Beint í efni

Hundadagar

Hundadagar
Höfundur
Einar Már Guðmundsson
Útgefandi
Mál og menning
Staður
Reykjavík
Ár
2015
Flokkur
Skáldsögur
Höfundur umfjöllunar
Ingvi Þór Kormáksson

„Yfirvöldin sátu í útlöndum og enginn trúði því að heimurinn gæti verið eitthvað öðruvísi en hann var. Menn sungu bara sálma, voluðu og dóu.“ Svo segir í bók Einars Más Guðmundssonar, Hundadagar. Ekki hefur mannlíf á Íslandi talist merkilegt á þeim tíma er Jörgen Jörgensen rakst hingað og gerðist verndari lands og þjóðar eitt sumar á landinu bláa. Ekki miklu að bylta svo sem, segir Einar í þessari víðfeðmu bók sem spannar ævi Jörgens eða Jörundar og auk þess búta úr ævi Jóns Steingrímssonar eldklerks, Finns Magnússonar fornfræðings, Guðrúnar Johnsen og margra fleiri.

Þær eru nokkrar bækurnar sem ritaðar hafa verið um Jörgen Jörgensen, Jorgen Jorgenson, John Johnson eða hundadagakonunginn Jörund og nú hefur enn ein bæst við. Til að nefna nokkrar, þá er þekktasta ævisaga Jörundar hér á landi líklega Jörundur hundadagakonungur (1943) eftir Rhys Davies. The Convict King eftir J. F. Hogan kom út 1891, Doktorsritgerð Helga P. Briem Sjálfstæði Íslands 1809, Sæfarinn sem sigraði Ísland eftir Sverri Kristjánsson kom út 1968 í ritinu Minnisverðir menn. Árið 1985 kom út Hundedagekongen eftir Preben Dich, The Usurper eftir Dan Sproud 2001 og bók Söruh Bakewell sem Skrudda gaf út 2005. Eldhuginn eftir Ragnar Arnalds (2005) er flokkuð sem skáldsaga líkt og bók Einars Más núna. Að auki eru til sjálfsævisögur Jörundar og einnig ýmsar greinar í tímaritum þar sem höfundar velta fyrir sér árinu 1809 í lífi íslensku þjóðarinnar. Einar minnist á sumar þessar heimildir í bók sinni. Það þarf ekkert að fara í launkofa með þær. Mörgum gæti raunar virst sem að verið sé að fylla í bakkafullan lækinn með enn einu ritinu um þennan kóna. En manni gæti dottið í hug að eftir bók sína Íslenskir kóngar hafi höfundur farið að velta fyrir sér fleiri Íslandskóngum. Hver þeirra er merkilegastur, eða þá skemmtilegastur? Auðvitað Jörundur. Ekki eru það danskir kóngar eða norskir.

Sumir kunna líka að undrast hve miklu plássi er eytt í Jón Steingrímsson og Skaftárelda í bókinni. Höfundur varpar fram þeirri hugmynd að hugsanlega hafi þeir eldar átt sinn þátt í að kveikja þá elda sem urðu að Frönsku byltingunni og jafnvel öðrum umbyltingum. Gosmökkurinn sem fylgdi í kjölfar eldanna og eyðilagði út frá sér langt í suðri hafi flýtt fyrir þeim. Og í þessari bók er fjallað um byltingar eða í það minnsta eina byltingu sem er kannski ekki mikilvæg á heimsvísu og kannski ekki einu sinni alvöru bylting, þegar Jörundur hrifsaði til sín völdin á Íslandi. Hann bauð Finni Magnússyni landstjóraembætti eftir að búið var að loka Trampe greifa inni í skipsklefa en Finnur var konungshollur og þverneitaði að taka þátt í uppreisn alþýðunnar. Já, Jörundur vildi að alþýðan fengi meiri völd, gæti kosið og fleira sem yfirstéttinni þótti fáheyrt rugl, hann vildi setja upp varnir eða virki á Íslandi og skyldi sú framkvæmd ekki tekin af skatttekjum sem hljómaði vel í eyrum Íslendinga. Einnig lofaði hann að „aungir utan innfæddir íslendskir mega setiast til verdslegra edur geistlegra Embætta.“ (Helgi P. Briem, s. 247). Þótti þá skörin heldur betur vera farin að færast upp á bekkinn. Svona hegðaði Jörgen sér, kom með allskyns byltingarkenndar tilskipanir rétt eins og Napóleon. - En eitt af því sem tengir ef til vill Skaftárelda við sögu Jörundar er hin sífellda barátta milli Dana og Englendinga. Þeir síðarnefndu litu hýru auga til eyjarinnar í norðri, það væri ávinningur að geta verslað hér. Þessa hnípnu þjóð þjakaða af eldgosum og óáran gat næstum hver sem er hernumið á þessum tímum og því ekki breska heimsveldið. En aðeins Jörundur lét til skarar skríða. Ef hugmyndir sumra enskra hefðu náð fram að ganga hefðu Danir kannski skipt á þessari eyju fyrir aðra í þægilegra loftslagi á suðlægari slóðum og Ísland hefði getað orðið að fanganýlendu til dæmis. Þetta eru ívið hrollkaldar vangaveltur. Hvað hefði þá orðið um Landann?

