Beint í efni

Flóttinn

Flóttinn
Höfundur
Sindri Freysson
Útgefandi
JPV-útgáfa
Staður
Reykjavík
Ár
2004
Flokkur
Skáldsögur
Höfundur umfjöllunar
Úlfhildur Dagsdóttir

Það er áhugavert að bera sögulegu skáldsöguna Flóttann, eftir Sindra Freysson saman við glæpasögu Arnaldar Indriðasonar, Kleifarvatn. Í báðum sögunum er Ísland sett í alþjóðlegt samhengi stríðsátaka á annan hátt en sést hefur í bókmenntum - allavega annan hátt en ég hef séð í skáldskap. Áhersla beggja sagnanna eru á hið skuggalega svæði njósna, þarsem svik og trygglyndi skiptast á - og skipta sköpum.

Flóttinn segir frá þýskum nasista sem flýr Reykjavík daginn áður en Bretar hernema landið. Hinn ungi og myndarlegi Thomas Lang á sér ýmsa vini á Íslandi, ekki síst vegna þess að margir Íslendingar eru hallari undir nasista en Breta, og með þeirra hjálp tekst honum að fara huldu höfði í eitt ár. Inn í lýsingar á flóttanum blandast svo lýsingar á Íslandi þessa tíma, þjóðfélagi og einstaklingum, hernáminu eru gerð skil, svo og einstaklingum úr hernámsliðinu, en þar fara fyrir tveir gallharðir yfirmenn sem leita Thomasar ákaft og gruna hann um njósnir. Jafnframt kynnumst við Thomasi betur, í köflum þarsem hann rifjar upp ýmis atriði úr ævi sinni og veltir fyrir sér stöðu sinni sem flóttamaður.

Það var kannski helst í þeim hluta, hluta flóttans sjálfs, sem mér fannst skáldsagan veikust. Tákngervingin var of augljós, vangavelturnar of stífar og formlegar og lesandi varð of meðvitaður um þennan hugmyndalega þátt sögunnar. Þetta gerði það að verkum að sagan varð dálítið stirð á köflum og sá of mikið í saumana.

Hinu er ekki að neita að höfundur sýnir hér heilmikla færni í því að setja saman þetta mikla verk, samspil þessara fjölmörgu þátta, lands, þjóðar, þjóðerniskenndar, þjóðernisátaka og einstaklinga var vel spunnið. Minningar Thomasar birtast lesanda í hæfilegum skömmtum og höfundur stingur inn kómískum senum hér og þar til að draga úr dramatíkinni. Fyndnastir þóttu mér samt njósnararnir tveir, Heinz og Helmut, sem höfðust við um stund í yfirgefnum námugöngum og sendu linnulaus dulkóðuð skeyti til Þýskalands, breskum njósnurum til mikillar undrunar, því þeir höfðu ekki gert sér grein fyrir að svona mikið væri um að vera á Íslandi!

Úlfhildur Dagsdóttir, maí 2005