Beint í efni

Gleðileikurinn djöfullegi

Gleðileikurinn djöfullegi
Höfundur
Sölvi Björn Sigurðsson
Útgefandi
Mál og menning
Staður
Reykjavík
Ár
2005
Flokkur
Ljóð
Höfundur umfjöllunar
Ingi Björn Guðnason

Næturlíf Reykjavíkurborgar hefur orðið nokkrum höfundum af yngri kynslóðinni að yrkisefni á síðustu árum, bæði beint og óbeint. Sú mynd sem dregin er upp af næturlífinu í þessum skáldskap er ekki glansmyndin sem birtist gjarnan í „hverjir voru hvar“ dálkum blaðanna, þar sem allir eru sólbrúnir, sætir og hressir. Í þessum skáldskap birtist næturlífið á allt annan hátt, yfir því er blær glundroða, brjálæðis, hryllings og martraða þar sem einhverskonar heimsendaástand ríkir. Hvorug myndin er fullkomlega raunsæ, en þrátt fyrir það hygg ég að sú síðarnefnda, sem flokkast undir hatt skáldskaparins, sé sannari ef eitthvað er. Þar með er ekki sagt að þessi skáldskapur sé einhvers konar félagslegur raunsæisskáldskapur heldur er raunverulegt sögusvið, sem flestir af þessari kynslóð þekkja, fært inn í skáldskapinn og einkenni þess ýkt til að þjóna honum. Djammhjörðin afskræmist gjarnan og ummyndast, jafnvel í ómennsk fyrirbæri, og veruleiki og fantasía renna saman, sem er kannski ekki fjarri því sem á sér stað í næturlífinu. Í þessu samhengi er skemmst er að minnast skáldsögu Steinars Braga, Sólskinsfólkið sem kom út á síðasta ári og einnig má nefna bókina Sirkus eftir Óttar Martin Norðfjörð.

Verk Sölva Björns Sigurðssonar Gleðileikurinn djöfullegi sver sig í þessa ætt, að minnsta kosti efnislega, þótt formið sé af gjörólíkum toga. Því hér er á ferðinni söguljóð, sem fylgir því formi út í hörgul, auk þess að notast við hefðbundinn bragarhátt. Ég hygg að tvöhundruð blaðsíðna söguljóð hafi ekki komið út á íslensku í fleiri áratugi, þótt ég hafi reyndar ekki kannað það til hlýtar. Hinsvegar hefur nokkuð borið á ljóðum ortum undir hefðbundnum bragarháttum á síðustu árum, m.a. eftir Sölva sjálfan en einnig má nefna verk eftir Hallgrím Helgason, ljóðabókina Ljóðmæli (1998) og leikritið Skáldanótt (2000). Eins og greina má af titli verksins, og laglegri bókarkápunni, byggir það á einu af stórvirkjum bókmenntasögunnar, Gleðileiknum guðdómlega eftir ítalska skáldið Dante Alighieri (1265-1321). Ekki er nóg með að Sölvi Björn nýti sér grunnsöguþráð Inferno, fyrsta hluta Gleðileiks Dantes, heldur notast hann einnig við sama bragarhátt, þ.e. þríhendu eða tersíu. Þríhendan byggir á ellefu atkvæða ljóðlínum sem skiptast á endarími (aba bcb cdc o.s.fv.). Reyndar er söguljóð Sölva Björns ort við síðari tíma útfærslu þríhendunnar, þeirrar sem Jónas Hallgrímsson flutti inn í íslenska skáldskaparhefð með ljóðinu „Gunnarshólma“. Þessi útfærsla þríhendunnar einkennist af því að karl- (einrím) og kvenrím (tvírím) skiptist á í stað kvenríms eingöngu líkt og Dante gerir. Með þessu eykur Sölvi í raun á bókmenntasögulega vídd verksins og kinkar kolli til rómantísku hefðarinnar. Það má reyndar færa fyrir því rök að verkið snúist einkum um bókmenntahefðina og ekki síst stöðu samtímaskáldskapar andspænis hefðinni.

