Beint í efni

Hér

Hér
Höfundur
Kristín Ómarsdóttir
Útgefandi
Salka
Staður
Reykjavík
Ár
2004
Flokkur
Skáldsögur
Höfundur umfjöllunar
Úlfhildur Dagsdóttir

Nei, hún fékk ekki tilnefningu þetta árið, en það þarf svosem ekki að koma á óvart, Kristín Ómarsdóttir er ekki höfundur sem fellir sig vel að bókmenntatilnefningum. Hversvegna það er get ég ekki sagt til um, en einhvernveginn hefur tilhneygingin verið sú undanfarin ár að það er ákveðin tegund bóka sem passar inn í tilnefningaformattið og Kristín skrifar bara einfaldlega ekki þannig bækur. Margir kalla hana óaðgengilegan höfund. Ég hef aldrei náð því. Ljóðin hennar, þegar henni tekst best upp, eru hrein dýrð, og margar skáldsagnanna með því eftirminnilegra sem ég hef lesið. Sérstaklega er mér minnisstæð Elskan mín ég dey, sem er eitt af þessum ''vanmetnu'' íslensku bókmenntaverkum, vonandi lendir Hér ekki líka í þeim flokki. Kristín er vissulega mistækur höfundur, en það er líka vegna þess að hún er óhrædd við að busla og ólátast og hrella og trylla. Og stundum tekst það og stundum ekki, eins og gengur. Oft er hún jafnvel mistæk innan verka, líkt og svo oft áður við lestur á verkum Kristínar þá varð ég afskaplega impressed af fyrsta þriðjungi skáldsögunnar Hér, en þegar leið nær miðju fór ég að efast – hvað er nú á seyði, hvert er hún að fara með þetta? En mundi þá að ég hef upplifað þetta áður og hugsaði með mér, bíðum eftir að sjá hvernig hún lýkur þessu, og það kom vel á vondan: Kristín hnýtti sína hnúta – eða ekki – með slíkum elegans að ég kom út úr þessum lestrarheimi fullsátt.

Hér er stríðssaga, saga um stríð, saga af stríði. Einhvernveginn finnst mér hún kallast á undarlegan hátt á við skáldsögu Álfrúnar Gunnlaugsdóttur um spænsku borgarastyrjöldina, Yfir Ebrófljótið, en það er kannski bara vegna þess að konur nálgast stríðsskrif á annan hátt? Því það sem gerir Hér svo áhugaverða er hið undirliggjandi þema stríðsleikjanna, stríð sem (stráka)leikur, sem á vissan hátt er líka tónn í sögu Álfrúnar. Nema náttúrulega að Hér er stríðsleikurinn barbíleikur.

Í fyrsta kafla er því lýst að þrír hermenn koma að bóndabæ og skjóta þar alla ábúendur, fullorðna og börn, utan eina hálfstálpaða stelpu. Síðan skýtur einn hermaðurinn hina tvo og sest að á bænum með stelpunni og er greinilega á flótta, liðhlaupi, hættur í stríðsleiknum og fer nú í hversdagslegan bóndaleik. En til að halda þeim leik við þarf að færa vissar fórnir. Hvað á að segja meira? Annar hermaður kemur svífandi í fallhlíf með vistir, þeir félagar eiga fallegt samtal um fótabað og viskýdrykkju eftir tannburstun, ekta KÓ stíll með tilheyrandi kinký undirtónum, daginn eftir er fallhlífamaðurinn horfinn, að sögn hjólaði hann burtu – en hann skildi annan skóinn sinn eftir. Og svo drífur að fleiri gesti, meðal annars syngjandi nunnu... og stúlkan óttast um örlög þeirra. Það væri rosalega gaman að gera á þessari bók alvöru langa bókmenntafræðilega úttekt, greina uppbygginguna, stílinn, og leggja þá áherslu á það ógnarjafnvægi sem Kristín viðheldur alla bókina í gegn. En það verður að vera seinna, því ég vil ekki gefa of mikið upp og án þess að blaðra öllu er slík greining ómöguleg.

Kristín sagði í blaðaviðtali að þegar hún var yngri var hún dauðhrædd við orð eins og boðskapur, en nú tæki hún því fagnandi og væri bara alveg til í að samþykkja að nýja bókin hennar væri full af boðskap. Enda er Hér full af boðskap, þetta er án efa skáldsaga sem deilir á stríð, fáránleika þess og tilgangsleysi. Við vitum aldrei hvaða stríð er í gangi, við vitum ekki hvar við erum stödd, við erum bara Hér, í dal sem stendur fyrir utan stríðið – eða hvað?

Úlfhildur Dagsdóttir, desember 2004