Beint í efni

Í húsi Júlíu

Í húsi Júlíu
Höfundur
Fríða Á. Sigurðardóttir
Útgefandi
JPV-útgáfa
Staður
Reykjavík
Ár
2006
Flokkur
Skáldsögur
Höfundur umfjöllunar
Þorgerður E. Sigurðardóttir

að er komin út ný skáldsaga eftir Fríðu Á. Sigurðardóttur en hennar hefur verið beðið nokkuð lengi. Í húsi Júlíu kallast að mörgu leyti á við aðrar skáldsögur Fríðu, hér er fjallað um konur sem tengjast fjölskylduböndum og kljást á einhvern hátt við tímann og ýmislegt sem honum tengist, svo sem minningar og innsýn í ókomna tíð. En það má segja að tíminn tengist hér skáldskapnum sem slíkum órjúfanlegri böndum en oft og þegar öllu er á botninn hvolft fjallar þessi skáldsaga líklegast um skáldskapinn sjálfan og það í ofurvíðum skilningi.

En byrjum á byrjuninni: Þegar búið er að púsla brotunum saman fjallar þessi saga um tvær ólíkar systur og samband þeirra. Að mörgu leyti er þetta samband ósköp kunnuglegt, svona sambönd hefur maður oft séð í lífinu og ekki síst í skáldskap, Júlía er „venjulega“ systirin, lítur hversdagslega út, hefur fórnað sér fyrir fjölskylduna og heldur utan um allt, tekur þarfir annarra umfram sínar eigin og þar fram eftir götunum. Hún býr ennþá í húsinu sem foreldrar hennar létu eftir sig, hefur aldrei farið þaðan og virðist ekkert á leiðinni burt. Sagan hefst hinsvegar á því, ef hægt er að segja að þessi saga hefjist beinlínis á einhverjum einum punkti, að systirin Lena birtist allt í einu í hvítum kjól, hún er mætt í árlegan áramótafagnað fjölskyldunnar eftir áratuga fjarveru og skyndilega breytist allt. Lena er fíngerð, fögur og ungleg, ekki hversdagslega miðaldra og þunglamaleg eins og Júlía og hún snýr öllum í kringum sig, allir heillast af Lenu sem er flutt til landsins, flutt inn til Júlíu, yfirtekur húsið og stelur minningum hennar. En þegar öllu er á botninn hvolft er Júlía langt frá því að vera eins hversdagsleg og hún virðist í fyrstu og Lena er kannski ekki jafn óvenjuleg og ætla mætti. Sögumaðurinn er ung kona sem kemur á heimilið, að því að er virðist fyrir hálfgerða tilviljun á nánast sama tíma og Lena, en hlutverk hennar innan sögunnar kemur smám saman í ljós. Samband systranna hefur hinsvegar alltaf verið flókið og það flækist bara frekar ef eitthvað er við endurfundina.

Það er fjallað um ýmislegt hérna sem skiptir óneitanlega máli í samtímanum, hræðsluna við að eldast og hrörna, innihaldsrýra rassvasaspeki sjálfshjálparbókmenntanna sem segja líklegast lítið um lífið þegar öllu er á botninn hvolft og breytingaáráttuna, leitina sífelldu að „sniðugum lausnum“ svo eitthvað sé nefnt. Svo er líka fjallað um sitthvað sem sjaldan er fjallað um í íslenskum skáldskap, til að mynda hvatalíf þeirra sem komnir eru yfir miðjan aldur og ástir eldri kvenna á ungum mönnum. En undirliggjandi sagan með sínum umfjöllunarefnum og þemum er ekki það sem gerir þessa skáldsögu merkilega, sem slíkur er söguþráðurinn jafnvel fyrirsjáanlegur. Það sem virkilega vakti áhuga minn á þessari skáldsögu er frásagnarmátinn og það hvernig hugmyndir um tímann, skáldskapinn og minnið koma fram. Frásagnarhátturinn sjálfur er brotakenndur, hér er raðað saman minningabrotum, frásögnum og hugsunum. Takturinn í frásögninni er margbreytilegur, stundum er frásögnin hröð en stundum einkennist hún líka af rofum og endurtekningum. Fortíð, nútíð, og framtíð skarast endalaust og tíminn hefur alls ekki á sér þetta línulega yfirbragð sem hann fær óneitanlega oft í skáldskap og stundum blekkjum við okkur sjálf og höldum að lífið sé einmitt svona, línuleg röð atvika sem við getum svo ráðið í og túlkað atburði og myndað samhengi, að minnsta kosti eftir á.

En einhvern veginn tekst Fríðu Á. Sigurðardóttur að lýsa vel lífsskynjun sem virkar býsna raunveruleg, þessi brotakennda frásögn endurspeglar nefnilega afskaplega raunsæja og trúverðuga upplifun af lífinu þó það hljómi kannski nokkuð mótsagnakennt. Þar renna minningar, hugsanir og staðreyndir saman, minnið getur auðveldlega svikið og þá tekur skáldskapurinn við. Stundum virðast persónurnar jafnvel renna saman og atburðirnir skarast oft einhvern veginn og endurtaka sig, eitt minnir á annað og úr verður miklu fremur einhverskonar margvíð sagnaheild en línuleg frásögn af lífi einnar fjölskyldu. Þó að lesandinn geti rakið sögu systranna nokkurn veginn að lestri loknum er ómögulegt að segja hvað gerðist í raun og veru. Undirliggjandi er svo alltaf meðvitundin um frásögnina, það kemur í ljós þegar líður á söguna að sögumaður er að skrásetja sögu Júlíu jafnóðum og á í þónokkru basli með að raða staðreyndunum saman. Frásögnin fer því gjarnan útaf sporinu, svona rétt eins og hugsunin vill gera.

Þeir sem hafa hrifist af skáldskap Fríðu Á. Sigurðardóttur munu eflaust kannast við ýmislegt hérna, en Í húsi Júlíu sker sig kannski úr að því leyti að meðvitundin um formið er mun meiri en í fyrri sögum þó að hún hafi alltaf verið til staðar og nokkuð áberandi. En það er tvímælalaust einmitt mesti kostur þessarar bókar.

Þorgerður E. Sigurðardóttir, nóvember 2006