Beint í efni

Gulbrandur Snati og nammisjúku njósnararnir

Gulbrandur Snati og nammisjúku njósnararnir
Höfundur
Brynhildur Þórarinsdóttir
Útgefandi
Mál og menning
Staður
Reykjavík
Ár
2017
Flokkur
Barnabækur
Höfundur umfjöllunar
María Bjarkadóttir

Fjölgun ferðamanna á Íslandi hefur verið mikið í umræðunni undanfarin misseri og haft töluverð áhrif á líf og venjur margra landsmanna. Þó nokkuð hefur til dæmis verið rætt um skammtímaleigu íbúða, þar sem fólk leigir ferðamönnum heimili sín í allt frá nokkrum dögum og upp í nokkrar vikur í senn. Sömuleiðis um mikinn fjölda ferðamanna sem heimsækja helstu kennileiti og náttúruperlur landsins. Margir sjá tækifæri í þessari fjölgun erlendra gesta og margir skapa sér atvinnu sem tengist þessu á einhvern hátt. Oft er talað um að bókmenntir séu spegill samfélagsins og því er ekki svo skrítið að ferðamenn séu áberandi í íslenskum barnabókum um þessar mundir. Í Gulbrandur Snati og nammisjúku njósnararnir verða miklar breytingar í lífi tveggja akureyrskra barna þegar foreldrar þeirra ákveða að reyna fyrir sér í ferðamannabransanum yfir sumartímann, en það má segja að draumar foreldranna um að græða peninga á ferðamönnum sé það sem setur ævintýri þessa viðburðaríka sumars af stað.

Börnin í sögunni eru systkinin Gyða (9 ára) og Gunnar (8 ára) en þau eru búin að skipuleggja allt sumarfríið fyrir foreldra sína, að þeim forspurðum, með utanlandsferðum og útilegum og alls konar skemmtilegheitum. Þegar börnin ætla að fara að kynna þessar áætlanir fyrir foreldrum sínum kemur hins vegar í ljós að pabbi þeirra er búinn að gera allt önnur plön. Hann ætlar að stofna ferðaskrifstofu og fara með ferðamenn upp á Vatnajökul og áður en börnin fá rönd við reist er mamma þeirra búin að leigja íbúðina þeirra til ferðamanna allt sumarið. Hún kaupir hús í eyðiþorpi úti á landi og þar ætlar hún að dvelja sumarlangt og skrifa bók, og börnin eiga að koma með henni. Börnunum líst ekkert á þetta, enda stenst þetta auðvitað engan samanburð við það sem þau höfðu skipulagt. Ekki nóg með að þau verði eina fólkið í þorpinu heldur er langt í næsta þorp, ekkert Internet, takmarkað símasamband og takmarkað heitt vatn. Mamma þeirra ætlast svo til þess að þau leiki sér saman úti allt sumarið. Eins og það sé eitthvað skemmtilegt!

Gyða og Gunnar eru frekar fúl yfir þessum örlögum í fyrstu, þeim finnst illa farið með sig að fá ekki að vera með vinum sínum eða fara til útlanda. Eyðiþorpið Hrefnufjörður virðist í fyrstu frekar leiðinlegur staður þar sem auðvitað er ekkert við að vera. Þegar þau hafa klárað allt lesefni sem þau tóku með sér og látið sér leiðast í nokkra daga fara þau þó að rekast á dularfullar vísbendingar um fjársjóð sem ku vera falinn einhverstaðar í þorpinu. Fjársjóðsleitin vindur upp á sig og allt í einu fara börnin að sjá fleiri ævintýri í lífinu í þorpinu, sem fóru algerlega framhjá þeim áður. Auk þess komast þau að því að vissulega býr einhver í bænum. Það er ferfætt furðudýr sem er annað hvort hundur eða köttur, en þau geta ómögulega komið sér saman um hvort heldur er. Þau ákveða að nefna dýrið Gulbrand Snata en hann reynist ótrúlega klókur og gagnlegur félagi.

Sögusviðið, hið yfirgefna þorp og náttúran í kring, er heillandi og vel gert. Saga þorpsins, sem stóð í miklum blóma þangað til síldin fór, er fléttuð saman við sögu barnanna þegar þau spyrja mömmu sína út í bæinn. Umhverfið og lýsingar á því eru til þess fallin að vekja forvitni lesandans um horfna tíma og merkilegt tímabil í sögu landsins, þó að Gyða og Gunnar hafi afar takmarkaðan áhuga á þessum skýringum og séu yfirleitt löngu hætt að hlusta þegar mamma þeirra segir þeim frá. Þessi örlítið angurværa frásögn af hinu yfirgefna þorpi, þar sem er eins og tíminn hafi stöðvast, myndar svo skarpa andstæðu við næsta þorp þar sem menn hafa umbylt öllu til að selja ferðamönnum upplifanir og ekkert er eins og börnin eiga að venjast.

Andstæðurnar í sögunni eru annars margar, ekki bara Hrefnufjörður og hversdagsleiki barnanna, heldur einnig Gyða og Gunnar sjálf sem eru ólíkar persónur og hafa bæði sína kosti og galla. Þau eru ósammála um margt og gera hlutina á ólíkan hátt, en þegar þau eru búin að fá nóg af því að láta sér leiðast tekst þeim að búa til sín eigin ævintýri og nýta sér umhverfið og aðstæðurnar á skapandi hátt.

Gulbrandur Snati er full af húmor og er lifandi og skemmtileg frásögn af óvenjulegu sumarfríi venjulegra barna. Nýlega stóðu samtökin Barnaheill fyrir símalausum degi til að vekja athygli á áhrifum símanotkunar á samskipti og fjölskyldulíf. Gyða, Gunnar og mamma þeirra sleppa ekki bara símanum í einn dag heldur nánast allri tækni í heilt sumar, reyndar tilneydd að vissu leyti, en þau uppgötva í staðinn heilan ævintýraheim sprottinn úr ímyndunarafli sem lifnar við og dafnar eftir að hafa legið í dvala allt of lengi.

María Bjarkadóttir, nóvember 2017