Beint í efni

Farþeginn og Kjörbúðarkonan

Farþeginn og Kjörbúðarkonan
Höfundur
Ulrich Alexander Boschwitz
Útgefandi
Dimma
Staður
Reykjavík
Ár
2022
Flokkur
Skáldsögur
Farþeginn og Kjörbúðarkonan
Höfundur
Sayaka Murata
Útgefandi
Angústúra
Staður
Reykjavík
Ár
2022
Flokkur
Skáldsögur
Höfundur umfjöllunar
Vera Knútsdóttir

Nú á vormánuðum komu út í íslenskri þýðingu tvær erlendar bækur sem eru allólíkar en eiga það sameiginlegt að vera þýddar af Elísu Björgu Þorsteinsdóttur ; þýðanda sem kynnt hefur Íslendingum bókmenntir frá ýmsum heimshornum. Þess má geta að Elísa Björg hefur þrisvar sinnum verið tilnefnd til íslensku þýðingarverðlaunanna, síðast árið 2020 fyrir hina átakanlegu Kona í hvarfpunkti eftir egypska kvenrithöfundinn Nawal El Saadawi sem, eins og Kjörbúðarkonan, er gefin út af Angústúra forlagi. Kjörbúðarkonan er japönsk saga eftir japanskan höfund, Sayaka Murata að nafni, en tekið er fram aftast í bókinni að Elísa Björg þýðir verkið úr ensku, þýsku og dönsku. Þetta er fyrsta verkið sem kemur út á íslensku eftir Murata sem er ötull höfundur og hefur sent frá sér tíu skáldverk, skáldsögur og smásagnasöfn á síðustu árum. Þessar upplýsingar og fleiri eru reifaðar í eftirmála sem Kristín Ingvarsdóttir, lektor í japönskum fræðum við Háskóla Íslands, skrifar. Þar er verkið sett í samhengi og staðsett í japönskum samtíma og höfundur þess kynntur lesendum. Bókin er liður í áskriftarröð Angústúru sem allt eru sögur í þýðingum og koma hvaðanæva úr heiminum og „gefa innsýn í ólíka menningarheima og víkka sjóndeildarhringinn“ eins og segir í kynningartexta aftast í bókinni. Angústúra á skilið lof fyrir vandaða útgáfu á erlendum bókmenntum, fyrir að lyfta upp þýðingum og þýðendum, og ekki síst að leggja natni við hönnun og útlit bókanna sem gera þær að eigulegum safngripum.

 

Farþeginn eftir Ulrich Alexander Boschwitz, úgefandi Dimma.

 

Ekki er tekið fram úr hvaða tungumáli þýðandi þýðir Farþegann, sögulega skáldsögu eftir þýska höfundinn Ulrich Alexander Boschwitz sem skrifar söguna þegar hann sjálfur hefur flúið Þýskaland nasismans ásamt móður sinni. Sumir myndu segja að það væri nokkuð augljóst að þýðingin væri úr þýsku en eins og eftirmálinn gefur til kynna, sem skrifaður er af útgefanda verksins Peter Graf, skrifaði höfundur bæði á þýsku og ensku, sem tengist stöðu hans sem rithöfundur á flótta og gyðingur á tímum seinni heimsstyrjaldar. Boschwitz þurfti oftar en einu sinni að yfirgefa heimili sitt, flýja og var að lokum fangelsaður og lést um borð í fangaflutningaskipi aðeins 27 ára að aldri. Fyrrnefndur Graf, útgefandi verksins, finnur það í skjalasafni árið 2015, óklárað, ákveður að laga það til og gefa út rúmum sjötíu og fimm árum eftir að það var skrifað. Það er því ljóst að verkinu fylgir ákveðin ára – ég vil ekki segja heilagleiki - sem lýsir sér í því að höfundur verksins er ungur, og þar að auki deyr hann ungur á hetjulegan hátt. Þá er sagan ein sú fyrsta sem er skrifuð um þær ofsóknir sem gyðingar verða fyrir í Þýskalandi eftir kristalsnóttina svokölluðu árið 1938.