Ljóðið segir frá reykvísku ungskáldi, sem ber hið undarlega nafn Mussju, og ferð hans um næturlíf borgarinnar. Sá munur er reyndar á Gleðileik Dantes og Gleðileiknum djöfullega að hinn síðarnefndi er sagður í þriðju persónu frásögn en sá fyrrnefndi í fyrstu persónu. Fjölmargar hliðstæður eru dregnar á milli þessarar samtímasögu úr Reykjavik og ferðar Dantes til heljar í Inferno. Með Dante í för er rómverska skáldið Virgill en það er Dante sjálfur sem fylgir Mussju um reykvískt næturlíf, sem hér er ígildi helvítis. Í stað Beatrice, hinnar fullkomnu kvenímyndar Dantes í Gleðileiknum guðdómlega, er Klara, fyrrverandi kærasta Mussju ímynd hins fullkomna kvenmanns. Líkt og í upphafi Inferno svífur sjálfsvíg aðalpersónunnar yfir vötnum en Mussju hugleiðir sjálfsvíg nokkrum sinnum í verkinu og gerir raunar tilraun til þess. Í Inferno vaknar Dante upp af draumi, eða í draumi, og er fylgt af Virgli um níu hringi helvítis þar sem fordæmdar sálir dvelja í ævarandi kvöl. Því neðar sem dregur þeim mun verri eru syndir hinna fordæmdu. Mussju rekur sig hinsvegar niður Laugarveginn í för með Dante og kemur við á níu börum, sem verða heldur subbulegri því neðar sem dregur og á kvöldið líður. Fyrst og fremst er það samt ástand Mussju sem verður verra eftir því sem neðar dregur. Það er of langt mál að telja upp fleiri hliðstæður en þó má nefna ýmslegt fleira, t.d. koma fljót eða ár talsvert við sögu í myndmáli ljóðsins og skapa þannig hliðstæðu við árnar Akeron, sem afmarkar helvíti, og Styx sem rennur um það í verki Dantes. Lækurinn sem áður rann eftir Lækjargötu og Tjörnin koma í stað fenkenndu árinnar Styx í helvíti. Einnig mætti nefna frosin poll sem Mussju veltir vöngum yfir og vekur tengsl við ísi lagða sléttu neðst í helvíti Inferno þar sem hinir fordæmdu eru frosnir fastir.

Það er hressilegt að sjá ungan höfund takast á við það verkefni að skrifa samtímabókmenntaverk og nota til þess klassískt form og bragarhátt. Þetta er áhættusamt verk, sem fyrirfram kann að virðast dæmt til að mistakast. Það er auðvitað hæpið að fara fram á að tvöhundruð blaðsíðna söguljóð sé óaðfinnanlega ort en Sölvi Björn hefur gott vald á forminu og bragarhættinum og tekst því að yrkja af miklu öryggi og þegar best lætur mjög lipurlega:

Því þar sem áður vatn með bökkum byltist
nú blágrátt malbik hylur grænan völl,
og þar sem áður stjarna í gárum stilltist
og streymdi vatn í sjó til móts við fjöll,
nú stendur Mussju, stjarna á vegamótum,
og stillist ei við glaumsins dreymnu köll:
(bls. 123)

