Beint í efni

Flækingurinn

Flækingurinn
Höfundur
Kristín Ómarsdóttir
Útgefandi
JPV-útgáfa
Staður
Reykjavík
Ár
2015
Flokkur
Skáldsögur
Höfundur umfjöllunar
Úlfhildur Dagsdóttir

Flækingurinn í samnefndri sögu Kristínar Ómarsdóttur er mállaus, það er að segja: hann talar hrognamál sem enginn skilur nema mamma hans. Hann heitir Hrafn, kallaður Krummi og hann langar til að eignast barn og kenna því allt um ást. Aðstæður hans bjóða þó ekki beint upp á að þessi draumur rætist, hann er atvinnu- og heimilislaus og hefst við í ólæstri kompu í iðnaðarhúsi, er eignalítill og notar eiturlyf í nokkru magni. Þrátt fyrir þetta kann hann að njóta þess góða í lífinu: nýrra fata úr ferðatösku sem var skilin eftir í leigubíl, vináttu sem honum er auðsýnd; að auki hefur hann hæfileika til að sjá fegurð í kringum sig, þegar svo ber undir.

Þetta gæti hljómað eins og tilfinningaleg saga af undirmálsmanni, tilraun til að upphefja líf hans og gera úr því hálfgerða helgisögu. Sú er þó ekki raunin, þrátt fyrir að Krummi sé vissulega saklaus á margan hátt, jafnvel einskonar engill, þá er ljóst að líf hans er fjarri því að vera himneskt og myrkari hliðum tilveru hans eru miskunnarlaust gerð skil. Jafnframt forðast sagan alla tilfinningasemi þegar kemur að því að deila á stöðu þeirra sem verða undir í samfélaginu, þó sannarlega sé í henni þungur undirtónn.

Í upphafi sögunnar er Krummi ágætlega settur. Hann er fastagestur í húsi Laufeyjar og á þar góðan vinahóp sem sér honum fyrir þeirri vímu sem hann þarfnast. Hann aðstoðar Laufeyju við að gera upp húsið og þrífa og er í nokkuð góðu jafnvægi. En jafnvægi meðal eiturlyfjaneytenda er ekki mjög stöðugt og svo fer að hann reiðist og rýkur burt í fússi – en þó miður sín. Næst verður á vegi hans Engilbjartur Bjartson (sem heitir Pétur Karlsson), svartur smáglæpamaður sem verður fyrir fordómum vegna litarháttar síns. Saman ferðast þeir um breiða braut afbrota, en samstarfið felst í því að hinn hávaxni Hrafn lyftir fínlegum félaga sínum upp í opna glugga og þaðan tæmist þeim fé. En svo fer allt úrskeiðis þegar Engilbjartur byrjar að hefna harma sinna og harma Hrafns.

Sögur þessara tveggja eru uppistaðan í ‚plottinu‘, og hægt og rólega raðast saman mynd af því hvernig þessir tveir gerólíku menn, með gerólíkan bakgrunn, enda á götunni af ólíkum ástæðum. Við fáum minna að vita um aðrar persónur, þó helst um velgjörðakonu Hrafns. Meginþungi verksins liggur í lýsingum á daglegu lífi hins heimilislausa og tilraunum hans til að búa sér heimili, samskiptum við umhverfið og svo athugunum hans og hugsunum. Það er í þessu sem hinn sérstaki stíll Kristínar og sýn hennar á umhverfið, nýtur sín út í ystu æsar:

„Herra fulltrúi, ég lifi og starfa sem útigangsmaður í Reykjavík. Starfið felst í því að vera útundan. Ég tel ég megi fullyrða að ég sé bara góður í því og að búðareigendur miðbæjarins gæfu mér meðmæli ef þess væri óskað. Þjóðfélagið þarfast harms svo venjulegt fólk finni til. Ákveðjum prósentufjölda hverrar kynslóðar verður að ýta út á kant. Mér ber að ganga daglega um bæinn og skapa viðbrögð og tilfinningar hjá samborgurunum [...].“ (161)

Ádeilan, sem nóg er af, birtist ekki í langorðum lýsingum á kerfi sem bregst eða ítarlegum útlistunum á yfirvöldum sem koma illa fram, heldur er henni komið að á látlausan hátt, í lýsingum á daglegu lífi Krumma og félaga, auk vangavelta hans um hitt og annað sem á vegi hans verður. Það er í þessum athugunum hins mállausa útlaga sem helgimyndin birtist og lesandi skynjar hvað sárast það sem tapast. Írónían er þó aldrei fjarri, hér er Hrafn enn að velta fyrir sér eigin eftirmælum: „„Flækingskosturinn er æðsta stig mannlegrar tilveru,“ segja hinir skáldlegu, „flækingurinn sameinast himneskri vídd á augnablikinu sem hann gengur út og sameinast fuglum himinsins. Það er hugrakkasta lífsval einstaklingsins““ (161).

