Beint í efni

Hjá brúnni

Hjá brúnni
Höfundur
Kristín Ómarsdóttir
Útgefandi
Uppheimar
Staður
Akranes
Ár
2009
Flokkur
Skáldsögur
Höfundur umfjöllunar
Úlfhildur Dagsdóttir

Skáldsaga Kristínar Ómarsdóttur, Hjá brúnni, er svo hlaðin táknum að það er ákaflega freistandi að reyna að lesa hana sem lykilsögu og þá sérstaklega útfrá þeim hluta hennar sem fjallar um kúgun stjórnvalda og óttan við listina. En þá væri svo mörgum öðrum þáttum þessa marglaga verks ýtt til hliðar og það smættað dólgslega niður - einmitt að hætti þeirrar kúgunar sem verkið fjallar að hluta til um – að ég hætti mér ekki útá þá braut.

Sagan gerist á rúmlega sólarhring í ókunnugri borg sem sómir sér vel meðal margra heillandi ímyndaðra borga bókmenntanna. Aðalsöguhetjan er ballerínan María, en auk hennar kemur fjöldi persóna við sögu, meðleigjandi hennar og nágrannar, skáld, leikhússtjórar og barnshafandi tengdadóttir leikhússtjórahjónanna, leikhúsfólk, aðdáendur Maríu, brjálaðar konur og ringlaðir ungir menn, og þannig mætti lengi telja. Ekki má heldur gleyma ánni sem rennur í gegnum miðja borgina og klýfur hana í tvennt, yfir ána liggja svo fjölmargar brýr. Hér er strax kominn freistandi táknlykill til túlkunar, ekki síst með tilliti til þeirrar umræðu um sjálfsmorð og dauða tengdum brúm og borginni allri sem er hvað mest áberandi í fyrsta hluta bókarinnar. Tákna brýrnar þau flóknu samskipti sem stöðugt fara fram innan borgarinnar? Samskipti milli yfirvalda - sem á endanum sýna vald sitt - og listamanna, listamanna og almennings, eða mætti frekar hugsa sér brýrnar sem táknmynd þess dauða sköpunarkraftsins sem á endanum markar söguna, þegar alræðið ræðst gegn listamönnum?

María ferðast um borgina og sinnir fjölbreyttum störfum. Bókin hefst á því að hún fer heim að sýningu lokinni og sofnar örmagna útfrá samræðum við stúdínuna, meðleigjanda sinn. Svo vaknar hún eldsnemma næsta morgunn og hjólar þvert yfir borgina til að sinna starfi sínu sem herbergisþerna á hóteli. Þaðan geysist hún enn á ný þvert yfir borgina til að æfa dans í yfirgefnu iðnaðarhúsnæði og er að því loknu enn komin á hjólið, nú til að hlú að barnshafandi konu. Þaðan liggur svo leiðin aftur í leikhúsið. Í síðustu hlutum bókarinnar er María ekki lengur endilega í aðalhlutverki en þar fara ýmsar aðrar persónur, sumar tengdar leikhúsinu, að láta meira til sín taka, ógn alræðisins eykst og aðgerðir þess hefjast.

Þó skal varast að ímynda sér að í Hjá brúnni ríki einhver línuleg framvinda. Höfundur heggur söguna niður í sextán hluta, sem hver skiptist í fjölmarga stutta kafla, sem margir hverjir bjóða uppá linnulausa, stundum þreytandi, en aðallega heillandi útúrdúra. Á sama hátt er ferðast fram og til baka í tíma, einn lykilhluti nefnist „Söguminjar”, en þar er lýst gerræðislegum aðgerðum föður og borgarstjóra gegn dóttur sem hneigist frekar til kvenna en karla.

Í fyrstu hlutunum, þarsem sviðið er sett ef svo má segja, kynnist lesandinn borginni nokkuð vel. Einkenni verka Kristínar Ómarsdóttur njóta sín vel hér, annarsvegar í því hvernig hún skapar tilfinningu fyrir hinu líkamlega - sem ballerínan er glæstur fulltrúi fyrir - og hinsvegar fyrir dásemdum smáatriðanna. Textinn er svo þéttur að lesandi verður að hafa sig alla við til að grípa hin fjölmörgu augnablik alsælu sem hrúgast upp þegar ballerínan og aðrir borgarbúar flakka um borgina og upplifa og njóta. Þó hugmyndin um lífið sem leiksvið sé orðin ákaflega þreytt og þvæld þá öðlast hún algerlega nýtt líf í öruggum tökum höfundar sem lýsir því í kafla um kaffihús hvernig fjölmargar fullkomnar stundir eru beinlínis gerðar til að verða endurteknar, eins og í leikhúsi.

Andspænis þessari dásamlega nánu tilfinningu fyrir smáatriðum hversdagsleikans er svo stillt stórum spurningum, um skáldskap og sköpun, dauða og alræði. Skáldskapur er borginni mikilvægur og listin er Maríu mikilvæg, en hún hefur yfirgefið öruggt starf til að sinna þeirri hlið listarinnar sem henni finnst skipta meira máli og hafa meira uppreisnarafl. Listin sem afl, til vakningar, gagnrýni og uppreisnar - og líka sem vettvangur dauðans - er mikilvægt stef bókarinnar og það eru einmitt þessi hlutverk sköpunarinnar sem stjórnvöld ráðast gegn.

Og það er hér sem það verður freistandi að lesa Hjá brúnni inní íslenskt samfélag. Í umfjöllun um gróðærið og kreppuna hefur nokkuð verið fjallað um hlut lista og menningar og margir orðið til að benda á að róttæk gagnrýni hefði mátt vera fyrirferðarmeiri meðan á gróðærinu stóð - þó vissulega hafi skáld og menntamenn látið til sín taka eftir að kreppan skall á. Má skoða sögu Kristínar sem einskonar lýsingu á því hvernig listin varð að gísli gróðærisins? Ekki er sagan síður áhugaverð í ljósi nýliðinnar umræðu um listamannalaun, en hún teiknar frábærlega upp hvernig listin er meginlífæð borgarinnar - þessvegna mætti sjá ána sem tákn listarinnar - það sem knýr hana áfram og gefur íbúum hennar kraft til að takast á við hversdagsleikann. Þó má ekki gleyma að listin getur líka búið í hversdagsleikanum. Ennfremur ítrekar Kristín, bæði í umfjöllunarefni og framsögn bókarinnar sjálfrar, hvernig listin er ekki endilega eitthvað þægilegt og handhægt, fallegt eða aðgengilegt, listin á (líka) að ýta við fólki, ögra og trufla. Í ljósi þessa verður það óþægilega táknrænt að Hjá brúnni var ekki tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna, þrátt fyrir að hún sé án vafa ein af áhugaverðustu bókum síðasta árs, jafnvel síðustu ára. Þegar saga þeirra verðlauna er skoðuð kemur í ljós að verk eftir Kristínu hafa aðeins tvisvar verið tilnefnd og aldrei hlotið verðlaun.

Hinsvegar er varasamt að ætla að líma of einfalda merkimiða á svo þéttofið og marglita verk. Vissulega er Hjá brúnni hápólitísk bók um pólitískt og róttækt hlutverk lista og ógn alræðisins, en sagan er líka dásamlegt ferðalag um undarlega hugarheima furðulegs fólks, listaverk sem teygir anga sína inn í hvern krók og kima borgarlífsins og afhjúpar hið hversdagslega sem undursamlegt ævintýri.

Úlfhildur Dagsdóttir, mars 2010