 

Við fylgjum Otto Silbermann, kaupsýslumanni og gyðingi í Berlín, sem neyðist til að flýja heimili sitt eftir að nasistar hafa komið þar við, haft í hótunum, brotið og bramlað. Eiginkona Silbermanns flýr til bróður síns, en hún er ekki gyðingur heldur aríi, eins og það er nefnt í bókinni, sem dregur fram þá harðneskjulegu flokkun sem varð á samfélagsþegnum Þýskalands og Austurríkis á aðeins örfáum mánuðum. Silbermann lýsir því til að mynda hvernig allt virðist eins og venjulega, en samt ekki, því menn eins og hann lifa við stöðuga lífshættu, vita aldrei hvenær eða hvernig þeir verða gómaðir, né hvar hættan leynist nákvæmlega. Þessar kringumstæður minna óneitanlega á hugmyndina um „das unheimliche“ þegar hið viðtekna og venjubundna umbreytist í andstæðu sína og verður hættulegt, og eins á alsjá Foucaults þegar valdið og valdbeitingin tekur að starfa innra með samfélagsþegnunum sem óttast stöðugt að það sé verið að fylgjast með þeim. Sonur Silbermanns er við nám í París og leitast við að hjálpa föður sínum að flýja þangað en það virðist ómögulegt – því ekki var hægt að yfirgefa Þýskaland án vegabréfsáritunar og til að fá hana þurftu menn að gefa sig fram við yfirvöld. Fyrir gyðing þýðir það að framselja sig óvininum. Flokkunin „Aríar og gyðingar“ skapar ákveðnar samfélagslegar aðstæður og örvæntingu en Silberman reynir sem best að blandast fjöldanum, aðlaga sig að arísku normi, til þess að komast af, finnast ekki og verða fangelsaður. Hann leitar útgönguleiða, fer til nokkurra þýskra borga, en finnur að hann er hvergi velkominn. Hann freistar þess að flýja yfir til Belgíu en er gómaður og sendur til baka. Hann sér sig þar af leiðandi tilneyddan að vera stöðugt á ferðalagi, ferðast á milli borga Þýskalands með lestum, en í lestarklefanum getur hann í það minnsta slakað á og dormað. Í stað þess að „flytja inn“ í annað land gerist hann innflytjandi í þýsku ríkisjárnbrautunum eins og þetta textabrot sýnir:

Nú er ég ferðalangur, alltaf á ferðinni, lengra og lengra.

              Ég er reyndar þegar fluttur úr landi.

              Ég er innflytjandi í þýsku ríkisjárnbrautunum.

              Ég er ekki lengur í Þýskalandi.

              Ég er í lestum sem fara um Þýskaland. Á því er mikill munur.

[...]

Ég er öruggur, hugsaði hann, ég er á hreyfingu. (156)

Silbermann verður því tilneyddur „flaneur“ sem berst áfram stefnulaust um járnbrautir Þýskalands. Hér vantar aftur á móti rómantíkina og frelsið sem yfirleitt einkennir flanörinn því Silbermann er örvæntingarfullur og taugaveiklaður, óttast um líf sitt og sinna nánustu, og missir að endingu vitið að því er virðist. Stíll sögunnar minnir á vitundarflæði eins og það birtist í bókum Virginiu Woolf og James Joyce þar sem lesendur koma sér fyrir í hugum sögumanna og fylgjast með þeim frá þeirra eigin sjónarhorni þegar þeir berast um umhverfi sitt og rifja upp atburði úr lífi sínu. Hugsanaflæði Silbermann er þess utan fléttað við þekkta atburði úr þriðja ríkinu sem gefur sögunni sögulegt vægi og stillir henni upp sem sögulegri skáldsögu. Sagan tengist því hefð helfararbókmennta, sem er gríðarlega mikil, stór og þung hefð,  og myndar að vissu leyti kjarnann í nútíma tráma- og minnisfræðum.

