leið þar sem leitast er við að tengja frásögnina frekar nútímanum og dægurmenningu sem ungir lesendur í dag ættu flestir að kannast við.

Í stað þess að álfar og huldufólk standi fyrir því sem er óvenjulegt eða nær út fyrir hversdagsleikann eru hér vísindin númer eitt, tvö og þrjú og er ekki annað hægt í þessu samhengi en að minnast á geimveruþráhyggju, vélkönguló og tölvukubba sem auðvelda hugsanaflutning, eða fólk sem er undir áhrifum hugbreytandi sendis og ráfar um eins og sombíur. Þótt alla jafna séu sombíur lifandi dauðir er svo ekki í þessu tilviki, bara svo það sé á hreinu, heldur óhamingjusamt fólk sem er búið að soga rækilega úr alla lífsgleði. Í framhaldi af því má alveg velta því fyrir sér hvað allt þetta vansæla fólk eigi að þýða? Ég leyfi ykkur að draga ályktanir um það.

María Bjarkadóttir, nóvember 2013