Og Trampe er enn sem fyrr leiðinlegi gaurinn í þessari frásögn eins og í svo mörgum öðrum. Hann er líka verðugur fulltrúi þess versta í fari danskra ráðamanna, spilltur og fégjarn og trampar á landslýð. Það er honum í hag eins og öðrum Íslandskaupmönnum að okkur séu seldar vörur á uppsprengdu verði. Já, okkur. Höfundur talar nefnilega um okkur; okkur sem lifum núna og okkur sem lifðum þá. Við erum til á tvennum tímum. Í Hundadögum er fullt af tilvísunum til okkar tíma sem er ekki leiðinlegt og tengir okkur við tímann og söguna. Okkur finnst það sem sagt er frá skipta okkur máli ennþá og að við séum partur af þessu öllu saman sem gerðist fyrir meira en tvö hundruð árum. Þannig er vísað til “hinnar” íslensku byltingarinnar, það er Búsáhaldabyltingarinnar sem við vitum að er höfundi hugleikin enda skrifaði hann líka bók um hana. Kannski er það hún sem varð kveikjan að þessari bók rétt eins og kóngarnir íslensku. En báðar þessar byltingar voru óvenjulegar og séríslenskar en höfðu sín áhrif. Í bók Einars er hlaupið fram og aftur í tíma enda óþarft að hafa allt í tímaröð að sögn höfundar. Það skemmir ekki fyrir, gerir frásögnina frjálslegri í sniðum svo að á stundum verður sagan eins og rabb milli vina, nema það er bara einn sem segir frá. Auðvitað er vitnað í hina og þessa; heimildirnar eru margar eins og getið er hér að ofan. En Einar Már setur þetta fram með sínu lagi og á víða rosalega góða spretti. Skáldið er sem sé á miklu flugi í Hundadögum og skýtur upp kollinum í bókinni sem ég, sögumaður sjálfur. Frásagnargleðin er sannarlega ríkuleg, mikið fjör og virðist sem höfundur skemmti sér hið besta. Svoleiðis smitar út frá sér, lesandinn kemst líka í stuð.

Eða er það kannski Jörundur sem kemur öllum í stuð? Kann að vera. Ef til vill hefði hann verið greindur (of) ör á vorum dögum. Alla vega er hann orkumeiri en gengur og gerist og sést stundum ekki fyrir. Hann fær mannaforráð á skipum og siglir vítt og breitt um veröldina, við lendum í heimsreisu með Jörundi og það er ekki leiðinlegt. Að vísu verður hann oft fyrir skakkaföllum en lætur sjaldnast alveg hugfallast, rís upp og dettur eitthvað nýtt í hug. Og oft á hann vináttu vísa hjá áhrifamiklum mönnum; Joseph Banks, Alexander McLeay, Sam Whitbread og lávörðum og ráðherrum, og eins og köttur sem fellur niður nokkrar hæðir kemur hann fótunum fyrir sig og ný ævintýri bíða. Áður en hann lendir hér við nyrstu kletta er nýbúið að taka hann til fanga við Englandsstrendur. En hann er ekki settur í steininn í það skiptið heldur kemst hann í kynni við James Savignac, starfsmann sápukaupmannsins Samuel Phelps, og endar hér uppi á skeri með þeim báðum og grasafræðingnum William Hook aðallega í þeim tilgangi að kaupa tólg handa sápugerðarmanninum. Hvern hefði órað fyrir því að þessi piltur yrði kóngur yfir Íslandi? Ekki hann sjálfan þegar hann lagði af stað í þessa för, svo mikið er víst. Reyndar voru þetta tvær ferðir hingað og það var í þeirri síðari sem það svo æxlaðist að Jörundur varð hér æðsta yfirvald. Þegar það gerðust þvældust þeir ekki fyrir honum skipstjórinn Thomas Gilpin, Savignac, Hook og Phelps, í raun var það sá síðastnefndi sem beinlínis atti honum út í þetta. Þar hékk á spýtunni von um viðskipti. Og Jörundur sjálfur var líka oft að vonast eftir viðskiptum eða hagnaði en jafn oft fór illa. Hann átti annað slagið fé en tókst alltaf einhvern veginn að glutra því frá sér jafnóðum.