Stundum er þó líkt og formið beri merkinguna ofurliði og orðaval og orðmyndir eru ekki aðeins fornar heldur beinlínis torkennilegar. Hið sama er hægt að segja um rímorð, t.d. orðin „kútlegð“ og „stútlegð“ sem notuð eru til að ríma við „útlegð“ (bls. 196). Á köflum er því líkt og sagan taki stefnu til að þóknast hinu stranga formi. Og þessi saga er reyndar ekki sérlega bitastæð í sjálfu sér. Hún byggist einkum á endurteknu harmakveini aðalpersónunnar Mussju og frásögn þriðju persónu sögumannsins um ferðalag hans. En eins og fram kom hér að ofan má hugsa sér að ljóðið snúist um stöðu samtímaskáldskapar andspænis hefðinni og þar er kjötið á beinum verksins. Verkið fjallar um samtímann, meira að segja mjög nálægan samtíma, m.a. um atburði og málefni sem hafa verið á forsíðum blaðanna síðasta árið eða svo. Það má því ætla að ýmislegt í textanum gæti orðið nokkuð framandi fyrir lesendur eftir fáein ár, t.d. málaferli Bubba Morthens við Hér og nú. Efnislega er verkið því öðrum þræði „algjört“ samtímaverk. Formið og innihaldið takast því á, fornt form gagnvart atburðum líðandi stundar. Þessar andstæður milli hins gamla og nýja birtast svo á margvíslegan hátt, þar á meðal í Mussju sjálfum sem dýrkar gömul skáldskaparform og er heltekinn af rómantískri hugmynd um skáldskap og af liðnum tíma. Þessi afstaða sést vel þegar Mussju ákallar Reykjavík eins og hún leit út undir lok 19. aldar af miklum sársauka er hann veltist um Lækjargötuna og saknar ákaft lækjarins sem eitt sinn rann þar:

“Hvar er sú á, er forðum straumi fljótum
fram hér með bökkum rann svo mætti ég
af vöskum huga vaða styrkum fótum
strauminn og halda stöðugt næturveg
í átt til Klöru, yfir miljón tálma –
ó, hversu veröldin er breytileg!
Nú er oss gert í fjöldans æði að fálma
með fyllisvínum milli steypukubba,”
(bls. 123)

Sögumaður bregst svo við þessum söknuðarsöng Mussju með því að benda lesandanum á, innan sviga, hve fáránlegt þetta harmakvein hans er:

– (hve blindur er Mussju á sjálfan sig: heil álma
á síðasta bara var teppt er þurfti að gubba
hann sjálfur vegna ofmagns öls í maga) –
(bls. 123).

Enda er Mussju búinn að veltast um bæinn blindfullur allt fram að þessu. Sögumaður er ávallt í írónískri fjarlægð frá söguhetjunni og hæðist gjarnan að honum á þennan hátt. En stundum renna sögumaður og Mussju nánast saman, sem beinir sjónum lesandans enn betur að því hve samofin Mussju er hinum forna frásagnarhætti og þar með skáldskap fortíðarinnar. Þetta sést t.d. í sjöttu kviðu sem hefst á orðum sögumanns: „Og sem úr honum hlandið flýtur gult“ (bls. 45) sem svo aftur verða að línu í eina „útgefna“ ljóði Mussju sjálfs sem er líf hans: „[...] Og hugurinn svífur/til eigin tilveru: sem líf hans ljósti/ljóðið sem engann nema hann sjálfan hrífur:/”Og sem úr honum hlandið flýtur gult,”/fannst honum ágæt lína [...] (bls. 46).

Við þennan lestur spyr maður sig hvort hægt sé að yrkja um samtímann með fornum hætti? Hvað hefur það í för með sér fyrir innihald verksins og til hvers að gera það? Það er áhugavert að í flestum tilfellum sem hefðbundnir bragarhættir eru notaðir til að yrkja um samtímann, fylgir samtími bragarháttarins með í kaupunum á einn eða annan hátt. Ef ekki beinlínis efnislega eins og í Gleðileiknum djöfullega þá a.m.k. hvað orðfæri varðar, eins og á reyndar einnig við um þetta verk. Það er líkt og bragarhátturinn sjálfur krefjist ákveðins tungutaks og ákveðins umfjöllunarefnis og sé ekki nothæfur á forsendum samtímans eingöngu. Í tilfelli Gleðileiksins djöfullega skiptir þetta kannski ekki máli því skapandi spenna hans snýst einmitt um þennan núning hins forna og nýja. Þar liggur grundvallar spurning þessa verks og sú spurning situr í manni að lestri loknum.

Ingi Björn Guðnason, desember 2005