 

Á tímabili heyrðust gagnrýnisraddir um að nóg væri komið að frásögnum um helförina og nokkrum áratugum eftir seinni heimsstyrjöld hafa fræðimenn eins og Andreas Huyssen talað um að orðið hafi nokkurskonar minnissprenging (e. memory boom) á Vesturlöndum, þar sem fólk kepptist við að minnast liðinna atburða með ýmsu móti; textalegum og sjónrænum frásögnum eins og skáldsögum, heimildamyndum og leiknum kvikmyndum en einnig í formi safna, sýninga og minnismerkja. Þá hefur Marianne Hirsch skrifað um það hvernig ljósmyndir sem tengjast helförinni og sýna hrylling útrýmingabúðanna hafa náð fótfestu í vestrænni menningu, orðið að íkónískum táknum, hálfgerðir samnefnarar fyrir það sem í nútímanum er skilgreint sem sjónrænt tráma. Það er ef til vill þess vegna sem ég tel að margir álíta sig þekkja helförina og vera meðvitaðir um afleiðingar hennar – hafa jafnvel fengið nóg af stöðu hennar sem miðlægt tráma í vestrænni menningu. Engu að síður er sífellt að koma í ljós að sú þekking er ef til vill yfirborðskennd og takmörkuð, og svo eru það þeir sem afneita tilvist helfararinnar með öllu, halda því statt og stöðugt fram að atburðirnir hafi ekki átt sér stað eða ekki með þeim hætti sem þekkist. Saga Boschwitz rifjar ekki aðeins upp harmleik og hrylling stríðsins heldur gerir lesendum kleift að dvelja í huga flóttamanns um stund, fá innsýn inn í þær kringumstæður sem skapast þegar fólk neyðist til að yfirgefa heimili sitt, er hvergi velkomið og býr við stöðuga yfirvofandi lífshættu. Þá gefur sagan einnig áhugavert sjónarhorn á helförina því hér er frásagnatíminn frá upphafi stríðs – áður en vitneskjan um búðirnar breiðist út um heiminn og verður jafn rótgróin og hún er í dag.

 

Kjörbúðarkonan eftir Sayka Murata, útgefandi Angústúra

 

Á meðan Otto Silbermann finnur öryggi í að vera á hreyfingu og ferðast, upplifir Furukura, söguhetja Kjörbúðarkonunnar, sig öruggasta á vinnustað sínum, kjörbúðinni, þar sem hún þekkir hvern krók og kima eins og lófann á sér og þar sem starfsmannahandbókin veitir henni ákveðið haldreipi í mannlegum samskiptum og hegðun. Stíll sögunnar er heillandi, ekki síst á fyrstu síðunum sem draga lesandann inn í hljóðheim kjörbúðarinnar:

Hringingin í bjöllunni við dyrnar þegar viðskiptavinir koma inn, raddir ungra sjónvarpsstirna sem auglýsa nýjan varning í hljóðkerfi verslunarinnar, köll starfsfólksins, pípið í strikamerkjaskannanum, daufir dynkir þegar vörur eru lagðar í körfur, skrjáf í brauðpokum og skellir í skóhælum á gangi um búðina – allt blandast þetta saman við kjörbúðarhljóminn sem gælir án afláts við hljóðhimnurnar í mér. (13)

Það er eitthvað heillandi við þennan heim, nostalgískt, ekki síst fyrir lesendur sem muna eftir íslenskum kjörbúðum, sjoppum á hornum, hvað þá undirritaða sem vann lengi vel meðfram skóla í Bónusvidjó við Holtaveg... lyktin af gömlum gúmmíböngsum, suðið í mjólkurkælinum, plaggöt með myndum af skærustu stjörnum níunda áratugarins og Léttbylgjan í hátölurunum. I love it! Eins og Kristín Ingvarsdóttir skrifar í eftirmála kallast japanska kjörbúðin „konbini“ sem er stytting á enska orðinu „convenience store“. Hún er opin allan sólahringinn, finnst á hverju götuhorni, og verður að staðföstu einkenni í japanskri menningu en japanir eru svo háðir þessum litlu búðum að þeir hafa verið nefndir „konbini-þjóð“ (139). Það er ekki laust við smá rómantík í lýsingu Kristínar á fyrirbærinu: „Þær lýsa í myrkrinu, þar er alltaf heitt á könnunni og þar er alltaf tekið vel á móti manni með kallinu „irasshaimasé“. Þær gefa frá sér ofurbjart en vinalegt ljós, eins og viti í myrkri fyrir einstæðinga á ferð“ (139). Og nákvæmlega þannig er kjörbúðin hennar Furukara sem nefnist Smile Mart og þar sem hún hefur starfað í átján ár í lausamennsku.