Jörundur virðist hafa verið réttsýnn maður, hann tók ætíð málstað hinna undirokuðu, vildi efla hag alþýðufólks eins og kom í ljós af veru hans hérlendis. Við ævilok er hann bjó á Tasmaníu og starfaði þar sem lögreglumaður, sagði hann: “Verði ekkert að gert til að bæta aðstöðu frumbyggja munum við sjá kynstofn hverfa sjónum, kynstofn sem guð hefur valið þennan tiltekna stað” (s. 320). Og svo fór, því miður. Jörundur var líka sískrifandi, skrifaði tvær sjálfsævisögur, önnur á að vera það sem í dag er kallað “skálduð ævisaga” en hinn sönn. En Einar Már segir það alveg eins geta verið á hinn veginn. Ef hann var ekki að skrifa bækur, þar á meðal sagnfræðirit eða jafnvel leikrit, skrifaði hann skýrslur og bréf í allar áttir. Það er helst í fangelsum sem hann gefur sér tíma til þess arna. Þess vegna varð afraksturinn svo mikill, hann hlaut svo oft gistingu á vegum hins opinbera. En í og með hefur hann trúlega skrifað til að reyna að skilja sjálfan sig. Hver var Jörundur? Fyrir honum var það jafn stór spurning og hún er fyrir okkur. Einar Már telur að hann hafi verið maður sem var misskilinn af mörgum og svo misskildi hann sjálfan sig í ofanálag. Á góðum stundum vottaði fyrir Napóleonskomplex í honum. Það hefur hent marga síðan, en Napóleon fór mikinn á dögum Jörundar, var alltaf í fréttunum. Kannski má virða það Jörundi til vorkunnar.

Þrjár konur í lífi Jörundar eru nefndar til sögunnar. Guðrún Einarsdóttir Johnsen var drottning næturlífsins í Reykjavík. Jörundur hreifst mjög af henni sem og fleiri og hlaut hún nafngiftina hundadagadrottningin, svo var það ung kona að nafni Maria Fraser sem hann kynntist aðeins í Þýskalandi en ekkert varð úr sambandi þeirra í millum og í þriðja lagi eiginkona hans á Tasmaníu, Nora Corbett,  sem drapst úr drykkjuskap.

Í bland við frásagnir af Jörundi sem eru auðvitað fyrirferðarmestar í bókinni og sögur af Finni Magnússyni í síðari hlutanum er fylgst með eldklerkinum síra Jóni sem ólíkt Jörundi yfirgaf aldrei ættland sitt en þurfti að glíma við ýmis erfið mál. Hann þurfti meðal annars að svara til saka fyrir hjálparstörf. „Hann var sýknaður af illvirkjunum sem hann var saklaus af en dæmdur fyrir góðverkin sem hann var sekur um“ (s. 224). Með góðum vilja er hægt að samþykkja veru Jóns Steingrímssonar í bókinni en manni finnst Finni Magnússyni heldur ofaukið. Samt erum við í bókarlok stödd með Finni og raunar líka Guðrúnu Johnsen. En  þessar sögur af Finni eru þó ekki leiðinlegar, síður en svo. Í það heila er bókin skemmtileg yfirreið fram og aftur í tíma þótt fyrst og fremst sé fjallað um tíma Hundagakonungsins, eins og búast má við. Hundadagar er ábyggilega ein af bestu bókum Einars Más, stútfull af leiftrandi frásagnargáfu og þægilegri kímni.

Ingvi Þór Kormáksson, nóvember 2015