Ljótleikinn er þó alltaf nærtækur og Kristín forðast að hvítþvo persónur sínar. Þetta kemur vel fram í því þegar Hrafn uppgötvar mátt ofbeldisins og spyr sig: „„Er ofbeldi stafróf mitt og sú tjáning sem fólk skilur?“ [...] Felldi ég tár hlógu allir og ég mest. Það hafði ég reynt: að gráta ef ráðist var á mig. Berði ég frá mér hlógu fáir og fólk bugtaði sig jafnvel fyrir mér. Með ofbeldi öðlaðist ég vald, virðingu“ (127). Hrafn er stór og sterkur og lærir að berja frá sér í hörðum heimi. Á stundum tekur ádeilan á sig ævintýralegan blæ eins og í lýsingunni á eignaréttinum, sem „er atvinnuskapandi [...] og skapar störf lögregluþjóna, lögfræðinga, dyravarða, húsvarða, tryggingafólks, öryggisvarða, bankastarfsfólks og fangavarða.“ Og Hrafn spyr:

„Hvað skapar eignarétturinn marga glæpamenn?“

[…]

Þar sem ég lá í mestu makindum ímyndaði ég mér hvernig eignarétturinn lit út væri hann dýr: köntuð skepna með sogskálar á fótum, óendanlegan fjölda rana sem enda í kyssulegum snúði og snúðurinn sá límir sig við börn, fullorðna, gamalmenni, dýrgripi og gull, tottar menn og sýgur brjóst, gælir við krakkana með sykurslími, úðar yfir akrana eigin hlandi.

Andlit dýrsins hefði óteljandi hringsnúandi spúandi augu en eyrun væru tengd við mjórri rana sem næmu allt um leið og út úr þeim rynni endalaus grautur. Dýrið héldi á spegli og spegilmyndin sýndi fegurðardís með blómakrans í hárinu, ástfangið af sex ára stúlku sem horfði á dýrið og vildi gefa því kanelsnúð. Þess vegna féllu tár úr hundruðum augna þess.

Ég vorkenndi eignaréttinum. Dag einn yrði telpan gömul og myndi deyja. Hann yrði einn eftir í heiminum og engin börn og gamalmenni að sjúga. (159)

Enn á ný varð mér hugsað til orða Kristínar Ómarsdóttur um óttann við boðskap skáldskapar. Hún hafði þá sent frá sér skáldsöguna Hér (2004) sem fjallar um stríð og sagði í viðtali að hún hefði alltaf forðast að láta sögur sínar verða of pólitískar. En svo hefði hún fundið sig knúna til að fjalla um stríð og deila á það. Síðan þá hefur Kristín skrifað tvær skáldsögur sem vel má lesa sem ádeilusögur, Hjá brúnni (2009) og Millu (2012). Þessi þrjú verk eru þó öll mun ævintýralegri en Flækingurinn, sem er raunsæasta saga Kristínar, án þess þó að höfundareinkenni hennar – undraheimar ímyndunaraflsins – séu horfin.

Flækingurinn er að mörgu leyti ein aðgengilegasta saga Kristínar, án þess þó að höfundurinn slaki á þeim kröfum sem hún er vön að gera til lesenda sinna. Verk hennar einkennast af flókinni fjölröddun sem ekki er alltaf auðhlaupið að festa hendur á, en gerir það að verkum að einbeitingin verður fullkomin, því það er hætta á að missa úr slag. Hún spilar á tóntegundir trega og gleði, andúðar og samúðar og blandar sinni sérstæðu útgáfu af hinu ævintýralega, án þess þó nokkurn tíma að tapa jarðtengingu við það sem kalla má veruleika. Í verki sem fjallar að hluta til um eiturlyfjaneyslu verða þessi áhrif sérstaklega áberandi: ég upplifði lesturinn stöðugt eins og einhverskonar vímu. Þó textavefnaðurinn í Flækingnum sé ekki eins flókinn og í hinu magnaða stórvirki Hjá brúnni eru áhrifin engu síðri, Kristín gerir allt í senn að heilla, skelfa og græta og gleðja.

úlfhildur dagsdóttir, ágúst 2015