 

Furukura er annars afar sérlunduð og sérstök kona, en það persónueinkenni kemur strax fram í æsku því hún lýsir því hvernig hún hafi alltaf verið á skjön við önnur börn og ekki lagt sama skilning í ákveðin atriði og þau. Hún birtist sem köld, tilfinninga- eða tengslaskert, og virðist ekki hafa samkennd með nokkrum manni, nema systur sinni, sem hefur reynst henni vel og leiðbeint henni í þeim frumskógi sem mannlegt samfélag og samskipti geta verið. Sem dæmi má nefna þegar hún lemur skólabróður sinn í höfuðið með skóflu og þykir ekkert athugavert við það og eins þegar hún hittir nýfæddan frænda sinn sem hún skilur ekki að henni eigi að þykja eitthvað merkilegri en önnur börn.

 

Aftur á móti finnur hún sig á heimavelli í kjörbúðinni, sem verður ekki aðeins að hornsteini í sjálfsmynd hennar, heldur blandast hún líkama hennar, eins og hún nefnir sjálf á nokkrum stöðum í sögunni. Hún lifir til dæmis alfarið á mat úr búðinni og segir á einum stað: „Þegar ég leiði hugann að því að líkami minn sé allur úr mat úr þessari verslun finnst mér ég vera jafn mikill hluti af henni og blaðarekkarnir eða kaffivélin“ (30). Og þegar hún einn daginn ákveður að segja starfi sínu lausu vegna utanaðkomandi þrýstings, upplifir hún vægast sagt mikla tilvistarkrísu sem snýr ekki síður að líkama hennar og heilsu: „Ég vissi ekki lengur hvaða reglum ég átti að fylgja í tilverunni. Áður fyrr hafði líkami minn tilheyrt búðinni, líka þegar ég var ekki í vinnunni. Ég svaf til þess að halda mér í formi fyrir búðina og borðaði í sama tilgangi. Það var hluti af vinnunni“ (123). Í þessum skilningi má greina söguna og söguhetjuna sem gagnrýni á firringu kapítalísks samfélags þar sem fólk er skilgreint út frá stöðu sinni í samfélaginu og starfi, en sú gagnrýni nær einnig út fyrir þann ramma og beinist almennt að þeim þrönga stakk sem samfélagið sníðir þegnum sínum. Furukura er vel meðvituð um að hún er „óþægilegt frávik“ við hið „viðurkennda hegðunarmynstur“, eins og ein sögupersónan kemst að orði, þar sem hún er ekki gift, á ekki börn og starfar í lausamennsku í kjörbúð, hálfgerðri sjoppu, í stað þess að vera fastráðin við virðulegt fyrirtæki og sinna helst skrifstofustörfum. Á þetta er hún reglulega minnt þegar hún talar við fjölskyldu sína eða hittir gamlar skólasystur. Afar japanskt þema gætu einhverjir lesendur hugsað sér og já, það er rétt að japanskt samfélag er einkar formfast, en gagnrýnin á einnig við um önnur samfélög sem lúta reglum og fjötrum kapítalisma. Við lofum fjölbreytni á tyllidögum en hún passar misvel inn í það kapítalíska kerfi sem við höfum skapað, þar sem þú þarft umfram allt að vera arðbær til að fá að vera í friði og draga andann.

 

Að þessu leyti mætti tengja söguna við félagslegt raunsæi, það er ef það er ekki löngu úrelt hugtak þegar samtímabókmenntir eru skilgreindar, en samfélagsgagnrýnin einkennist einnig af húmor og nostalgíu. Og lýsingar á mat í skáldskap leysa einhvern angurværan kraft úr læðingi - eða er ég lesandi sem les með maganum/bragðlaukunum? Á köflum minnir sagan á kvikmynd, lýsingarnar eru sjónrænar svo að Furukura og búðin hennar birtast ljóslifandi í hugskotum lesenda.

 

Kjörbúðarkonan veitir þannig íslenskum lesendum glugga út í heim og gerir þeim kleift að kynnast ofurlitlu broti af japanskri menningu. Farþeginn rifjar aftur á móti upp sögulegt tráma sem virðist endurtaka sig aftur og aftur, og veitir innsýn í kaldranalegan veruleika þeirra sem þurfa að leggjast á flótta – eins og á einmitt við um milljónir manna í heiminum í dag.
 

 

Vera Knútsdóttir, júní 2022